Absúrd kosning

Ég fór á þessar kosningar og verð að segja að þær voru vægast sagt undarlegar.

Fundurinn byrjaði á því að okkur sem voru þarna komin var tilkynnt að það hefði verið ákveðið Eiríkur Tómasson yrði aðalfulltrúi, Sigríður Dúna fyrsti varamaður og einhver Stefán sem ég hef aldrei heyrt um átti að verða varamaður númer tvö.

Næst var kjörseðlum dreift til þeirra örfáu sem nenntu að mæta. Ég ræddi málin við sessunaut minn sem var líka fulltrúi nemenda og stakk fyrst upp á því að við myndum kjósa Hannes Hólmstein í öll embætin, ég spáði líka í að kjósa Anne Clyde sem er í leyfi allt þetta ár en hætti við allt svona flipp.

Ég kaus ekki neitt, skilaði auðu í öllum kosningunum. Þegar atkvæðin voru lesin þá kom í ljós að einn hafði setið hjá í öllum kosningunum en 18 greiddu eftir fyrirfram ákveðnu samkomulagi.

Þetta er bara út í hött, að ákveða svona algerlega fyrirfram, stúdentar missa öll áhrif sín á kosningar þegar svona er farið að þessu. Stúdentar eru reyndar ekki að fjölmenna á þessa fundi, ég skil það vel af því þeir vita ekkert hvað þeir eiga að gera þarna. Ég þurfti að leita í lögum Háskólans alveg heillengi áður en ég fann út að ég hefði fullgildan kosningarétt þarna, á deildarfundi fékk ég ekki að vita neitt. Maður hefði haldið að það væri einfalt að senda út upplýsingar til fulltrúa nemenda svo þeir vissu eitthvað hvað þeir eiga/mega gera.