Tónlistarniðurhal

Í gær var víst haldið fram í Kastljósinu að hægt væri að nálgast allt efni sem menn væru að hala niður án heimildar á löglegan hátt – sumsé með því að borga fyrir það.

Ég fór og skoðaði vefinn sem fylgir með þessu átaki. Ég verð fyrst að vara þá sem fara þarna inn við myndbönd fara sjálfkrafa af stað þegar maður opnar vefinn. Það ætti að vera bannað. Þetta gerist ítrekað á þessum vef. Stoppið þetta rugl.

Þessi vefur leggur áherslu á “löglegar leiðir” til að nálgast tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsefni. Flott. Ég ákvað að gera tilraun. Ég fór inn á alla vefi sem þarna er vísað á í leit að leið til að kaupa plötuna 8 songs about a girl með Deep Dark Robot.

Fyrst smá bakgrunnur. Um leið og þessi diskur kom út þá fór ég á Pirate Bay og halaði honum niður af því að ég var svo spenntur, ég hlustaði og ákvað að ég þyrfti að kaupa hann. Síðan er liðið rúmt ár og mér hefur ekki tekist þetta einfalda ætlunarverk að koma peningum frá mér til tónlistarmannanna.

Ég fann diskinn á breska Amazon fyrir nokkru síðan. Ég var þá að panta fleira og hugsaði með mér að það væri gott að kaupa hann um leið. Það gekk ekki. Ég mátti ekki kaupa hann þar sem hann var ekki framleiddur innan Bretlands heldur innfluttur þangað. Sama gildir um stafrænu útgáfuna á breska Amazon. Ég ætlaði að kaupa tónlistina stafrænt af bandaríska Amazon. Ég mátti það ekki heldur. Ég fór inn á söluvef sem er vísað á af heimasíðu Deep Dark Robot en samkvæmt honum mátti ég ekki kaupa þessa tónlist (stafrænt) nema að ég byggi í Bandaríkjunum eða Kanada. Pirrandi. Ég þarf líklega bara að bíða þar til að ég kaupi næst eitthvað annað efnislegt frá bandaríska Amazon til þess að kaupa diskinn (og fæ þá bara átta lög en ekki níu eins og fylgja stafrænu útgáfunni) af því ég fer ekki að borga flutnings- og umsýslukostnað fyrir einn stakan disk. Ég tek fram að ég hef líka gerst svo grófur að leita að þessum disk í svona gamaldags búðum sem selja geisladiska og hann finnst þar hvergi.

Ég fór á alla þá vefi sem Tónlist og myndir vísa í. Vefurinn Deezer var með Deep Dark Robot og það kætti mig mjög. Ég get líka hlustað á lögin án þess að borga krónu. Ég fór þá að leita leiða til að kaupa diskinn. Það gekk ekki. Vefurinn er svona tónlistarstreymisveita. Það er ekki það sem ég vil. Ég vil kaupa diskinn. Ef ég vildi fá 8 songs about a girl frá Deezer án þess að vera nettengdur þá þyrfti ég að kaupa einhverja áskrift og þyrfti að vera með þá áskrift svo lengi sem ég vildi hafa þessi lög. Það er bara rugl.

Af hverju er þetta svona erfitt? Af því að menn eru að reyna að viðhalda gömlu viðskiptamódeli sem byggist á dreifingarkerfi sem er fullkomlega órökrétt í netvæddum heimi. Ef listamenn vilja geta selt efni þá þurfa þeir að hjálpa neytendum að brjóta niður þessa múra sem útgefendur og gömlu dreifingaraðilarnir eru að reyna að verja. Listamenn verða að átta sig á að hagsmunir þeirra og hagsmunir útgefenda eru ekki þeir sömu (ekki frekar en hagsmunir útgerðarmanna og sjómanna séu þeir sömu).

Ef ég fer á Pirate Bay þá veit ég að það skiptir engu máli hvar í heiminum ég er – ef efnið er til þar og nógu öflugir deilendur þá get ég fengið það. Ég get í kjölfarið sett það á tölvuna sem sér um tónlistarspiluna á heimilinu, ég get sett það í símann minn og hlustað á í Strætó og ég get brennt það á disk og hlustað á á bílnum. Ekkert vesen, ekkert kjaftæði. Það eina sem vantar í ferlið er að ég geti gefið tónlistarmönnunum peninga fyrir.

Annars verð ég líka að kvarta yfir að Rafbókavefurinn er ekki á lista yfir “löglegar leiðir” til þess að fá rafbækur. Fær maður ekki að vera með nema að maður séu að selja einhverja vöru?