Við fórum til Vopnafjarðar um áramótin með viðkomu á Akureyri. Við keyrðum um alveg stórkostlegt landslag þar sem sól, sólarljós, tungl og tunglskin léku við allt í ægilegu frosti. Alveg magnað.
Þegar við vorum að keyra til Vopnafjarðar hafði færið verið nokkuð gott og nær enginn á ferðinni. Þegar við nálguðumst vegamótin þar sem beygt er í átt að Vopnafirði breytist það. Í fyrsta lagi var allt í einu bíll að koma á móti okkur. Ég hægði ferðina en fann þá allt í einu að það var meinhált. Þar sem bíll var að koma fór ég frekar út í kant en á miðjan veg. Það gekk ágætlega þar til við fundum allt í einu að dekk var komið út af veginum. Snjórinn hafði verið ruddur þannig að engin brún sást og við alveg óviðbúin þessu. Við vorum ekki á neinni ferð þannig að við fórum ekkert meira út af.
Ég reyndi fyrst að bakka upp á veginn en það var ekki að hafast einn tveir og þrír. Eygló sá síðan að bíll var að koma og sagði mér að setja hazard ljósin á og stökk sjálf út. Það var svona jepplingur. Við báðum hann að kippa í okkur og hann samþykkti. Við tókum spottann okkar úr skottinu (alltaf tilbúinn, minnir að þetta hafi verið jólagjöf skrifuð á Smala gamla en við gleymdum af einhverri ástæðu skóflunni sem fylgdi). Hann kippti og við komumst strax upp á veginn. Reyndar grunar mig að ég hefði getað reddað þessu með að ýta. Við þökkuðum fyrir og héldum áfram.
Ég kíkti á klukkuna þegar við vorum komin út af og þegar ég var kominn aftur í bíllinn eftir að hafa verið dreginn upp. Þetta tók allt einungis þrjár mínútur. Það var ágætt.
Ég gleymdi samt að spyrja manninn hvort hann væri að selja flugelda.