Það er sögð saga af Knúti sem var konungur Englands (og Danmerkur, Noregs og hluta Svíþjóðar) sem er túlkuð á (allavega) tvo vegu.
Ein túlkun gengur út á að Knútur konungur hafi verið svo hrokafullur að hann hafi talið sjálfan sig svo voldugan að hann gæti stjórnað sjávarföllunum. Til þess að sanna þetta fór hann niður í fjöru og reyndi að stöðva ris sjávar. Að sjálfsögðu kom flóðið bara samt. Og allir hlógu að Knúti.
Ef Ögmundur telur í alvörunni að hann geti stöðvað aðgengi Íslendinga að klámi á netinu er hann eins og Knútur í þessari sögu. Það er engin leið að hafa áhrif á aðgengi að klámi nema að fara í massívar og dýrar ritskoðunaraðgerðir. Slíkar aðgerðir gætu eingöngu náð þeim árangri að gera aðgang að klámi erfiðari – það væru alltaf ótal auðfundnar leiðir framhjá þeim. Um leið yrðu þessar aðgerðir alltaf gallaðar því þær myndu stöðva aðgang Íslendinga að efni sem enginn myndi flokka sem klám. Þetta er svo einfalt.
Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður sem þekkir netið hafi áhyggjur af því að komast ekki í netklám enda er það löglegt í flestum nágrannalöndum okkar. Það eru hins vegar ótalmargir sem þekkja netið sem hafa áhyggjur af því hvað svona ritskoðunartilburðir geti haft neikvæð áhrif á aðra þætti netsins.
Hin túlkunum á sögunni um Knút er að hann hafi ætlað að sýna ráðgjöfunum hve takmarkað vald hans væri gagnvart Guði (mér þykir skemmtilegra að hugsa um þetta sem vanmátt mannsins gagnvart náttúrunni).
Hvað sem Ögmundur ímyndar sér að hann ætli að gera þá getur hann bara átt von á því að sýna hve vanmáttugt ríkisvaldið er gagnvart netinu.