Teljandi kindur

Hafið þið prufað að telja kindur til að sofna? Ég hef prufað það og aldrei hefur það virkað. Kannski er aðferðafræði mín vitlaus. Þegar ég er að telja kindur þá eru þær alltaf að hoppa yfir hlið en málið er að þetta eru aldrei alvöru kindur heldur svona teiknimynda-skýjabólstra kindur sem hoppa yfir teiknimyndahlið sem líkast ekki neinu sem ég hef séð í sveitum landsins. Hvers vegna ætli þetta sé?
Ætli eldri kynslóðir hafi talið kindur til að sofna eða er þetta ný hefð á Íslandi? Ef eldri kynlslóðir töldu kindur þá þætti mér áhugavert að vita hvort kindurnar hafi verið af holdi og blóði. Ég myndi varla vilja reyna að sofna með því að telja raunverulegar kindur, ég vill ekki hleypa þeim upp í rúm til mín enda heilla kindur mig afar lítið.

Kannski er málið að ég hef farið vitlausa leið að þessu, kannski að það virki ekki að telja sæt teiknimynda lömb. Kannski þurfa þetta að vera grútskítugar rollur, rollur sem gætu aldrei hoppað yfir hlið en geta þess í stað valið langverstu augnablikin til að hlaupa í veg fyrir bíla á þjóðvegum landsins.