Bleikt og blátt

Með því að gefa fyrstu bekkingum bleika og bláa hjálma þá eru Kiwanis og Eimskip að taka þátt í samfélagslegum þrýstingi sem segir að strákar og stelpur eigi að vera öðruvísi. Nú tel ég reyndar nokkuð augljóst að það sé munur á kynjunum en sá munur brýst ekki út í litavali – sá munur er menningarlegur en ekki eðlislægur. Stelpur eru ekki frá náttúrunnar hendi hrifnastar af bleikum og strákar eru ekki frá náttúrunnar hendi hrifnastir af bláum. Það er hins vegar til fullt af fólki sem heldur að svo sé og það fólk ber líklega mesta ábyrgð á þeim þrýstingi sem er á börn að velja „rétta“ liti.

Þetta snýst náttúrulega ekki (bara) um liti. Ef þetta væri eini tilbúni munurinn á kynjunum sem samfélagið þröngvar börnin til að taka upp væri þetta ekkert mikið mál. Þetta er stór pakki af tilbúnum kynhlutverkum og það er nauðsynlegt að henda honum í heild sinni. Til þess er nauðsynlegt að leyfa börnum að velja og jafnvel stundum ýta þeim í áttir sem stangast á við þessi tilbúnu kynhlutverk. Við ættum sumsé í minnsta lagi að nota hlutlausari liti á börnin en helst að brjóta gegn kynjaskiptingunni. Þetta er kannski ekki stórt skref í jafnréttisbaráttunni en þó nauðsynlegt.

Í umræðu um þessi mál virðist fólk ímynda sér að heimur án fyrirfram ákveðinna stelpu- og strákalita sé grár. Ég held að hann sé þvert á móti sérstaklega litríkur. Bleikt og blátt er hins vegar jafn litlaust og svart og hvítt.