Ég verð að skrifa nokkur orð um þessa frétt þar sem oddviti Framsóknar, hún Sveinbjörg Birna, tjáir sig um moskur og múslima.
Fyrst tekur hún fram að við sem tilheyrum ekki Þjóðkirkjunni ættum að niðurgreiða starfssemi hennar en ekki annarra trúfélaga.
„Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna,“
Hún er sumsé á móti trúfrelsi en segist auðvitað hlynnt því, væntanlega í einhverjum newspeak skilningi.
„Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Ef við notum sömu rök þá gæti múslimi sem hefur búið í landi þar sem kristni er ríkjandi ekki verið með neina fordóma gagnvart kristni og gæti alhæft um allt kristið fólk í krafti þessarar búsetu sinnar.
„…margir múslimar koma frá gömlum frönskum nýlendum og því þurfa Frakkar að taka allskonar hluti inn í landið.“
“allskonar”, það hljómar ekkert rasískt.
„Það myndu koma peningar að utan ef moska yrði byggð hérna. Ekki spurning. Þeir byrja að streyma inn um leið leyfið fyrir moskunni fæst. Alveg eins og ef kaþólsk kirkja yrði byggð í Sádí Arabíu; þá kæmu peningar frá Vatíkaninu,“
Væntanlega eru þetta rök fyrir því að banna kaþólsku kirkjuna hér á landi.
Hér tekur Sveinbjörg ekki tillit til þess að Félag múslima á Íslandi, sem fékk umrædda lóð, hefur einmitt verið gagnrýnið á það hvernig Íslam er ástundað í Sádí Arabíu og því ekkert voðalega líklegt að fá þaðan peninga. Það er sumsé grundvallaratriði að átta sig á að Íslam er ekki eitthvað eitt og múslimar eru ekki allir eins.
„Við erum búin að búa hér í sátt og samlyndi frá landnámi. Fyrst var það Ásatrú, síðan komu siðaskiptin – allir þekkja þessa sögu.“
Ja, Sveinbjörg virðist ekki þekkja þessa sögu. Fyrst var nokkurn veginn trúfrelsi, síðan var það afnumið. Síðan gerði kirkjan ýmsa slæma hluti. Siðaskiptin komu jú víst og voru eiginlega borgarastyrjöld. Síðan kúgaði kirkjan dáltið meira. Síðan neyddu Danir einhverjum votti af trúfrelsi á okkur en ennþá var hægt að kúga þá sem voru annarar trúar.
„Það er ekki eins og þessi skoðun sé byggð á fordómum. Ég dæmi bara eftir minni reynslu. Ég er til dæmis nýkomin úr stærstu mosku í heimi í Abú Dabí. Það er engin kirkja þar, eðli málsins samkvæmt. Ég virði siði annarra landa. Ég hyl mig alla eins og tíðkast í þeim löndum og finnst það bara sjálfsagt mál,“
Það eru bara víst kirkjur í Abú Dabí. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru nefnilega merkilega góð í trúfrelsi (á mælikvarða mið-austurlanda). En samt sem áður eru rökin “múslimar hafa ekki trúfrelsi og þess vegna ættum við ekki heldur að hafa trúfrelsi” afskaplega léleg. Annars vil ég taka fram að mér finnst ekkert eðlilegt að virða siði annarra landa ef þeir eru kúgandi.
„Ég er örugglega eini frambjóðandinn í Reykjavík sem hefur búið annars staðar en á Íslandi. Ég bjó í Sádí Arabíu í um það bil ár. Ég hef ferðast mikið um Arabalöndin. Eins og ég segi þetta eru ekki fordómar, heldur reynslan mín sem útskýrir þessa afstöðu.“
Þetta er sérstaklega vel af sér vikið að alhæfa um gríðarlega stóran hóp frambjóðanda án þess að hafa nokkuð skoðað málið. Ég geri ráð fyrir að það séu ótal frambjóðendur sem hafa meiri reynslu af því að búa erlendis en Sveinbjörg.
Auðvitað á Sveinbjörg eftir að græða einhver atkvæði á þessu en ætlar Framsóknarflokkurinn að leyfa henni að komast upp með að tala svona?