Ég var að lesa bloggfærslu míns gamla skólameistara Tryggva Gíslasonar þar sem hann tekur sig til og hrekur hitt og þetta í bakþönkum Davíðs Þórs um norðlensku. Í athugasemd spyr síðan einhver hvað Davíð hafi gengið til. Reyndar komst Tryggvi nálægt því þegar hann sagði í niðurlagi bloggs síns:
Fróðlegt verður að sjá til hvaða köpuryrða Davíð Þór grípur næst í gamanmálum sínum um íslenska tungu til þess að ýta við okkur gömlum málverndarmönnum.
Það er eitt rangt þarna, ef við skiptum út „gömlum málverndarmönnum“ og setjum þess í stað „Akureyringum/norðlendingum“ þá væri þetta næstum komið. Mér datt sjálfum aldrei í hug að taka þessa pistla alvarlega.
Tryggvi talar líka í bloggi sínu um „aulaskap sem einkennir íslenska fyndni“ og í athugasemd er tekið fram að pistlarnir hafi ekki verið fyndnir. Ég er nokkuð viss um að tilgangurinn hafi aldrei verið að koma fólki að norðan til að hlæja heldur að fá fólk til að hlæja á þeirra kostnað og þá sérstaklega þegar hið fyrirsjáanlega gerðist að menn reyndu að verjast pistlunum. Ég bjóst reyndar við meiri hneykslun að norðan en væntanlega hafa flestir séð í gegnum þetta.