Queenplötur dæmdar – 12. The Miracle (1989)

The MiracleÞetta er orðið rosalega erfitt. The Miracle lendir í tólfta sæti eftir hrikalega erfiða baráttu. Fyrsta Queenplatan sem ég hafði aðgang að því Hafdís systir átti hana. Eina Queen platan sem ég hafði á hljómplötu.

Það er engin sérstök ástæða til að tala um Party og Khashoggi’s Ship í sitt hvoru lagi. Fyrra lagið flæðir beint í það seinna og textarnir parast líka saman. Þetta eru lög sem komast aldrei á neinn topplista yfir Queenlög en þau eru skemmtileg stuð rokklög og opna plötuna vel.

The Miracle er frábært lag sem er ekki í uppáhaldi hjá mér. Það getur stundum farið í taugarnar á mér þó það sé gott. Á öðrum tímum get ég hlustað á það og notið þess í botn. Strákurinn sem lék Freddie í tónlistarmyndbandinu fór á sínum tíma í taugarnar á mér. Líklega aðallega öfund. Nema að hann sé í raun óþolandi gerpi. Hver veit.

I Want it All er bara eitt besta rokklag sem gert hefur verið. Auðvitað getur maður tekið þessa hörkulegu karlmennsku frekju alvarlega eða maður getur tekið henni, eins og ég tel að eigi að taka henni, með tungu í kinn. Síðan er auðvitað rólegur kafli í miðjunni sem sýnir enn og aftur Queen blanda saman stílum.

Ég hef aldrei skilið hvernig The Invisible Man varð að smáskífu og að hún hafi orðið vinsæl. Þetta er voðalegt miðlungs lag. Ekki óskemmtilegt en ekkert frábært.

Það að note lest í myndbandinu við Breakthru á svo ótrúlega vel við. Takturinn er eins og lest. En þetta eru í raun tvö lög. Fyrst er bútur úr A New Life is Born sem við vonum innilega að sé til í heild sinni einhvers staðar og verði að lokum gefið út. En Breakthru sjálft er auðvitað skemmtilegt lag.

Rain Must Fall er ekkert tónlistarafrek en skemmtilegt. Dáltið týpískt fyrir lög sem John og Freddie gerðu saman.

Scandal er ádeila á bresku slúðurpressuna. Ekki endilega besta lagið en í töluverðu uppáhaldi hjá mér. Það er dulítill 80s tónn í laginu.

My Baby Does Me er aftur John/Freddie. Einfalt bassadrifið popplag. Svoltið síns tíma en vinnur á. Ég fílaði það eiginlega alls ekki fyrst þegar ég heyrði það en það voru mögulega áhrif frá einhverjum sem var ekki með jafn víðan tónlistarsmekk og ég var að ala með mér.

Was it All Worth it er Freddie að kveðja. Hann er bókstaflega að svara spurningunni. En lagið er í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er besta lagið á plötunni. Þetta er harkalegt rokk og hljóðgervlasinfonía. Yndislegt.

Yes, it was a worthwhile experience, it was worth it.

Hang on in there er fyrsta af þremur aukalögum sem voru á geisladiskaútgáfunni. Þetta er rokklag sem hefði alveg eins getað verið á plötunni. Bara skemmtilegt.

Chinese Torture er svoltið dökkt lag þar sem Brian er að leika sér með gítarinn. Enginn söngur. Voðalega skrýtið lag.

Síðasta lagið á geisladisknum en 12″ útgáfan af The Invisible Man sem er almennt talin betri en sú sem var á aðalplötunni. Jájá, það passar svo sem en þetta lag verður aldrei uppáhalds.