Fyrir rúmum mánuði komu fréttir um að aðdáendur Veronica Mars þáttanna hefðu á innan við sólarhring lagt fram þær tvær milljónir sem framleiðendurnir þurftu til að fjármagna kvikmynd. Þegar söfnuninni lauk var þetta komið í nær sex milljónir. Ég lagði reyndar ekki fram peninga þá enda voru þá einhver takmörk fyrir því hvaða lönd mættu taka þátt.
Í dag tók ég í fyrsta skipti þátt í Kickstarter verkefni. Hann Zach Braff sem lék í Scrubs ætlar að gera mynd. Hann hefur áður gert mynd sem hét Garden State og var æði. Hann gæti raunar fengið fjármagn frá fjárfestum sem vilja fá að stjórnast í myndinni hans en það hugnast honum Zach ekki.
Zach þarf allavega tvær milljónir til að gera myndina og ég lagði fram 40$. Ég borgaði reyndar 10$ aukalega til að fá bolinn minn sendann hingað til Íslands. Það fylgja oft einhverjar gjafir fyrir framlög í svona verkefnum. Fyrir 10 þúsund dollara var hægt að kaupa sér aukahlutverk í myndinni – það fór greinilega fljótt.
Verkefni og safnanir af þessu tagi eru áhugaverðar og eru raunar ekki glænýjar en þegar Veronica Mars náði sinni fjármögnum svona fljótt þá sást að þetta er eitthvað sem gæti raunverulega haft áhrif á það hvernig kvikmyndir eru framleiddar. Hvernig hefði kvikmyndasagan orðið ef Orson Welles hefði getað treyst á almenning í stað peningamanna? Það er líka spurning hvort þetta muni þrýsta á peningamennina til þess að gefa leikstjórum meira frelsi. Það mun án efa hafa áhrif á önnur svið en kvikmyndageirann. Þó þetta sé ekki nýtt þá erum við rétt að fá smjörþefinn af möguleikunum.
Reyndar verð ég að segja að mér finnst Kickstarter módelið ekki endilega best. Ég hefði jafnvel frekar viljað forborga dvd-disk eða bíómiða frekar en að fá einhvern bol. Svoleiðis má víst ekki hjá Kickstarter. Það mætti líka hugsa sér bókstaflegar fjölda-fjárfestingar þar sem maður getur hagnast á svona framlagi. Það er allt mögulegt.
Það er um sólarhringur síðan Zach byrjaði að safna og allar líkur eru á að þegar fólk les færsluna mína þá verður hann væntanlega kominn með milljón. Hann ætti að hafa efni á fjandi góðri mynd eftir 29 daga söfnun.