Það er frétt inn á Eyjunni þar sem er verið að gera mikið úr því að fimm af þeim sem náðu kjöri til stjórnlagaþings hafi ekki verið með þeirra 25 sem oftast voru skrifaðir á atkvæðaseðlana. Að sjálfsögðu. Fólk forgangsraðaði á kjörseðla sína.
Ástæðan fyrir því að Jónas Kristjánsson fær ekki atkvæði í hvert skipti sem hann er nefndur á kjörseðli er að öllum líkindum sú að hann var fyrir neðan til dæmis Ómar Ragnarsson eða Salvöru Nordal. Ef allir þeir sem settu Jónas Kristjánsson á kjörseðill sinn hefðu viljað að hann kæmist inn þá hefðu þeir sett hann ofar en til dæmis Ómar eða Salvöru. Þeir kusu að setja hann neðar og þar af leiðandi nýtti einhver sem var ofar atkvæði hans.
Þó það hafi ekki allir skilið kosningakerfið algjörlega þá er erfitt að skilja hvernig það hefði átt að fara framhjá mönnum að eftir því sem einstaklingur væri ofar á seðli þá væri vægi hans meira. Ég get ekki séð að það sé nokkuð ósanngjarnt við að þessir fimm einstaklingar hafi komist inn án þess að hafa komið oftast fyrir á kjörseðlum þó ég hefði reyndar alveg viljað koma til dæmis Þorgeiri, sem var á mínum seðli, inn. Kerfið var sanngjarnt.