Í gær var frétt á Netmogganum um einhvern bæjarstjóra í Bandaríkjunum sem vildi láta reka löggu sem kallaði hann dude, sem Netmogginn sagði að væri yfirleitt þýtt sem „melur“. Ég er nokkuð viss um að það er vitlaust því ég hef yfirleitt séð dude þýtt sem „fýr“. Hvað um það. Ég sé allavega ekki að þessi lögga eigi skilið að vera rekin þrátt fyrir takmarkaðan orðaforða.
En þetta minnti mig á það þegar ég er kallaður vinur, það finnst mér niðrandi. Mér líður einsog ég sé fimm ára þegar ég er kallaður vinur. Mér finnst eiginlega fátt heimskulegra en að kalla einhvern vin, þú kallar nefnilega vini þína ekki vin og þar af leiðandi eru þeir sem þú kallar vin ekki vinir þínir. Reyndar sætti ég mig við að ættingjar kalli mig þetta.
Þegar ég vann í búð þá voru alltaf ákveðnir viðskiptavinir sem kölluðu mig vin. Það fór verulega í taugarnar á mér. Hvers konar fólk notar þetta orð við ókunnuga? Leiðindagöndlar yfirleitt.
Talandi um búðina og leiðindagöndla, ég sá Skítapásu um daginn á kaffihúsi. Ég náði að forðast að heilsa honum, einbeitti mér að samtalinu en horfði um leið á hann í spegli. Hann sá mig en sem betur fer fannst honum ekki nauðsynlegt að heilsa mér, kannski að hann hafi fattað að ég var að hunsa hann en það er ekki líklegt miðað við hans takmörkuðu heilastarfsemi.
Minnugir lesendur mínir muna líklega eftir ítarlegum pirringsfærslum mínum um þennan náunga. Hann var ægilega duglegur að koma með heimskulegar athugasemdir („er sannað að ljósabekkir valdi krabbameini?“) og hann var líka duglegur við að eyða tíma á klósettinu þegar við áttum að vera tveir að afgreiða, jafnvel þegar hann átti að vera einn að afgreiða. Það hefði ekki þurft að vera vopnaður til að ræna búðina þegar hann var að vinna, bara að bíða eftir að hann færi á salernið (og lyktin, þvílíkt ógeð). Mikið er ég feginn að þurfa ekki að umgangast hann lengur.
Mér finnst frábært að þýða dude sem ‘melur’!
Dude er reyndar líka oft þýtt sem ‘drengur’. Mér finnst sjálfum „melur“ alveg óhemjugóð þýðing.
Þú gerir þér grein fyrir að þessi fyrrv. vinnufélagi þinn er líklegur að senda golgotan úr Dogma á þig?
Ég var líka einu sinni kölluð vinur en þá var ég líka með snoðhaus í anda Sinead O´Connor.