Ég var að fylgjast með bloggum af blaðamannafundi Amazon um nýju Kindlana.
Ég hafði mestan áhuga á nýja rafbókalesaranum. Hann er kallaður Paperwhite (og verður væntanlega uppnefndur Paperweight). Hann er með hærri upplausn en þeir fyrri og með ákaflega hvítan skjá. Það nýjasta er hins vegar að boðið er upp á upplýstan skjá sem þó er víst ekki baklýstur. Mér þætti gaman að prufa að lesa af slíkum skjá. Ég hef samt alltaf verið mjög ánægður með minn óupplýsta skjá.
Gamli ódýri Kindillinn er enn til sölu en kostar bara 69$ dollara núna
Kindle Fire á greinilega að geta keppt við iPad. Mér sýnist þeir bjóða upp á þrjár nýjar tegundir og þar af einn stóran. Þeir eru að sjálfsögðu mun ódýrari en iPadar. Reyndar var ég spenntastur að sjá að nýju Kindle Fire eru með fídusa fyrir börn.
En verðin á Kindlum sýna enn og aftur að Amazon hefur fyrst og fremst áhuga á að selja afþreyingarefni. Þeir selja tækin hræódýrt til þess að fá fólk til að það versli hjá þeim. Spurningin er hins vegar: Getur Amazon yfirhöfuð selt sjónvarpsefni og kvikmyndir rafrænt til Íslands? Erum við ekki bak við einhvern tuttugustu aldar múr? Er þá nokkuð að græða á þessum spjaldtölvum þeirra?
Viðbót: Gleymdi reyndar að nefna skemmtilega viðbót sem er að nýi Kindle reiknar út frá leshraða manns hve langt er þangað til þess að klára bókina.