Rafbækur og blaðsíðutöl

Það er merkilegt hve fólk getur verið upptekið af því að reyna að þvinga blaðsíðuhugsun inn í  heim rafbóka. Það eru engar blaðsíður í rafbókum og það er einn helsti kostur þeirra. Þú getur sjálfur stillt stærðina á letrinu eftir því sem hentar þér og þar með breytist „síðan“ sem þú sérð. Hún er endurskilgreind.

Fólk vill fá blaðsíðutöl. Það þekkir blaðsíðutöl og vill halda þeim. Það er svo einfalt að vísa á blaðsíður í heimildaskráningu. Það vill helst að blaðsíðurnar í rafbókunum samsvari síðum í prentaðri útgáfu bókarinnar. Það er galið. Hver gerir kröfu um að blaðsíðutal í kilju sé eins og í harðspjaldabók? Það er vissulega voðalega þægilegt en það er ekki praktískt.

Það er alls ekki praktískt að biðja um blaðsíðutöl í rafbókum – sérstaklega ef þau eiga að samsvara blaðsíðum í prentaðri bók. Þá er í raun verið að biðja um að rafbókin sé unnin uppúr umbrotnu handriti prentaðrar bókar. Það er óþarft flækjustig. Það er mun betra að vinna rafbók uppúr óumbrotnu handriti.

Rafbókin er sinnar gerðar, hún er ekki útgáfa af prentaðri bók og við eigum eftir að sjá mikið meira af því í framtíðinni að rafbækur séu einu útgáfur bóka. Á líka að eltast við blaðsíðutöl í slíkum útgáfum? Á að neyða tækni 21. aldar til þess að fara eftir lögmálum 15. aldar tækni? Slíkt er bara vitleysa.

Rafbækur eru með staðsetningarnúmer. Þau eru nákvæmari og betri en blaðsíðutöl. Með þeim geturðu sagt nákvæmlega hvert þú ert að vísa. Vissulega þarf sá sem er að skrá heimildina að passa sig að vísa á nákvæmlega þá útgáfu rafbókarinnar sem hann er að nota en það þarf hvorteðer að gera þegar vísað er í prentaða bók því það gætu verið til ótal aðrar útgáfur af bókinni – jafnvel útgáfur sem þú veist ekkert um.

Því er líka við að bæta að staðsetningarnúmer rafbóka eru mun betri en það kerfi sem við búum við þegar kemur að vefsíðum. Þær geta sumar verið á lengd við bók án þess að hægt sé að sjá neina leið til að vísa í annað en til dæmis kaflanúmer.

Þetta er nýtt, þetta er öðruvísi, sættið ykkur við það.