Þjóðaratkvæðagreiðsla?

Það fer að koma að þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave lögin. Ég er búinn að vera óviss í því hvort ég vilji að þessar kosningar fari fram eður ei. Ég verð meira efins eftir því sem nær dregur. Allt hefur snúist um endurnýjaðar samningaviðræður. Ef möguleiki er á betri samningi þá er erfitt fyrir nokkurn að styðja þessi lög. Á móti er lítið til þess að hvetja mann til að kjósa á móti. Maður sér að hinir og þessir ætla að túlka þetta á hinn og þennan hátt.

„Nei við lögunum þýðir að andstöðu við ríkisstjórnina.“ – Ég er hlynntur ríkisstjórninni og myndi ekki vilja að atkvæði mitt yrði túlkað á þann hátt.

„Nei við lögunum þýðir að við viljum fara fyrir dómstóla.“ – Ónei, það væri hræðileg ormagryfja sem við getum ekkert spáð fyrir um.

Við sem erum hlynnt samningaleiðinni og viljum að Ísland komist sem best út úr þessu eigum í raun engan valmöguleika í þessum kosningum.