Ég dreifi sjóræningjaefni

Ég verð að viðurkenna að ég er að dreifa sjóræningjaefni. Ég er búinn að taka þrjár sögur sem voru birtar í íslenskum blöðum/tímaritum á nítjándu öld og setja á Rafbókavefinn. Þetta eru væntanlega hreinar sjóræningjaútgáfur þar sem þetta var fyrir þann tíma að höfundaréttarlög tóku gildi á Íslandi (nema um ljósmyndir, þau lög komu fyrst). Það þýðir að útgefendum og þýðendum bar engin skylda til þess að fá leyfi eða borga fyrir efni sem þeir tóku sér. Þarna var Mark Twain snuðaður og mögulega Poe líka (þó hann hafi verið löngu dauður).

Í ljósi þessa ástands sem ríkti hér áður en Íslendingar gengu í Bernarsambandið er svolítið skondið að höfundaréttarlög skuli núna verja sjóræningjaútgáfur (nema að mér yfirsjáist einhver lagaklausa). Verk þeirra þýðenda sem fengu ekkert leyfi frá upprunalegu höfundunum eru ennþá varin ef það eru ekki liðin 70 ár frá andláti þeirra. Ég get því ekki með góðri samvisku (eða allavega lögfræðilegri samvisku) tekið það sjóræningjaefni og endurbirt á Rafbókavefnum.