Einhvern veginn hefur Rafbókavefurinn fengið að sitja á hakanum full lengi. Fyrst kom sumarið og ég eyddi tíma mínum í að hjóla, sjá um drenginn og síðan stóra drenginn. Síðan fór ég að vinna og þá fór tíminn í að undirbúa fæðingarorlofið svo allt myndi ganga lipurlega þegar ég færi frá. Síðan fór ég í hálft fæðingarorlof og tíminn þar sem ég var heima og fór ekki í að sjá um drenginn fór í að sinna vinnutengdum verkefnum sem hægt var að sinna að heiman. Núna er ég kominn í fullt fæðingarorlof og þegar ég hef lausar stundir, í lúrum og svoleiðis, þá er ég í alvörunni laus.
Ég er því farinn að sinna Rafbókavefnum. Það eru nokkrar bækur sem þarf bara smá átak til að koma í gegn og aðrar sem þarf bara Ég er búinn að setja inn fjórar bækur og allavega þrjár á leiðinni.
Stóra verkefnið er samt að reyna að koma fleira fólki í yfirlesturinn. Ég hef lengi gælt við að hafa einhvers konar kennslu fyrir áhugasamt fólk. Ég veit að það er sérstaklega margt eldra fólk sem hefur áhuga en þarf aðeins meiri þjálfun. Það vakti því áhuga minn að Wikipediufólk er farið að halda námskeið á Bókhlöðunni. Ég skrapp á slíkt í vikunni (ekki til að læra enda hef ég verið virkur síðan 2005 en ég lagaði og lengdi nokkrar færslur). Mér hafði satt best að segja ekki dottið Bókhlaðan í hug sem vettvangur fyrir svona námskeið og vissi satt best að segja ekki af stofunni sem þetta fór fram í (ég vann aldrei á þriðju hæðinni). En allavega vantar mig ókeypis stað þar sem eru tölvur, skjávarpi og er opið um kvöld og/eða helgar.
Ég gerði annars þetta kennslumyndband fyrir nokkru. Það er augljóslega meingallað að því leyti að þetta er röddin mín en ég held að fólk geti lært meginreglurnar af þessu.
Það er ótrúlega margt spennandi í kerfinu hjá dreifða prófarkalestrinum. Hómerskviður eru þarna í vinnslu, Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Þúsund og ein nótt. Eitt af því sem ég hef lært er að yfirlesurum finnst miklu skemmtilegra að lesa yfir styttri verk en lengri. Ég hef því farið að búta niður þessi stóru verk. Núna er Heiðna-Biblían í yfirlestri og þá er bara ein bók í einu í stað þess að setja heildina eða testamentin. Sama verður með annað bindið af Þjóðsögunum hans Jóns. Ég mun setja inn einn sagnaflokk í einu til yfirlestrar og geri ráð fyrir að það muni hraða á öllu ferlinu.
Ég hef annars þreifað fyrir mér að fá styrki fyrir verkefninu. Það væri auðveldara að réttlæta fyrir sjálfan mér tímann sem fer í þetta ef ég fengi eitthvað smá borgað en enginn hefur bitið. Mér þykir það sjálfum skrýtið enda er þetta stórmerkilegt verkefni. Kannski er vandamálið að ég er lélegur að sækja um styrki.
En allavega Rafbókavefurinn og dreifði prófarkarlestursvefurinn verða í sókn á næstunni. Endilega takið þátt.