Fyrir íslenskt tungumál þá er YouTube hræðilegt fyrirbæri. Þó að á yfirborðinu þá sé jafnræði tækifæri þar þá er það ekki í raun. Stóra ástæðan er ekki (bara) sú að þarna er mikill aðgangur að efni á ensku heldur að aðgengið fyrir íslenskt efni er lélegt. Lengst af þá var ekki möguleiki á því fyrir framleiðendur að græða peninga fyrir að setja inn efni á íslensku. Jútúbarar græða með því að láta birta auglýsingar með efni sínu en það var ekki hægt með efni á íslensku. Því var breytt tiltölulega nýlega en það hjálpar ekki mikið þar sem…
YouTube krefst þess að það komi ákveðið mikið grunnáhorf á efni áður en hægt sé að fá nokkurn pening fyrir auglýsingar. Það sem er verra er að þessi mörk er færð ár frá ári. Þannig að áhorf sem dugðu í fyrra til að komast á auglýsingasamning duga ekki lengur og við vitum ekkert hvernig þessi mörk verða á næsta ári. Á sama tíma henda mörg íslensk fyrirtæki peningum í auglýsingar á YouTube. Þannig að YouTube sýgur peninga frá Íslandi og gefur lítið til baka.
Þetta er auðvitað sama vandamál og íslenskt efni glímir alltaf við. Tónlistarveitur borga oft ekkert út fyrr en hlustun hefur farið yfir mörk sem fæstir tónlistarmenn sem flytja efni á íslensku ná í.
Á sama tíma þá er Disney dásamlegt fyrirbæri. Ég fer á Pixar/Disney myndir í bíó og þá er ekki bara talmálið á íslensku heldur líka ritmálið. Þannig eru skilti oft á tíðum með íslenskum orðum.
Þetta skapar þá undarlegu stöðu að YouTube sem virðist vera lýðræðislegt og opið lokar fyrir íslenskuna en Disney sem virðist oft hálffasískt fyrirbæri opnar dyrnar fyrir íslensku.
Ég hef oft sagt að okkur vanti fleiri Jútúbara á Íslandi en kannski að það þurfi frekar einhvers konar íslenska útgáfu af slíkri veitu sem myndi höfða bæði til auglýsingakaupenda og til framleiðenda efnis. Það hefur aldrei verið auðveldara að framleiða efni, hvort sem það eru hlaðvörp, grínmyndbönd eða fræðsla en það er mun erfiðara að græða á slíku.
Ég er með podcast á ensku* og þó ég sé ekki enn farinn að setja auglýsingar þar inn þá gæti ég með lítilli fyrirhöfn gengið inn í samning hjá hlaðvarpsveitu og fengið borgað ákveðið mikið fyrir hvert niðurhal. Ég hef ekki ennþá farið þá leið af því að ég veit að ég get fengið meira borgað fyrir að selja auglýsingar sjálfur – þó það sé erfiðara.
Það þarf að vera svona möguleiki fyrir íslenskt efni. Einhver milliliður sem kemur saman framleiðendum og auglýsendum. En það er ekkert svoleiðis í dag þannig að ef framleiðendur eru ekki líka góðir sölumenn þá er lítið að græða á íslenskunni.
* Stories of Iceland. Í síðasta mánuði þá voru um þúsund niðurhöl á hvern þátt þó ég hafi ekki sett nýjan þátt í loftið frá desember fram í febrúar.