Týr í tíu ár

Í gær var ég að hlusta á Sand in the Wind í bílnum og velti fyrir mér hvort það væru ekki kominn tíu ár síðan Týr spilaði fyrir mig í Smáralindinni. Ég fletti því upp og það passaði upp á dag. Nokkrum dögum áður hafði Eygló verið á Vopnafirði að hlusta á Rás 2 og sagði mér í kjölfarið að við þyrftum að kaupa disk með æðislegri færeyskri hljómsveit. Ég gaf nú ekki mikið fyrir það enda hafði þá enginn heyrt af neinum tónlistarafrekum Færeyinga. Týr breytti því.

Ormurin langi sló fyrst í gegn og How far to Asgaard seldist í bílförmum. Ég keypti eintak og féll alveg fyrir þeim. Af einhverjum bölvuðum ástæðum ákvað ég ekki að skrópa í vinnunni til að fara á almennilega tónleika með þeim en Eygló komst (þetta var hjá Ásatrúarfélaginu). Ég komst hins vegar á styttri tónleika í Smáralindinni. Heri sagði seinna að hann hefði tekið eftir mér þar því ég söng með öllum lögunum.

Næst þegar þeir komu til landsins bauð ég þeim í pönnukökur. Þeir voru þá reyndar bara þrír í bandinu en höfðu verið fimm árið áður. Söngvarinn Pól Arni Hólm hafði hætt og gítarleikinn Terji hætti líka. Ég skutlaði þeim síðan í viðtöl þegar þeir komu í þriðja sinn og villtist með þá um Árbæinn á leið í viðtal til Dr. Gunna á Skonrokk (ég fann ekki höfuðstöðvar Íslenska útvarpsfélagsins/Norðurljósa eða hvað það hét þá – nokkrum árum seinna vann ég þar tvö sumur).

Sumarið 2004 voru þeir á ferð með íslenska gítarleikarann Ottó Pál Arnarson sem stoppaði stutt.

Næsta sumar fór í ferð til Færeyja til að sjá hljómsveitina spila á G!fest. Þá var Terji snúinn aftur.

Árið 2006 gáfu þeir út uppáhaldsplötu mína sem heitir Ragnarök. Þegar Gunnsteinn verður eldri mun ég sannfæra hann um að ég hafi verið svalur á sínum tíma með því að sýna honum að ég fæ þarna sérstakar þakkir. Ég fór líka til Kaupmannahafnar á útgáfutónleikana á The Rock. Fyrsta eintakið sem þeir sáu af Ragnarök var diskurinn minn sem þeir árituðu. Ég rótaði líka fyrir þá á þessum tónleikum – keyrði hljómsveitarbílinn (ekki alveg rúta heldur bíll merktur færeysku plötuútgáfunni Tutl).

Við Eygló tókum okkur krók frá Svíþjóð til Kaupmannahafnar til að fara á tónleika með þeim á Norður Atlantshafsbryggjunni. Sigrún kom með og reddaði okkur fari með kanalbát svo við þyrftum ekki taka okkur langan krók.

Týr kom síðast rétt fyrir efnahagshrun 2009. Við Eygló fórum þá á fjóra tónleika með þeim og skutluðum Heri til Akureyrar.

Þeir eru orðnir alvöru nafn í metalheiminum. Þessa daganna ferðast þeir um Evrópu og eru komnir með töluvert betri fararkost heldur en Tutl-sendiferðabílinn.

Af hverju er enginn að halda tíu ára fögnuð?