Meistaraverk æskuáranna I: Backdraft

Ég hef sennilega alltaf verið þannig týpa sem sá fortíðina í hillingum. Gott ef ég var ekki harðlega ásakaður um nostalgíu fimmtán ára í unglingavinnu á Borgarspítalanum. Sennilega hafði ég sagt eitthvað um að ef (og aðeins ef) DVD-diskar tækju við af spólum, þá yrði engin stemning lengur í því að fara á vídjóleigur. Já, ég var svona forhertur. Að sama skapi var gullöld kvikmynda fyrir mér einmitt þeir tveir áratugir sem höfðu einna mest mótandi áhrif á mig, níundi og tíundi áratugurinn. En hvernig eru kvikmyndirnar sem ég ólst upp við raunverulega? Hvernig líta þær út öllum þessum árum síðar? Það er það sem mig langar til að kanna núna í bloggflokki um meistaraverk æskuáranna. Byrjum á Backdraft (1991).

backdraft

Backdraft fjallar um tvo bræður í Chicago sem hafa allt álíka mikið niður um sig. Brian (William Baldwin) er uppgjafarslökkviliðsmannsnemi (supercalifragilistic …), misheppnaður sölumaður og kaupahéðinn, sem í blankheitum snýr aftur á æskuslóðirnar á laun. Hann klárar námið og gerist slökkviliðsmaður til að feta í fótspor föðurins, en hann hefur dreymt um að verða eins og hann síðan í æsku. Hann dragnast með þann djöful að hafa sem strákur orðið vitni að hörmulegum dauða föðurins í eldsvoða, þar sem hann fórnaði lífinu til að bjarga vinnufélaganum Adcox (Scott Glenn), sem ásamt með eldri bróðurnum gengur Brian í föðurstað. Sá eldri, Stephen (Kurt Russell), er farinn frá konu og barni og býr í óhaffærum bát föðurins í einhverri urð við skipaskurðinn þar sem hann dundar sér við að tæma innihald Budweiserdósa milli þess sem hann þykist vera sterkur og læst sem hann vorkenni ekki sjálfum sér. Honum finnst allir misskilja sig, konan fyrrverandi, vinnufélagarnir og einkum litli bróðirinn sem ætti að vera honum þakklátur fyrir alla leiðindastælana. Stephen er svona kristslíki sem ber heiminn á herðunum jafnvel þó að enginn kæri sig um það.

Í sönnum bróðernisanda hagar Stephen því þannig að Brian endar í sinni slökkviliðsdeild í þeim tilgangi að draga úr honum gorgeirinn og fá hann til að sjá að stóri bróðir hafi rétt fyrir sér um að hinn sé sko ekkert slökkviliðsmaterial. Á meðan verða dularfullar íkveikjur mönnum að bana tvist og bast í borginni. Hinum lítt geðþekka Alderman Swayzak (J.T. Walsh) sem berst fyrir borgarstjórastólnum er mikið í mun að leysa þau mál, en fyrir hann vinnur hin forkunnarfagra Jennifer (Jennifer Jason Leigh) sem jafnframt er fyrrum kærasta Brians, og saman fá þau Brian til liðs við íkveikjurannsóknarmanninn Skugga (Robert de Niro) — svona eftir að Stephen hefur tekist að lemja úr honum metnaðinn og fá hann til að hætta í slökkviliðinu eins og hann stefndi að. Upphefst þá spennandi atburðarás þar sem draugar fortíðar lúra í hverju horni.

Mér finnst alveg lygilegt hvað þessi mynd hefur elst vel. Backdraft er spennumynd í gæðaflokki sem ekki sést lengur, þar sem persónur eru vel mótaðar og áhorfandinn fær þá tilfinningu þegar í upphafi að þær hafi verið til löngu áður en myndin hófst. Togstreita persónanna er sannfærandi, þar sem Brian tekst aldrei að verða það sem hann vill verða, en Stephen bróðir hans hefur löngu tekið föðurnum fram í starfi og um allar hetjudáðir en gleymir því að vera mennskur. Hann er því eins konar Skalla-Grímur ef Þórólfur bróðir hans væri wanker.

Myndin býr til vissa mýtólógíu um eldinn sem er vel útfærð. Stephen tönglast á því að hann „þekki eldinn betur en nokkur annar, betur en pabbi“ og því muni „eldurinn aldrei ná“ honum. Donald Sutherland leikur íkveikjubrjálæðing sem spyr Brian hvort „eldurinn hafi séð“ hann þegar hann „tók föður“ hans. Robert de Niro segir eldinn vera lífveru, sem éti og andi og hafi sjálfstæðan vilja; það sé ekki eldsmaturinn sem stýri för hans, til að sjá við honum þurfi að þekkja hann. Þessar senur auka allar tilfinningu okkar fyrir persónunum, og sömuleiðis þá tilfinningu að í heimi myndarinnar þurfi maður að vera nett klikkaður til að sýsla við eld ef þetta er þankagangurinn. Þeir eru allir dálítið eins og Vincent D’Onofrio í CSI: Criminal Intent.

Backdraft er full af æðislegum leikurum og einhvern veginn verður William Baldwin þolanlegur þeirra á meðal. Scott Glenn er alltaf flottur og aðdáendur Jennifer Jason Leigh kætast þótt ekki sé hlutverk hennar í myndinni beisið, meðan þeir reyna að rifja upp hvað hafi orðið af henni í seinni tíð. Kurt Russell er ágætur í því að vera Kurt Russell í þessari mynd þótt ég kunni nú alltaf best við hann í The Thing (svo óverdósaði hann á sjálfum sér í Tombstone sællar minningar („And Hell’s coming with me, you hear me! HELL’S coming WITH ME!“) og hefur varla sést síðan). Bestir í myndinni eru þeir Hróbjartur og Andrés og kemur það sennilega fæstum á óvart. Einnig leikur í myndinni náunginn sem lék lögguna í Reservoir Dogs. Þið megið giska á hvort fari betur fyrir honum í þessari mynd en hinni.

Tæknibrellur eru til mikillar prýði og lokasenan í efnaverksmiðjunni hefur setið í mér alveg síðan ég sá myndina fyrst, sennilega 1992. Í kjölfarið langaði mig til að verða slökkviliðsmaður en síðan hef ég lagt aðeins minni áherslu á það. Síðan er líka alvöru 90’s montage með aulahrollsvekjandi tónlist og svipmyndum af æfingum slökkviliðsmannanna og daglegum störfum þeirra. Ég áttaði mig á því á meðan að fyrir tuttugu árum fannst mér ekkert athugavert við þessa senu, en núna líður manni hálfilla undir henni.

Mat mitt er að Backdraft sé ennþá besta slökkviliðsmynd allra tíma ásamt með The Towering Inferno. Ekki að ég hafi séð þær margar. Sem spennumynd er hún næsta gallalaus, þótt á köflum efist maður um að raunveruleg slökkvilið einkennist af jafn flausturslegum vinnubrögðum. Leikurinn er almennt góður og persónurnar og þeirra keppikefli eru sannfærandi. Í lok kvikmynda birtast stundum upplýsingar á formi texta um hvernig persónum reiðir af eftir að mynd lýkur, stundum kemur þar fram tiltekinn boðskapur sem áhorfandinn á að hafa með sér út úr sýningarsalnum (eða inn á vídjóleigu þegar hann skilar myndinni), en í lok þessarar myndar er okkur tjáð að í Bandaríkjunum séu eitthvað um hundrað milljón slökkviliðsmenn starfandi. Ég veit ekkert hvað ég á að gera við þær upplýsingar, hvort það þýði að persónur myndarinnar séu bara dropi í eitthvert allsherjar haf sálarangistar og erfiðra fjölskylduaðstæðna, eða hvort manni eigi að vera sama þótt það fari illa fyrir sumum í myndinni því svo margir séu eftir, nógu margir til að gera heila seríu af Backdraftmyndum.

One thought on “Meistaraverk æskuáranna I: Backdraft”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *