Í gær potaði ég aðeins á póstlista Félags um stafrænt frelsi á Íslandi og menn tóku við sér. Á laugardaginn eftir viku frá 15-21 verða Linux sérfræðingar á Múltíkúltí að hjálpa fólki að skipta um stýrikerfi.
500,- fyrir uppsetningu á Linux Mint stýrikerfi fyrir tölvuna þína, í stað Windows. Linux Mint inniheldur frjálsan hugbúnað sem hvaða forritari sem er getur lagfært og endurbirt á netinu. Þannig getur þú keypt uppfærslur af hugbúnaðarfyrirtæki að eigin vali, nú eða hlaðið þeim ókeypis niður af netinu.
Endilega takið öryggisafrit af mikilvægustu skjölum! Allur vari er góður. Við tökum einnig afrit af vinnuskjölum á staðnum gegn vægu gjaldi.
Það er vel þess virði að kíkja með gömlu Windows XP tölvuna þína og fá aðstoð frá fólki sem er klárara en ég í þessum málum. Ég geri ráð fyrir að þeir verði með diska þannig að hægt verði að prufa að keyra upp stýrikerfið fyrst án þess að breyta neinu varanlega í tölvunni þinni.
Ég ítreka það sem stendur í textanum að best er að hafa tekið afrit af öllum mikilvægum gögnum á tölvunni áður en farið er í að skipta um stýrikerfi.