Queenplötur dæmdar – 13. The Game (1980)

The GameThe Game frá 1980 lendir í 13da sæti hjá mér sem mörgum gæti þótt grimmt en ég sé ekki ástæðu til að hækka plötuna upp. Hún er raunar, vegna góðrar sölu í Bandaríkjunum, ein mest seld plata hljómsveitarinnar. Nú gætu lesendur haldið að ég hafi eitthvað á móti diskódaðri Queen en svo er ekki. Kannski eru það hljóðgervlarnir sem pirra mig en ég er samt hrifinn af þeim þegar vel er unnið með þá. Eru það áhrifin frá Mack sem mér líkar ekki við?
Platan byrjar á Play the Game. Ég er einhvern veginn á tveimur áttum með það, kannski er það gott en kannski bara ágætt. Mögulega er það bara eftir skapinu mínu.

Á plötunni eru nokkur lög sem bera það með sér að þau hefðu getað verið frábær, eins og það vanti eitthvað í þau. Dragon Attack er eitt af þeim. Stórskemmtilegt lag en samt…

Það þarf ekki að segja mikið um Another One Bites the Dust. Ég náði einhvern tímann þeim árangri að læra textann alveg þannig að ég gat sungið hann með Freddie. Það er ekki auðvelt. Samkvæmt sögunni neyddi John, sem samdi lagið, Roger til þess að tromma mjög vélrænt til að ná þeim hljóm sem átti að vera í laginu. Hljómsveitin áleit lagið ekki líklegt til vinsælda en Michael Jackson sannfærði þá um að gefa það út sem smáskífu.

Það er svo margt gott við Need Your Loving Tonight en eitthvað vantar.

Það vantar auðvitað ekkert í Crazy Little Thing Called Love. Það er nærri fullkomið í sínum einfaldleika. Rokkabillílag sem Elvis hefði alveg getað sungið. Það hve einfalt lagið er, samkvæmt honum sjálfum, vegna takmarkaðra hæfileika Freddie til að spila á gítar en þetta er eitt af fáum lögum sem hann samdi þannig frekar en á píanó.

Rock it (Prim Jive) missir mig mögulega á línunni “You really think they like to rock in space?” Það er annað af tveimur slökum lögum eftir Roger á plötunni.

Don’t Try Suicide eftir Freddie er svona slæmt gott lag. Kannski er það líka textinn sem fer í taugarnar á mér. En samt sem áður finnst mér hann skemmtilegur á köflum. Þversagnakennt.

Sail Away Sweet Sister er allavega besta lagið á plötunni sem ekki hefur ratað á smáskífu. Sungið af Brian sem samdi lagið líka. Mjög í ætt við hans stíl, sem er gott.

Coming Soon er óspennandi lag eftir Roger.

Save Me er hápunktur plötunnar. Textinn er hreint yndislegur og lagið sjálft dansar svo vel að vera einfalt og fallegt en líka dramatískt og kraftmikið eins og svo mörg af bestu lögum Queen.

“Each night I cry, I still believe the lie, I love you till I die”