Gísli Marteinn og Tónlistarverðlaunin

Af einhverjum ástæðum enduðum við með því að horfa á Gísla Martein í bústaðnum um síðustu helgi, reyndar held ég að það hafi verið af sömu ástæðu og þegar maður hægir á sér þegar maður keyrir framhjá árekstri, sjúk forvitni einhvers konar. Gísli fer á elliheimilið og hittir aðdáendur sína á meðan “brot af því besta” er sýnt. Gamla fólkið leit greinilega á Gísla Martein sem ígildi barnabarns, bæði af því hann lítur út fyrir að vera fimm ára (ég veit að ég er ekki fyrstur til að benda á það en þetta er nú bara staðreynd) af því að það fær ekki heimsóknir frá sínum eigin barnabörnum. Vinsældir Gísla Marteins eru líklega refsing fyrir alla þá sem heimsækja ömmu og afa ekki nóg.

Gísli Marteinn fær til sín ágæta gesti en það réttlætir ekki að maður horfi á þáttinn því Gísli nær að koma með svo heimskulegar og ósmekklegar athugasemdir að það eyðileggur skemmtilegheit gestanna. Hvers vegna tekur fólk ekki eftir að maðurinn er vonlaus að taka viðtöl? Hann kann það ekki.

Sem betur fer lætur Gísli yfirleitt vera að syngja með en þá geta gestirnir eyðilagt sjálfir, gott dæmi um þetta er þegar Svala Björgvins kom og söng. Ég man að mér fannst hún sæt þegar við vorum bæði ung en núna lítur hún út einsog barbiedúkka og mér finnst barbiedúkkur ekki kynþokkafullar (hugsanlega er það arfleið frá því þegar ég áttaði mig á að þær eru ekki líffræðilega réttar, það vantar á þær parta).

Síðan var Gísli með Evu Maríu á Íslensku Tónlistarverðlaununum, þau hafa komist langt á útlitinu. Hverjum finnst fyndið að bera djass endalaust fram sem jass, pirr pirr. Þessi tónlistarverðlaun voru náttúrulega krapp alls krapps þó ég hafi verið ánægður að Eivör vann. Allar íslenskar verðlaunaafhendingar eru krapp, nema náttúrulega Vefverðlaun Gneistans sem rúlar.