Enn eru rugludallar að kenna 5% reglunni um vandamál kjördæmakerfisins. Sérstaklega er sársaukafullt að heyra menn halda því fram að hún sé sett til þess að níðast á litlu flokkunum.
Fyrst verð ég að útskýra eitt sem margir sem þvaðra um 5% regluna virðast ekki vita. Þessi regla snýst um úthlutun jöfnunarþingsæta og ekkert annað. Áður en 5% reglan var sett gátu engin framboð fengið jöfnunarþingsæti án þess að hafa fengið kjördæmakjörinn þingmann. Þarna var sumsé litlum framboðum auðveldað til muna að komast á þing. Þetta var í raun stórkostleg framför fyrir lítil framboð og án 5% reglunnar væru t.d. Píratar ekki með neinn þingmann.
Það sem fólk hunsar í umræðunni er að jöfnunarþingsætin, sem eru takmörkuð auðlind, eru plástur á atkvæða ójafnvægið sem fylgir kjördæmaskipaninni. Ef landið væri eitt kjördæmi þá væri engin þörf á jöfnunarþingsætum og þaðan af síður reglum um hvernig þeim er úthlutað.
Í raun tel ég að jöfnunarþingsætin séu það versta við kjördæmakerfið af því að það minnkar gagnsæi. Þegar ég greiddi atkvæði Reykjavík suður í síðustu kosningum þá varð atkvæði mitt til þess að hjálpa Ásmundi Daða inn á þing í Norðvesturkjördæmi. Ég gat fyrirfram ekkert vitað um það. Það eru flóknar stærðfræðiformúlur sem liggja þar að baki. Ég hafði ekki neinn möguleika á að strika út Ásmund Daða og koma þannig í veg fyrir að hann gæti grætt á atkvæði mínu.
Þegar fólk gagnrýnir 5% regluna þá nefnir það aldrei hve flókið það væri í raun að lækka þröskuldinn eða afnema hann. Það eitt og sér er ekki nóg því það þarf fleiri jöfnunarþingsæti til að tryggja að framboðin sem þá komast í pottinn geti fengið slík þingsæti.
Ef við myndum fjölga jöfnunarþingsætum myndi gagnsæi kosningakerfisins minnka til muna. Atkvæðin sem við greiddum í okkar kjördæmum til þess að styðja frambjóðendur þar færu mun oftar til að styðja frambjóðendur í öðrum kjördæmum. Við værum sumsé frekar að kjósa flokka en einstaklinga. Þetta yrði sérstaklega absúrd þegar um er að ræða lítil framboð sem ganga oft á persónufylgi einstakra frambjóðenda.
Ef við ætluðum að halda í kjördæmaskiptinguna án þess að hafa þröskuld fyrir að fá jöfnunarþingsæti og jafnframt að tryggja að allir sem fái 1/63 af atkvæðum á landsvísu fái þingmann þá þyrftum við einfaldlega að hafa 63 jöfnunarþingsæti tiltæk. Í slíku kerfi hefðum við nákvæmlega enga stjórn á því hvert atkvæði okkar færi. Þá er í raun búið að afmá alla kosti kjördæmaskiptingarinnar. Svoleiðis er í raun það kerfi sem þeir sem segjast vilja afnema alla þröskulda við úthlutun jöfnunarþingsæta eru að biðja um.
Ég bið því alla sem eru að gagnrýna 5% regluna að pæla aðeins í málinu og beina kröftum ykkar síðan í að berjast gegn kjördæmaskiptingunni sem er raunverulega vandamálið. Í slíku kerfi myndi 1/63 af atkvæðum sjálfkrafa gefa einn þingmann og menn gætu haft nær fullkomna stjórn á því hvert atkvæði manns færi.