Yfirburðir Kindle

Ég hef verið að taka saman tölur um niðurhal af Rafbókavefnum. Það sem mér þykir aðallega áhugavert eru hlutföllin milli þeirra sem taka inn rafbækur fyrir Kindle og þeirra sem velja Epub sem er eiginlega fyrir öll önnur tæki (Ipad, Kobo, Sony og Nook). Ég tók þessar hlutfallstölur síðast saman fyrir um mánuði eða svo og þær hafa lítið breyst þó mikið hafi verið tekið inn af efni í millitíðinni.

Niðurhöl á rafbókum eru samanlagt ríflega 2600. Þar af hafa um 59% verið fyrir Kindle og 41% á Epub formi. Það þarf að reka fullt af varnöglum þegar túlka á þessar tölur.

Við vitum ekkert hve margar af þessum bókum hafa verið lesnar. Mér sýnist þó teljaratölur benda til þess að fólk taki frekar inn færri bækur í einu en fleiri sem bendir til þess að það sé ekki bara að reyna að fylla tækin af mögulegu lesefni heldur sé markmiðið að taka inn efni sem það muni líklega lesa. Fólk virðist líta á það sem ákveðna “fjárfestingu” að taka inn rafbók þó hún sé ókeypis.

Við getum ekki sagt um hlutfallsdreifingu á tækjaeign. Það er t.d. ljóst að þeir sem kaupa sér Kindle gera það fyrst og fremst til þess að lesa sem þýðir að það séu færri einstaklingar sem taki sér inn fleiri bækur. Þeir sem kaupa sér hins vegar spjaldtölvur gera það væntanlega í afar fjölbreyttum tilgangi og þá er rafbókalestur bara eitt af mörgu sem hægt er að gera. Jafnvel algjört aukaatriði. Þannig gætu allt eins verið jafn mörg eða fleiri Ipaddar heldur en Kindlar á bak við þessar tölur þó eintakafjöldinn sé á hinn veginn.

Á Rafbókavefnum má taka rafbækur úr höfundarétti og breyta þeim og bæta. Ég veit til dæmis að kennaranemar hafa gert það. Þar sem mikið auðveldara er að vinna með Epub heldur en Mobi (Kindle formið) þá eykur þetta niðurhöl á fyrrnefnda forminu.

Ég gæti örugglega nefnt margt fleira. Ég held hins vegar að ég geti sagt með nokkurri vissu að þeir bókaútgefendur sem vilja raunverulega selja rafbækur þurfi að horfa til Kindle. Auðveldast væri að sjálfsögðu að taka út afritunarvarnir. Sjóræningjum er alveg sama um þær og eru svona fimm sekúndur að fjarlægja þær. Það væri frekar hægt að horfa frekar til “vatnsmerkja” (social DRM) sem ég benti á um daginn að var gert með Harry Potter bækurnar. Nýi rafbókasöluvefurinn Skinna virðist líka vilja fara þessa leið þó mér sýnist að þeir útgefendur sem þeir hafa samið við vilji áfram nota hina óskilvirku afritunarvörn Adobe (vörnin heitir Adept, krakkið heitir Inept, mér þykir það fyndinn orðaleikur).

Ætli íslenskir bókaútgefendur myndu ekki græða mest á því ef Kindle eigendur myndi í stórum stíl nota rétt sinn til þess að fjarlægja afritunarvarnirnar af rafbókum sínum til þess að geta lesið þær í sínum eigin tækjum.

Eini aðilinn sem er að græða á afritunarvarnaræðinu er Adobe. Höfundar, útgefendur og lesendur tapa hins vegar allir.