Kosningin í gær

Áðan spurði Hrefna frænka mín okkur hvað við hefðum kosið í gær. Hugsanalaust sagði ég “Sóleyju”. En það var misskilningur minn því næstum tíu ára stelpa er að sjálfsögðu að hugsa um allt annað. Ég skemmti mér konunglega yfir þessu í gær. Brandarinn “‘Æ, hvað eigum við að gera ef við vinnum – það verður svo dýrt” varð fyndnari og fyndnari eftir því sem leið á stigagjöfina.

Mitt lag komst ekki upp úr riðli og er það slæmt. Það var annars íslensku álitsgjöfunum til skammar hvernig þeir létu þegar það var spilað. Við Eygló komum okkur hins vegar saman um að kjósa Rúmeníu en við vorum svosem sátt við sigurvegarann.

Besta skemmtunin var að fylgjast með Sigmari. Hann náði að kvarta og kveina yfir stigagjöfum til nágrannalanda á sama tíma og hann var miður sín yfir því hve fá stig við fengum frá okkar nágrönnum. Hann toppaði þetta síðan með því að líta á stig til Danmerkur sem huggun fyrir það hve fá stig við fengum.

Ég elska nágrannastigagjafirnar. Mér finnst þær bestar. Ég held að þetta væri ekki nærri jafn gaman ef við gætum ekki verið að spá fyrir um atkvæðin út frá landafræði. Þetta er líka fín landafræðikennsla þó það hafi ekki verið sérstaklega vel unnið úr því í gær. Ég vil sjá kort þar sem merkt er inn landið sem er að gefa atkvæði og löndin sem fá atkvæðin.

Mikið var rætt um að endurkomu dómnefnda í keppnina. Það er talað um þetta sem leið gegn nágrannastigagjöfinni. Er fólk búið að gleyma að gömlu dómnefndirnar voru alveg jafn mikið í þessum leik og almenningur í símakosningu (og að þetta var byrjað löngu fyrir tíma Austur-Evrópuþjóðanna). Ég tók hins vegar eftir því að við sáum ekki kurteisisstigin til gestgjafanna sem tíðkuðust mjög í tíð dómnefnda. Fólk gleymir að þetta var stór hluti af sigurgöngu Íra á sínum tíma. Það gæti svo sem verið að einhverjir hafi verið að lauma gestgjafastigum til Noregs í gær, það myndi skýra hvers vegna þeir fengu stig yfirhöfuð.

En allavega var stigagjöfin í EuroVision hin besta skemmtun. Þátturinn sem kom næst á dagskrá Sjónvarpsins hafði hins vegar nær ekkert skemmtanagildi og vona ég að RÚV endurskoði dagskrárstefnu sína. Þó var “þetta græna epla kjaftæði vil ég ekki sjá” dæmi um góðan spuna. Sem og ástfangni maðurinn sem ætlaði að athuga hvort félagar hans á lista hefðu mætt á kjörstað. Plotttvistið með aðalpersónuna sem átti að hafa verið fargað í fyrsta þætti leikritsins bara til þess eins að snúa aftur í öðrum þætti bjargaði kvöldinu fyrir mig.