Fyrir hvað erum við að borga þegar við kaupum bók?

Í umræðunum um rafbækur (og þetta á líka við um tónlist og kvikmyndir á stafrænu formi) er sífellt hamrað á því að varan verði ekkert mikið ódýrari þó hún sé ekki efnisleg. Ég sá eftirfarandi athugasemd við grein um rafbækur á Cnet og mér fannst hún hitta algjörlega í mark:

I find fit terribly convenient that publishers now tell us that the cost of paper, printing, distribution, storage and return processing are so low. That wasn’t the story I heard before the advent of ebooks.

Það er einmitt málið. Viðhorf okkar á verði á rafbókum er nátengt því hvernig útgefendur hafa í gegnum tíðina rökstutt hátt verð á bókum. Þá var það vegna þess að það kostaði svo mikið að prenta, geyma á lager, dreifa og skila bókum. Þessir kostnaðarliðir eru allir farnir. Það er þá bara spurning hvort neytandinn eða seljandinn fái mismuninn. Sjálfur tel ég reyndar að það yrðu fyrst og fremst útgefendur og höfundar sem myndu græða ef verðið væri lækkað.

Ég held því þó til haga að það eru margir kostnaðarliðir ennþá inni hjá útgefendum. Það er prófarkarlestur, ritstjórn, grafísk hönnun og markaðsstarf. Sjálfur tel ég reyndar markaðsstarf af hinu illa (sumsé vont, ekki ILLT) og betra væri ef menn veldu sér bækur til lestrar vegna orðspors þeirra. Hitt þrennt sem ég nefni getur hins vegar skilað betri bók til lesenda.

En ég spyr aftur fyrir hvað við séum að borga þegar við kaupum t.d. bók. Ef við erum fyrst og fremst að borga höfundinum fyrir skrif sín, prófarkalesaranum fyrir yfirlestur og ritstjóra fyrir ábendingar sínar þá vaknar sú spurning hvers vegna við fáum þá ekki rafbækurnar á kostnaðarverði ef við höfum keypt prentuðu bókina. Af hverjum fáum við ekki nýja bók á kostnaðarverði ef við höfum lesið þá gömlu þar til blaðsíðurnar hafa dottið úr henni? Í dag segja bókaútgefendur að þessi hliðarkostnaður sé afskaplega lítill hluti af kostnaðinum við útgáfu þannig að “kostnaðarverð” ætti að vera ákaflega lágt.

Í framhaldinu spyr ég hvers vegna mér hafi ekki verið boðið að kaupa dvd diska á kostnaðarverði ef ég hafði áður keypt sömu mynd á spólu. Hvers vegna fékk ég ekki afslátt af geisladiskum sem ég átti fyrir á hljómplötum?
Við getum gengið lengra og spurt hvers vegna það sé ekki bara eðlilegt að ég finni bara sjóræningjarafbókaútgáfur af prentuðum bókum sem ég á fyrir til þess að geta lesið þær hvar sem ég er staddur með rafbókalesarann minn. Þegar um er að ræða sjóræningjaútgáfur sem hafa verið skannaðar inn og ljóslesnar þá er kostnaður útgefenda núll krónur á hvern titil. Sama myndi gilda um kvikmyndir, þætti, tónlist og hvaðeina sem ég hef löglega keypt.

Af hverju á maður alltaf aftur að borga fullt verð fyrir vöru sem maður hefur áður keypt?
Ég spyr endalausra spurninga en fæ engin svör.