A Night at the Opera frá 1975 er frægasta plata Queen. Með henni slógu þeir í gegn. Hún er, fyrir þá sem hafa aldrei kynnt sér hljómsveitina, þeirra merkasta verk.
Death on Two Legs er tileinkað framkvæmdastjóra plötufyrirtækisins sem Queen var nýbúið að losa sig frá. Það er uppfullt af hatri. Manninum er gjörsamlega slátrað í textanum. Lagið sjálft er líka brilljant. Píanóintróið sérstaklega.
Lazing on a Sunday Afternoon er síðan létt lag með fáránlegum og fyndnum texta. Breytir stemmingunni töluvert.
I’m in Love With My Car er ástaróður Roger til bíla. Alltaf skemmtilegt. Roger lokaði sig víst inni í skáp því hann vildi svo innilega að það yrði B-hliðin á Bohemian Rhapsody.
You’re My Best Friend er svo augljóslega John. Létt og ljúft popplag. En ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér.
‘39 er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Það fjallar um geimferðir og það hvernig afstæðiskenningin segir til um að tíminn sé afstæður á slíkum ferðum. Fallegt, frábært. Síðan mun ég aldrei gleyma því 2005 í Brixton þegar Brian kom fram á sviðið og við fórum að kalla eftir laginu og hann spilaði það og ruglaðist í textanum af því að það var óæft. Líka frábært 2008 í Glasgow.
Your mother’s eyes from your eyes cry to me.
Sweet Lady er veiki hlekkurinn. Ekki merkilegur texti, ekki merkilegt lag.
Seaside Rendezvous er aftur í ætt við Lazing on a Sunday Afternoon, létt og fáránlegt. Eiginlega betra samt. Þeir leyfa sér allt, leika blásturshljóðfærin og feika steppdans með fingurbjörgum.
The Prophet’s Song er með bestu lögum Queen. Það er vel og vandlega proggað. Það er þungt og æðislegt. Textinn er fantasíukenndur og fjallar hálfvegis um Nóaflóðið (eða draum Brian um flóðið). Ég man innilega eftir að hafa setið á skrifborðinu mínu í Hrísalundi þannig að höfuðið mitt var á milli hátalarana á ferðatækinu sem ég fékk í fermingargjöf. Steríó sko. En eitt það flottasta sem Queen gerði var að leyfa þessu lagi að flæða út í ….
Love of My Life. Það kemur reyndar ekki vel út í nútímaspilurum sem taka sér hlé milli laga. Og í Brixton vorum við öll skíthrædd þegar það komu fram tveir kollar og Brian settist á annan þeirra. Ekki átti að leyfa Paul Rodgers að syngja þetta lag! En kollurinn fékk bara vera ónotaður meðan Brian söng og spilaði lagið einn. Ef þér finnst þetta ekki eitt besta lag sem samið hefur verið þá vantar í þig hjartað.
Good Company er í ætt við hin tvö léttu lögin á plötunni en er í raun með dökkum texta.
Bohemian Rhapsody. Þarf nokkuð að segja? God Save the Queen. Ótrúlega vel valið til að loka plötunni. Þetta er sumsé ekki Sex Pistols útgáfan.