Úttekt á deildarfundi

Deildarfundurinn í gær var í raun fínn. Ég mætti þarna svona fimmtán mínútum fyrr af því ég hafði ekki hugmynd um hvort ég þyrfti að redda mér einhverjum gögnum fyrst. Enginn var mættur en ég beið fyrir utan þarna eftir að sjá einhvern sem ég kannaðist við. Svona fimm mínútur í kom Ösp túlkurinn hennar Anne Clyde og ég spurði hana hvort hún vissi eitthvað, hún beindi mér á skrifstofu félagsvísindadeildar og sagði mér meiraðsegja hvernig maður kæmist þar inn þegar væri búið að loka henni. Ég fékk samt enga pappíra þar.

Eftir smá tíma kom Anne og ég spjallaði aðeins við hana. Hún sagðist hafa verið á ráðstefnu þar sem hefði verið rætt það vandamál að nemendur væru að blogga í tíma. Ég sagði að ég hefði aldrei gert það, leiðrétti mig síðan og sagði að ég hefði allavega aldrei gert það í tíma hjá henni. Við spjölluðum örlítið saman og síðan endaði það þannig að ég sat við hliðina á henni á fundinum. Ég fékk líka á endanum meirihlutann af þeim pappírum sem ég þurfti.

Fyrst var talað um fjárhagsmál og þau voru að mestu óbreytt frá síðasta ári, mín skor getur til dæmis ekki enn boðið upp á valáfanga sem er ægilega erfið staða.

Ýmislegt var kynnt á fundinum og þá var ég sérstaklega spenntur fyrir aukagreininni Safnafræði. Það var að vísu skondið að mér fannst þetta spennandi því Terry Gunnell baðst eiginlega afsökunnar á því hve nafnið væri ósexý.

Í lok fundarins var tekið fyrir áhugaverðasta málið, það eru ný Mastersnám (m.a. í Bókasafns- og upplýsingafræði). Um leið og Anne var að fara að kynna málið byrjaði náungi sem mig minnir að hafi verið frá Sálfræðinni að gagnrýna þessi fyrirhuguðu Mastersnám, virtist halda að skorirnar sem voru með þessar tillögur hefðu ekki íhugað hve mikil vinna fylgdi þessu. Ég var næstum búinn að biðja um orðið til að segja að ég hefði séð þessa vinnu hjá minni skor og vissi því að þetta væri nú allt úthugsuð.

Eftir nokkrar umræður um þetta fékk Anne Clyde loksins að byrja. Hún hélt þvílíka kynningu og það var alveg ljóst að það væri ekki hægt að gera neina athugasemd við það hvernig þetta hefði verið undirbúið hjá okkur. Hún var satt best að segja afskaplega flott og ég bara dáðist að henni enda hafði enginn neinar spurningar um þetta og tillagan var samþykkt einróma. Hinar Mastersnámskynningarnar fengu hins vegar á sig eitt mótatkvæði og þar að auki sátu nokkrir hjá.

Það er undarlegt að hugsa til þess að ég hef á vissan hátt tekið þátt í því að gera nám mitt minna virði en það hefði getað orðið. Á næsta ári geta þeir sem hafa BA próf farið í MLIS (LIS=Library and Information Science) nám sem er meira virði en mín gráða verður, áður fóru slíkir nemendur í starfsréttindanám sem er í raun minna virði en BA. Ég er hins vegar afskaplega ánægður að hafa tekið þátt í þessu og held að þetta sé framfaraspor fyrir skorina.