Rannsókn á framferði lögreglu

Ég vil rannsókn á framferði lögreglu síðustu daga. Slíkt hlýtur líka að vera krafa lögreglumanna sem telja að sér vegið með þeim sögum sem hafa verið sagðar um þá undanfarið. Það er ekki boðlegt að þetta sé ókannað.

Rannsóknarnefndin gæti verið skipuð fulltrúum frá lögmannafélaginu, læknafélaginu og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Grófasta ofbeldið þarf augljóslega að fara fyrir dómstóla en fyrir mitt leyti, fyrir árásina á mig, væri ég sáttur við að upp úr þessu kæmi betri starfsreglur og betri lögregla. Það þarf nauðsynlega að losna við ýmsa þarna. Ólíkt mótmælendum getur lögreglan passað að fulltrúar hennar séu til fyrirmyndar. Um leið og lögreglan er til fyrirmyndar eru minni líkur á að mótmælendur séu til vandræða.

Það er til gríðarlegt magn gagna. Árásin á mig hlýtur til dæmis að sjást á öryggismyndavélum sem eru allsstaðar í kringum þinghúsið. Videoupptökur og ljósmyndir eru til í þúsundatali. Við höfum þegar séð margar sem sýna hve fráleitt ofbeldi lögreglu var. Ég myndi kalla það handahófskennt en það var það ekki, þeir voru einmitt að taka út þá sem voru að skapa þessi gögn sem við þurfum á að halda. Það er líka hugsanlega til eitthvað af upptökum af fjarskiptum lögreglunnar.

Ef lögreglan hefur ekkert að fela þá hlýtur hún að taka undir þessa kröfu mína.

Viðbót:
Að sjálfssögðu á að kæra fífl sem ráðast á lögregluna. Mig grunar að einhverjir bjálfar myndu halda fram að ég vildi það ekki. Allir þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Sjálfur vildi ég ekki einu sinni kasta eggi í þinghúsið þegar mér var boðið slíkt.