A Complete Unknown (2024) 👍👍
{43-35-33-8}

Sko, það var búið að höskulda myndina fyrir mér. Ég vissi að óþekkti maðurinn væri Bob Dylan. Kannski væri betra að vita það ekki.

Ég sagði útgáfu af þessum brandara þegar við Gunnsteinn vorum að leggja af stað í bíóið og ég var svo ánægður með að hann að ég þurfti að endurtaka hann hérna.

Myndin fjallar um ris Bob Dylan, fyrstu árin hans í þjóðlagageiranum. Þó ég hafi ekki kynnt mér myndina fyrirfram grunaði mig sterklega hver hápunkturinn yrði. Ég man að fyrst þegar ég heyrði þá sögu var ég allur á bandi Dylan en eftir því sem tíminn líður þá finnst mér þetta hafa verið frekar kjánalegt stönt (þið vitið ef þið vitið). Það má alveg leyfa fólki að njóta þess sem það vill njóta.

Ekki að ég telji Alan Lomax og félaga handhafa þess að skilgreina þjóðlagatónlist. Sem þjóðfræðingur er ég eiginlega á því að þetta sé hugtak sem ekki sé hægt að skilgreina endanlega. Þeir Lomax-feðgar eru auðvitað risar í þjóðfræðinni fyrir söfnun sína á þjóðlögum. Sérstaklega er ég hrifinn af fangelsisblúsnum sem Siggi kynnti mig fyrir en það stingur mig alltaf þegar Alan er titlaður eins og hann sé höfundur eða flytjandi þeirra laga sem hann tók upp. Þó það sé kannski ekki verra en að tala um Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Annars þá var A Complete Unknown uppáhaldsmynd Leonard Maltin’s í fyrra:

No one is more surprised than I, because I’ve never been a Bob Dylan fan… but Timothée Chalamet delivers a compelling and convincing performance as the singular troubadour-poet. By not imitating Dylan’s distinctively whiny voice he even improves on some of the songs.

Maltin skýtur á Dylan en hrósar Chalamet. Þetta er vissulega langsamlega besta mynd Timothée frá því í fyrra. Hin stóra myndin hans greip mig ekki. Annars verð ég að segja að Edward Norton í hlutverk Pete Seeger heillaði mig meira. Eiginlega stórkostlegur.

Elle Fanning fékk ekki sérstaklega mikið að gera. Síðan talaði hún ítrekað um systur sína og ég gat ekki hugsað um annað en að Dakota myndi láta sjá sig.

Þetta er alveg ákaflega góð mynd. Fínt tónlistaruppeldi. Ég söng (lágt) með lögunum. Bob Dylan kemur ekkert sérstaklega vel út úr myndinni og það er líklega sanngjarnt. Skemmtileg líka. Mæli hiklaust með.

Ég er ekki stór Dylan aðdáandi en fór á tónleika með honum um árið (með fyrrnefndum Sigga). Ég bjóst ekki við miklu en við fengum tvo miða á verði eins og þetta var tækifæri til að sjá goðsögn. Mér fannst stúdíóútgáfurnar betri.

Ráðstefna um stafrænt frelsi og opinn aðgang

Í gær fór ég á ráðstefnu um stafrænt frelsi og opinn aðgang. Það var svoltið skemmtileg blanda. Annars vegar tölvunördar og hins vegar bókasafns- og upplýsingafræðingar. Sumsé fullt af fólki sem ég þekki í báðum hópum. Það var gaman að spjalla við marga þarna.

Ráðstefnan byrjaði á því að Alma nokkur Swan talaði um opinn aðgang. Hún talaði þónokkuð um hina velheppnuðu baráttu gegn The Research Works Act sem hefði stoppað skilyrðingu opins aðgangs að rannsóknum sem unnar eru fyrir opinbera styrki. Þar bar helst costofknowledge.com undirskriftarsöfnunin þar sem Elsevier útgáfan var sniðgengin fyrir stuðning sinn við þetta frumvarp. Útgáfan gaf eftir. Hún talaði líka um lýsigögn og nauðsyn þess að geta auðkennt höfunda sem heita það sama frá hver öðrum (stórt vandamál fyrir hr. Sóleyjarson).

Næst talaði Guðmundur Þórisson um nauðsyn þess að opna aðgang að gögnum. Hans sýn var nokkuð fókuseruð út frá líffræði en átti alveg merkilega vel líka við hug- og félagsvísindi. Hann nefndi að það er frekar hægt að fá gögn úr fáum stórum rannsóknum heldur en öllum þeim fjölmörgu litlu sem hann kenndi við „langa halann“. Ég spjallaði aðeins við hann eftir á og nefndi að persónuvernd væri ekki bara eitthvað sem væri vandamál fyrir líffræði og læknisfræði heldur líka eins og fyrir meistararitgerð mína þar sem ég hefði viljað veita aðgang en má það ekki (og viðtölin fóru líka fram á þeirri forsendu að ég myndi ekki veita aðgang að þeim). Ég hugsaði líka út í hluti eins og aðgengi að góðum fræðilegum textum úr handritum sem eru bara gefin út á pappír. Þetta minnti mig líka á Alan Lomax safnið sem er alveg stórkostlegt fyrir þá sem vilja kynna sér upptökur hans héðan og þaðan um heiminn. Fangelsisupptökurnar hans eru í uppáhaldi hjá mér.

Sólveig Þorsteinsdóttir talaði um opinn aðgang á Íslandi. Hún nefndi að mér fannst mikilvægt atriði sem er að opinn aðgangur er miklu betri til að tryggja langtímaaðgengi. Þó við höfum til dæmis núna aðgengi að greinum og tímaritum í gegnum landsaðgang þá vitum við ekki hvað framtíðin ber með sér. Gagnasöfn breytast stöðugt og sameinast. Það að tímarit sé hluti af einhverjum pakka núna þýðir ekki að það verði það áfram. Hún svaraði líka spurningu sem ég hef velt fyrir mér sem er að það er til sérstakt gagnasafn fyrir munaðarlausar greinar þeirra sem tilheyra engum stofnunum sem safna og veita aðgengi að greinum í opnum aðgangi. Hún talaði líka um að meira væri núna lagt upp í að skrá rannsóknargögn. Hún talaði líka um að það er mjög hörð og góð skilyrðing á opnum aðgangi hjá ESB.

Hallgrímur Jónasson kom frá RANNÍS. Hann nefndi að Vísinda- og tækniráð væri búið að samþykkja Berlínaryfirlýsinguna. Hann sagði líka frá því að RANNÍS væri farið að viðurkenna útgáfukostnað sem hluta af styrkjum fyrir þá sem þurfa að borga fyrir útgáfu í opnum aðgangi. Hann sagði í lokin að þeir vildu ekki skilyrða opinn aðgang algjörlega fyrir þá sem fá styrk frá þeim en því er ég alfarið ósammála. Það ætti að skilyrða opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum.

Síðasta verk fyrir hádegi var að afhenda frelsisverðlaun Félags um stafrænt frelsi á Íslandi. Það var byrjað að nefna fyrri vinningshafa. Í fyrra vann Áslaug Agnars og þar á undan vann Bjarni Rúnar en í ár vann Salvör Gissurardóttir. Mér sýnist að þessi verðlaun séu skilyrt því að fólk þekki mig.

Eftir hádegi fór Hakkavélin af stað með örfyrirlestra. Það er of erfitt að nefna alla sem töluðu en það voru flestir skemmtilegir og áhugaverðir. Það var talað um ýmis frjáls verkefni á Íslandi til dæmis í sambandi við Libre Office. Það var talað um wikisíðu um Libre-pakkann og síðan kom náungi sem er að vinna íslensku stafsetningarviðbótina. Í því samhengi má nefna að ég ákvað í vikunni að skipta yfir í Libre Office. Ég hef verið að fikta reglulega í þessu og á þessum tímapunkti finnst mér þetta vera orðið algjörlega samkeppnishæft við Office og að sumu leyti betra. Snúningspunkturinn minn var reyndar þegar ég sá að það var hægt að fá þessa íslensku stafsetningarviðbót.

Það var rætt um verkefni tengd Strætó og það hneykslaði mig töluvert að heyra að það kæmu engin svör frá fyrirtækinu þegar menn væru að óska eftir gögnum til þess að búa til úr því gagnlegar viðbætur fyrir farþega.

Ég var svolítið spenntur að heyra talað um Media Goblin. Það er mögulega lausnin sem ég hef verið að bíða eftir til að „afmiðja“ svona samfélagsmiðla. Ég mun skoða það vel og fylgjast með. Tengt því þá talaði Bjarni Rúnar um nauðsyn þess að fólk hafi frelsi til að reka sinn eigin netþjónn.

Glyn Moody var aðalfyrirlesari eftirhádegisins og hann sannfærði mig um að ég er ákaflega hófsamur í mínum umbótahugmyndum um höfundarétt. Hann útskýrði útvíkkun höfundaréttar með því að segja að fólk hugsaði „höfundaréttur er góður, meiri höfundaréttur er betri“. Hann talaði um SOPA og PIPA og hvað við getum lært af því hvernig þau frumvörp voru drepin. Um nauðsyn mótmæla. Hann talaði líka um ACTA. Það verður víst kosið um það í sumar. Hann kallaði ACTA og aðra eins sáttmála „sveitaklúbbssáttmála“ sem engum er boðið nema þeim sem samþykkja allt sem þýðir að enginn er talsmaður vægari skilyrða. Þar að auki eru þessir sáttmálar unnir í leynd sem þýðir að hagsmunasamtök geta ekki gerst talsmenn almennings í þessum samningaviðræðum.

Spurningar og svör voru eiginlega áhugaverðari. Svavar Kjarrval spurði hvort eitthvað land hefði látið sér detta í hug að ganga úr Bernarsambandinu. Í kjölfarið fór af stað umræða sem leiddi til þess að Glyn sagði að hann vildi afnema öll höfundaréttarlög. Það var ágætt að fá svona spark. Gaur í jakkafötum vill engin höfundalög. Hann telur að fólk muni áfram vera tilbúið að borga listamönnum þrátt fyrir að lögin yrðu afnumin. Hann talaði um að þessi mál væru helst spurning um hvaða viðhorf maður hefði til aðgengis að upplýsingum.

Dagþór S. Haraldsson talaði um hugmyndir um að setja gjald á nettengingar. Þetta var byggt á grein úr Fréttablaðinu sem heitir Þjófkenndur af FTT!. Hann spurði hvers vegna væri ekki gjald á bakpoka þar sem þeir væru oft notaðir til þjófnaðar. Hann talaði um þessar gjaldtökur sem rán. Mjög gott að fá svona „venjulegan“ mann til að tala um þessa hluti.

Jonas Öberg talaði um Creative Commons og hans hugsjón um að það væri í grunninn hugmyndafræði netfrelsis. Hann talaði líka um nauðsyn þess að listamenn megi nota CC í stað þess að þurfa að láta rukka gjöld í gegnum hagsmunafélögin.

Síðast var kannski það sem var mest á mínu sviði. Birkir Gunnarsson talaði um rafbækur frá sjónarhóli prenthamlaðra. Hann hafði áður talað um hvernig frjáls hugbúnaður kæmi sér vel fyrir blinda. Hann nefndi hve rafbækur sem hægt að stækka letrið á og eru lesanlegar með raddhermi geta hjálpað lesblindum mikið. Hann talaði um „bókahungursneyðina“ sem blindir hrjást af. Hann nefndi að afritunarvarnir séu ákaflega slæmar fyrir prenthamlaða – og sérstaklega blinda – því það er ekki hægt að færa varðar bækur á milli tækja. Hann talaði um ólík rafbókarsnið og þar var EPUB3 helst sem lausn fyrir þennan hóp. Það sem kom mér helst á óvart var hvað skortur á milliríkjasamningum kemur illa við þennan hóp. Ef bók er til fyrir prenthamlaða í Bandaríkjunum þá er ekki hægt að fá hana til Bretlands. Þetta er víst sérstaklega slæmt fyrir spænskumælandi aðila því það er til mikið af efni á Spáni sem fólk í rómönsku Ameríku getur ekkert notað.

Síðasti ræðumaður var Stefan Marsiske sem sagði hreint út að honum þætti The Pirate Bay jafn mikilvægt fyrirbæri og Wikipedia. Hann talaði líka um hvernig þær fylgjast með stjórnmálum í Evrópu. Margt mjög spennandi þar. Ég missti reyndar af umræðunum þar því ég þurfti að drífa mig af stað.