Hvað að kjósa?

Ég held að þetta séu ekki mikilvægustu kosningar í sögu lýðveldisins en þær eru nálægt því. Ég giska að mikilvægustu kosningarnir hafi farið fram árið 2003. Ég held að það hafi verið „point of no return“.

En já, merkilegt nokk ætla ég að kjósa VG. Spurningin er hvers vegna?
Ég kaus VG fyrst 2003. Árin áður hafði ég endurskoðað allt það sem ég hafði hugsað um pólitík. Ég kaus Framsókn tvisvar, 1998 og 1999. Þá aðhylltist ég held ég realpolitik. Ég var líka ungur og vitlaus.

Kosningarnar 2003 fóru fram í skugga Íraksstríðsins. Mér finnst ennþá stórfurðulegt að ríkisstjórnin sem studdi það hafi haldið velli. Ég tel að sá glæpur hafi verið stærri en allt það sem leiddi til bankahrunsins.

Ég gekk í VG síðla árs 2004. Það var eftir að hafa heyrt Samfylkingarmenn tala illa um flokkinn og segja að hann væri fyrir fólk sem þjáðust af þeim misskilningi að pólitík snerist um rétt og rangt. Ég áttaði mig á því að ég þjáðist af þessum sama misskilningi og kannski ætti ég bara heima inni í flokknum.

Ég hef ekkert alltaf verið glaður með flokkinn. Stundum hef ég verið fokvondur út í hann. Ég hef íhugað að ganga úr honum líka. En ég hef líka áttað mig á því að aðildin að flokknum færir mér tækifæri til að hafa meiri áhrif á hið lýðræðislega ferli en ella.

Ég held að í aðalatriðum hafi VG haft rétt fyrir sér síðastliðinn áratug. Ef VG hefði haft meiri áhrif hefðum við allavega haldið einum ríkisbanka sem hefði verið ómetanlegt þegar kom að bankakreppunni. Við hefðum líka safnað í gjaldeyrisvaraforðann. Ríkið hefði ekki farið í þensluhvetjandi framkvæmdir sem blésu upp blöðruna okkar. Fallið hefði allavega ekki verið jafn harkalegt og það varð. Við hefðum líka haft betri lög um hlutabréfamarkaðinn. Allavega strangari. Við hefðum ekki stutt Íraksstríðið. Við hefðum getað losað okkur við bandaríska herinn á eigin forsendum í stað þess að sitja uppi eins og hóra sem svikin var um greiðslu.

Ég er langt frá því að vera hrifinn af öllum sem sitja á þingi fyrir VG og verð væntanlega ekki hrifinn af öllum sem koma inn á þing núna. En flestir eru þeir skárri en restin af þingmönnunum.

En síðan eru þeir sem ég tel góða. Það er þarna fólk sem ég tel vera alveg frábært og þarf að fá tækifæri til að laga til hérna.

Ég er ekki í nokkrum vafa að VG sé besti kosturinn í þessum kosningum.

Allir vita núna að efnahagsstefna síðustu ríkisstjórna var röng. Veljum flokkinn sem benti á það frá upphafi.

Allir vita að Íraksstríðið var mistök. Veljum flokkinn sem benti á það fyrirfram.

Það er tækifæri til að vera vitur fyrirfram þetta skiptið.

Setjið xið við vaffið.