Ég er meðlimur í höfundaréttarráði. Það kemur til vegna þess að ég er formaður höfundaréttarhóps Upplýsingar – félags um bókasafns- og upplýsingafræði og þar með fulltrúi félagsins í þessum málum. Áhugi minn á þessum málum er ekki nýtilkominn enda skrifaði ég strax í BA-námi mínu ritgerð um höfundarétt og bókasöfn.
En fyrst, hvað er höfundaréttaráð?
Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.
Ekki má rugla höfundaréttarráði saman við höfundaréttarnefnd sem er ráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál. Ef ég skil það rétt þýðir það að nefndin undirbýr breytingar á höfundalögum. Í höfundaréttarráði eru aðallega fulltrúar listamanna (hér er listi – reyndar er Ólöf ennþá titluð sem fulltrúi Upplýsingar en það verður vonandi uppfært bráðum). Af þessum stóra hóp tel ég þrjá sem geta talist fulltrúar sjónarmiða almennings, það er ég (mér var snemma innrætt að bókasöfn ættu í höfundaréttarmálum að verja hagsmuni almennings), fulltrúi Neytendasamtakanna og (að mér finnst) fulltrúi Félags um stafrænt frelsi á Íslandi. Rétt er að taka fram að enginn slíkur fulltrúi er í höfundaréttarnefnd sjálfri.
Fundurinn var haldinn í sal Þjóðminjasafnsins. Ég mætti í fyrsta skipti á svona fund með spjaldtölvu (og þráðlaust lyklaborð – ég get ekki vélritað á skjá) og skrifaði hjá mér minnispunkta. Með mér voru tveir aðrir meðlimir í höfundaréttarhópi Upplýsingar, þær Siggerður Ólöf og fyrrnefnd Ólöf Ben. Ég tók líka strax eftir að margir Píratar voru á svæðinu enda var Birgitta með kynningu á fundinum.
Magnús Ragnarsson aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra var fundarstjóri. Fyrst talaði Rán Tryggvadóttir sem er formaður höfundaréttarnefndar. Hún fjallaði um væntanlegar breytingar á höfundaréttarlögum, og var víst að endurtaka sig töluvert frá fundi ráðsins í fyrra þar sem breytingarnar höfðu ekki komist í gegn á síðasta þingi. Ég mun væntanlega skoða það frumvarp og skrifa betur um það með textann fyrir framan mig. Fyrir bókasöfn heyrðist mér helst skipta máli að það yrði meiri réttur að semja við rétthafasamtök um notkun á efni. Rán nefndi líka, það sem mér þótti ágætt, að í höfundaréttarmálum þyrfti að vera jafnvægi milli notenda og höfunda. Næst voru kynntar breytingar á verndartíma hljóðrita sem ég mun sömuleiðis ræða betur seinna.
Þar á eftir kom fulltrúi frá STEF að ræða um breytingar á stöðu rétthafasamtaka vegna ESB. Mikil áhersla virðist vera frá sambandinu um að góða upplýsingagjöf frá rétthafasamtökum og gegnsæi í starfi þeirra. Þetta þóttu mér góðar fréttir enda hefur maður oft heyrt þá gagnrýni frá listamönnum og almenningi að það viti enginn hvernig fjármál þessara samtaka virka. Fulltrúa STEF þótti reyndar að margt í tillögunum væri íþyngjandi skrifræði fyrir lítil samtök. Fyrir íslenskan almenning eru það líka almennt góðar fréttir að reynt verður að gera Evrópu að einu markaðsvæði sem þýðir væntanlega að erfiðara sé að skilja Ísland útundan. Frá sjónarhóli STEF var þó ýmislegt sem gæti verið slæmt þar sem hagsmunir stóru aðilana yrðu almennt ofan á.
Í þessu er mjög áhugaverður vinkill því hætta er á því að í svona samfloti fái smærri listamenn jafnvel ekkert greitt þar sem það í raun borgar sig ekki að greiða út smærri fjárhæðir og í samhengi Evrópu verða sölutölur íslenskra listamanna ákaflega smáar. Þetta er í raun sama kerfi og mér skilst að sé í gangi í bókasafnssjóði listamanna þar sem við sem höfum bara örfá útlán á okkar bókum fáum ekki aur (og þeir stóru fá í raun ekkert rosalega mikið). Sjálfur myndi ég augljóslega kjósa greiðslur þar sem litlir listamenn fá hlutfallslega meira en þeir stóru fyrir hverja spilun eða útlán – allavega ef markmið okkar er að tryggja að listamenn geti lifað á listinni.
Annars þótti mér stundum eins og fulltrúinn frá STEF hefði meiri áhyggjur af því hvaða áhrif allar þessar breytingar hefðu á samtökin frekar en listamennina sem þeim tilheyra.
Eftir hlé kom Birgitta og talaði. Hún talaði fyrir breytingu á höfundavernd sem yrði 20 ár í stað líf+70. Hún sagði að dreifing sem ekki væri í hagnaðarskyni ætti að vera lögleg. Hún skaut á rétthafasamtökin með því að segja að henni hafi, sem ljóðskáldi, ekki hafa þótt Rithöfundasambandið gert neitt fyrir sig. Hún nefndi líka nýlega taxtalækkun í samningi milli sambandsins og útgefenda. Það sem snertir bókasöfn kannski helst er að hún talaði fyrir Creative Commons höfundaleyfum, gegn afritunarvörnum og með opnum aðgangi. Í samhengi afritunarvarna má nefna áherslu hennar á hve mikla stjórn aðilar eins og Amazon hafa yfir efni sem þeir “selja” notendum sínum og þá ógn við persónuvernd sem felst í því að hægt sér að rekja það sem fólk er að lesa.
Í lokin var umræða í pallborði. Það var fátt nýtt þar en mögulega lærðu fulltrúar rétthafasamtakanna eitthvað um sjónarhól þeirra sem vilja umbætur á höfundalögum. Jakob Frímann Magnússon kallaði þessar tillögur sósíalisma (ætli þingmenn VG sperri upp eyrun þegar þeir heyra það?). Það varð umdeilt hvort raunverulegt fjárhagslegt tjón væri af dreifingu höfundaréttarvarins efnis. Fulltrúi STEF kallaði það mýtu að listamenn græddu í raun á slíkri dreifingu – þá var vitnað í rannsókn hjá London School of Economics um það gagnstæða (hvort JFM telur þá sósíalista veit ég ekki). Birgitta nefndi að stundum væri pappír ekki nóg til að tryggja höfundum laun og benti á að námsbækur seldust yfirleitt ekki nema í stuttan tíma því eftir það tækju skiptibókamarkaðir við. Tryggvi Björgvinsson frá Félagi um stafrænt frelsi kom með spurning um Creative commons leyfi sem ég hefði viljað fá betri svör við. Hvernig samrýmast þau leyfi íslenskum lögum? Skemmtilegast þótti mér að heyra í Knúti Bruun sem talaði úr sal (það voru fleiri ræður en fyrirspurnir þar) sem nefndi sérstaklega að það þyrfti að hlusta á nýjar hugmyndir og taldi sérstaklega að það væri gott að fá kerfi sem tryggði listamönnum frekar hærri laun til skemmri tíma í stað lengri verndar.
Þetta hefði nú getað verið lengra hjá mér og sumir punktarnir sem ég skrifaði hjá mér verða væntanlega sérstakar bloggfærslur.
Það er rétt að taka fram að lokum að þetta eru skoðanir mínar sem einstaklings en ekki Upplýsingar. Ég geri ráð fyrir að semja ásamt félögum í höfundaréttarhópinum umsögn á væntanlegum lagabreytingum þar sem mínar skoðanir verða ekki allsráðandi.