Keyptir fjölmiðlar

Ef Fréttablaðið og Morgunblaðið bera einhverja virðingu fyrir sjálfum sér sem fjölmiðlum ættu þeir að birta súluritið sem við sjáum hjá Matta, eða eitthvað svipað, og upplýsa um leið hverjir það voru sem borguðu fyrir nafnlausu villandi skattahækkanirnar.

Það hefur rifjast upp fyrir mörgum að svipað mál kom upp 1996 þegar í Morgunblaðinu birtust auglýsingar gegn Ólafi Ragnari Grímssyni. Það er þó rétt að benda á að þá tók Mogginn ekki í mál að birta svona auglýsingar án þess að tilgreina hverjir stóðu að því. Gefum Matthíasi Johannessen ritstjóra orðið:

Höfum haft nokkur óþægindi vegna neikvæðra auglýsinga í Morgunblaðinu um Ólaf Ragnar; um fjörutíu manns hafa sagt blaðinu upp. Fólk er ekki vant slíkum auglýsingum þótt þær tíðkist erlendis og viðbrögð þess byggjast ekki á rökum heldur tilfinningum. Þeir sem bregðast ókvæða við eru, að ég held, flestir stuðningsmenn Ólafs Ragnars en þó eru einhverjir aðrir sem kunna ekki við þessa áróðursaðferð og hafa fengið samúð með Ólafi Ragnari, jafnvel einhverjir sem hafa ákveðið að kjósa hann þótt þeir hafi ætlað að kjósa annan frambjóðanda áður. Mennirnir á bak við þessar auglýsingar eru Sigurður gamli Helgason fyrrum forstjóri Flugleiða, Ómar í Þýzk-íslenzka og Björgúlfur í Hafskipum. Við vildum ekki birta auglýsingarnar nema að því tilskildu að við gætum sagt frá því í frétt hverjir að þeim stæðu. Það var samþykkt.

Ætli það hafi ekki töluvert fleiri en 40 sagt upp Mogganum í þetta skipti. Annars spái ég því að orð Matthíasar eigi eftir að sannast nú. Fólki líkar ekki svona aðferðir og það mun beita atkvæði sínu til að undirstrika þá andúð sína á þeim.