Ví og síðan hí fyrir aftan (mont)

Einkunn í Aðferðafræði er kominn, ég fékk 8. Það er með öllu óskiljanlegt. Ég var að gæla við að fá kannski 7 og hafði afar veika von um að slefa upp í 7,5 svo ég fengi að taka að mér verkefni sem Anne Clyde útdeilir en aldrei datt mér í hug að ég fengi 8. Ég fékk 6,4 í fyrra hlutaprófinu og 5,8 (það var helgin þar sem ég fór á þrjá tónleika með Tý) í því seinna, þessi einkunn er ekki í samræmi við þær einkunnir. Meðaleinkunn í kúrsinum er síðan 6,15 og ég er í topp 20%.

Ég er einkar stoltur af sjálfum mér og sjálfsánægjan er að drepa mig. Nú þegar eru 15 einingar í höfn og því eru námslánin tryggð, ég kvíði smá fyrir því að flokkunin gæti lækkað meðaltalið mitt eitthvað en samt þá er þetta mjög gott hjá mér. Þegar ég byrjaði í skólanum í haust þá hafði ég ekki verið í dagskóla í meira en fimm ár og var skráður í 18 einingar sem verður nú að teljast meira en nóg til að byrja á. Ég ákvað náttúrulega í haust að sleppa því að vinna með skóla til að fá hærri einkunnir og það hefur gengið eftir, samt sem áður hef ég getað gert heilmargt skemmtilegt í vetur og félagslífið hefur aldrei verið skemmtilegra hjá mér. Magnað.