Nokkrar athugasemdir um staðreyndir um niðurhal

Ég skoðaði “Nokkrar staðreyndir um niðurhal” á vefnum Tónlist og myndir og þar sem ég var farinn að rífast við síðunni ákvað ég að skrifa nokkrar athugasemdir. Ég tek samt fram að nýja herferðin er góð að því leyti að hér er verið að reyna að benda fólki á leiðir til þess að borga fyrir efni sem það kaupir. Nú eru menn komnir á það stig sem þeir hefðu átt að koma sér á við upphaf þessarar aldar.

Ég vil líka taka fram að ég efast í sjálfu sér ekkert um að miklu efni sé niðurhalað án þess að greitt sé fyrir það en ég efast um meint tap af niðurhalinu og aðrar afleiðingar.

Að lokum, áður en ég hef þessa yfirferð, vil ég taka fram að ég ber mikla umhyggju fyrir listamönnum og vil að þeir finni leiðir til að fá peninga fyrir sköpun sína (sbr. færslu mína um Deep Dark Robot) en ég hef mun minni áhyggjur af útgefendum (sem geta oft verið mjög gagnlegir þó margir þeirra hafi í gegnum tíðina verið réttnefndir arðræningjar).

  • Vissir þú … að á tólf mánaða tímabili frá mars 2010 til mars 2011 er talið að dreift hafi verið hátt í 900 þúsund tónlistardiskum á Íslandi (872.000) en það var aðeins greitt fyrir tæplega helming þeirra (384.000)? Heimild: Könnun Capacent – Neysla og niðurhal á tónlist, frá mars 2011.

Talan sjálf er augljóslega vafasöm en það má spyrja um margt. Var hlustað á alla umrædda diska? Voru einhverjir sem niðurhöluðu tónlistinni fyrst og keyptu svo?

  • Vissir þú … að könnun sem var gerð meðal almennings hér á landi 2011 leiddi í ljós að 17% þeirra sem höluðu niður geisladiskum af netinu eða fengu frá öðrum, hefðu greitt fyrir tónlistina ef ekki hefði verið hægt að nálgast hana með þessum hætti? Þetta hefði þýtt viðbótarsölu á um 150 þúsund geisladiskum á ári.  Heimild: Könnun Capacent – Neysla og niðurhal á tónlist, frá mars 2011.

Það er ekki svo einfalt. Mögulega hefðu þeir keypt þessa diska og mögulega hefðu þeir í staðinn sleppt því að kaupa aðra diska. Margir leyfa sér ákveðnar upphæðir í menningarneyslu. Kannski hefði fólk sleppt því að fara í bíó, kaupa bók eða fara á tónleika í staðinn fyrir diskinn sem var keyptur.

  • Vissir þú … að árið 2011 keyptu Íslendingar eða leigðu á netinu tæplega 3 milljónir sjónvarpsþátta eða kvikmynda en á sama tíma horfðu þeir á um 9 milljónir mynda og þátta án þess að greiða fyrir efnið?Heimild: Könnun Capacent – Neysla og niðurhal á tónlist, frá mars 2011.

Könnun Capacent er áhugaverð því mér sýndist hún t.d. ekki gera ráð fyrir að menn geti lánað vinum sínum og vandamönnum diska. Einnig sýnist mér að gert sé ráð fyrir að enginn fái neitt fyrir efni á YouTube en það er stór misskilningur.

  • Vissir þú … að fimmti hver þeirra sem halaði niður myndefni eða fékk frá öðrum, hefði keypt þetta efni ef ekki hefði verið hægt að nálgast það með þessum hætti? Þetta hefði þýtt viðbótarsölu á tæplega 2 milljónum mynda eða þátta á einu ári. Heimild: Könnun Capacent – Neysla og niðurhal á tónlist, frá mars 2011.

Sama og fyrr. Fólk hefði þá á móti líklega eytt minni peningum í aðra menningarneyslu.

  • Vissir þú … að fjórir af hverjum fimm Íslendingum á aldrinum 16 ára til 19 ára telja siðferðilega rétt að listamenn og rétthafar fái greitt fyrir notkun fólks á höfundaverkum þeirra? Hins vegar telur helmingur sama hóps það vera í lagi – eða stendur á sama – þótt innlendri tónlist sé halað niður af netinu án þess að greitt sé fyrir hana.  Heimild: Könnun Capacent – Neysla og niðurhal á tónlist, frá mars 2011.

Fyrst og fremst góðar fréttir. Hér er annars spurningin um að fá að prufuhlusta efni áður en maður borgar fyrir það. Munið þið þegar allar tónlistarbúðir buðu upp á að maður gæti skellt disk í spilara og hlustað áður en maður keypti? Það gerist núna í gegnum netið.

Einnig geri ég ráð fyrir að margir velji peningum sínum þann farveg sem styður þá listamenn sem þeir vilja að haldi áfram tónlistarsköpun sinni (og vonandi sérstaklega þá fátækari). Mér er t.d. sama hvort sumra tónlistarmanna sé halað niður án greiðslu af því að ég hef engan áhuga á að styðja þeirra slöku tónlistarsköpun. En ég er sjálfur ekki að hala niður þeirri tónlist.

  • Vissir þú … að með því að hala innlendri tónlist niður af netinu án þess að greiða fyrir hana er verið að skerða lífsafkomu höfunda og torvelda þeim að halda áfram að skapa ný verk?

Skrýtið að einblína á innlenda tónlist. En eins og kemur áður fram vilja flestir að listamenn fái borgað fyrir listsköpun sína en um leið hafa flestir bara takmarkaða fjármuni til að eyða í slíkt.

  • Vissir þú … að vinsæl íslensk hljómsveit seldi síðustu plötu sína í um 200 eintökum en á sama tíma var um 5000 eintökum halað niður af netinu án þess listamennirnir fengju nokkra greiðslu fyrir?

Það væri gaman að vita meira um þetta. Var þessu efni halað niður af Íslendingum af íslenskum deilingarvef?

  • Vissir þú … að um 90% af allri tónlist sem Íslendingar hala í dag niður af netinu, án þess að höfundar, flytjendur eða útgefendur fái greiðslu fyrir, er hægt að nálgast með löglegum hætti í gegnum síður sem skila greiðslum til höfunda og rétthafa?

Mér þykir þetta grunsamlega hátt hlutfall.

  • Vissir þú … að það er ekki mikil fyrirhöfn og tekur svipaðan tíma að hala niður tónlist af löglegum netsíðum, þannig að höfundar fái greitt fyrir efnið, eins og að hala henni niður af ólöglegum síðum sem greiða ekkert til höfunda, flytjenda eða framleiðenda?

Þetta er bara ósatt. Sjóræningjar bjóða upp á miklu betri þjónustu og minna vesen. Minnkið vesenið. Lækkið verðið.

  • Vissir þú … að á árunum 2000 til 2010 fækkaði seldum eintökum af erlendum geisladiskum á Íslandi um 77%? Heimild: Upplagseftirlit FHF fyrir 2010.

Hafið þið heyrt um Amazon? Hafið þið heyrt um netið? Hafið þið heyrt um metsölu á íslenskri tónlist? Er það tilviljun að blómaskeið íslenskrar tónlistar sé á tímum netsins? Annars er óþolandi að vísa í heimild sem maður kemst hvergi í.

  • Vissir þú … að einungis 10% af útgefnum geisladiskum á Íslandi seljast nógu vel til að standa undir útgáfukostnaði?  Heimild: Upplagseftirlit FHF fyrir 2010.

Hættið að gefa út diska og minnkið framleiðslukostnaðinn. Gerið auðvelt að nálgast stafrænu eintökin og hafið þau ódýr.

  • Vissir þú … að þeim sem hafa tónlist að atvinnu í Bandaríkjunum hefur fækkað um 25 % frá árinu 2000? Heimild: www.thetrichordist.wordpress.com 18. júní 2012.

Áhugavert að vísa í heimild sem segir ekkert til um hvernig þessar tölur eru komnar til. Líka áhugavert að vísa bara á bloggið en ekki á umrædda bloggfærslu.

  • Vissir þú … að tekjur af útgefinni tónlist í Bandaríkjunum hafa lækkað um 64% síðan 1999?                Heimild: www.thetrichordist.wordpress.com 18. júní 2012.

Sama saga. Heimildin gefur ekki neinar upplýsingar um hvernig talan er komin til. Annars er mjög sértækt að tala um útgefna tónlist þegar menn hafa einmitt bent á að peningaeyðslan hafi færst frá kaupum á tónlist yfir í miðakaup á lifandi tónlist.

  • Vissir þú … að hver einstaklingur eyðir að meðaltali 47% minna í tónlist í dag en á árinu 1973? Hins vegar eyðir sami einstaklingur mun meira í dag í þau tæki sem að spila tónlistina og í Internettengingar sem dreifa tónlistinni. Ekkert af þessum fjármunum fara þó til tónlistarmannanna sjálfra. Heimild: www.thetrichordist.wordpress.com 18. júní 2012.

Aftur vantar heimildir í heimildinni. Þar að auki er ekkert verið að velta upp spurningum um t.d. verðið á plötum nú og þá, muninn á smáskífumenningunni sem dafnaði á þessum tíma og því að fólk kaupir almennt heilar plötur í búð eða stök lög á vefnum. Sumsé til þess að kaupa stök lög þá þarf ekki lengur að pressa og dreifa þessar litlu plötur. Síðan koma til sögunnar önnur form menningarneyslu s.s. það að geta keypt kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Árið 1973 voru kannski einhverjir að kaupa Pong en í dag er heil kynslóð (jafnvel tvær) af strákum að dæla peningum í tölvuleikjaiðnaðinn.

Seinna hluta staðhæfingarinnar er í fyrsta lagi ekki að finna í heimildinni sem vísað er í. Þar er enginn samanburðar á kostnaði við græjukaup 1973 og í dag að finna í bloggfærslunni. Vissulega eyðum við “meira” í nettengingar en árið 1973. En ég held að tækin séu orðin ódýrari og þar að auki er hægt að nota tækin sem við kaupum í margt fleira en t.d. flottustu plötuspilarana árið 1973.

  • Vissir þú … að hægt er að nálgast stærstu löglegu tónlistarveiturnar í meira en 100 löndum og fjöldi landa þar sem þær eru aðgengilegar hefur margfaldast síðustu 18 mánuði?                                                     Heimild: Musicmetric study on piracy and press coverage Sept. 2012.

Frábært! Ég vil samt kaupa tónlistina mína en ekki áskrift.

  • Vissir þú … að fjórði hver Internet notandi í heiminum notar reglulega tónlistarsíður sem brjóta höfundarétt?  Heimild: Musicmetric study on piracy and press coverage Sept. 2012.

Ég finn bara ekki greinina sem er verið að tala um. En ein spurning sem ég hef ekki nefnt fyrr en tengist þessu: Hvað eyða þær sem mestu niðurhala mikið í tónlist og aðra menningu? Er það meira eða minna en meðal neytandinn?

  • Vissir þú… að kvikmyndum í framleiðslu hjá kvikmyndaverum Motion Pictures Association of America (MPAA) hefur fækkað um 30% frá 2007, úr 139 niður í 97 kvikmynd. – Heimild “2011 Theatrical Market Statistics” útgefið af MPAA.

Undarlegt. MPAA eru bara örfá kvikmyndafyrirtæki og skrýtið að taka þau út fyrir sviga. Hver er heildarfjöldi framleiddra mynda í Bandaríkjunum? Er tekið tilllit til þess hve mikið af efni er núna framleitt fyrir neyslu beint á netinu? Þessi tala segir okkur ekki neitt. Satt best að segja gleður hún mig enda er ég veikur fyrir óháðum framleiðendum og hef andúð á stóru fyrirtækjunum. Ný dreifingartækifæri munu og eiga að vekja stóru samsteypurnar og styrkja listamennina.

  • Vissir þú… að útgefnum kvikmyndum hjá kvikmyndaverum Motion Pictures Association of America (MPAA) hefur fækkað um 31% frá 2002, úr 205 niður í 141 kvikmynd. – Heimild “2011 Theatrical Market Statistics” útgefið af MPAA.

Sama athugasemd og að ofan. Það má reyndar bæta við að mér sýnist að þeim kvikmyndaverum sem hafa aðild að MPAA hafi fækkað á umræddum tíma – spurning hvort tekið sé tillit til þess.