Brjálaðir Norðmenn valda óvæntum usla í kringum bandaríska rannsóknarstöð á Suðurskautslandinu og íbúar hennar þurfa að takast á við óvæntar afleiðingar.
The Thing var í bíó og við feðgar skelltum okkur tveir. Venjulega eru áhorfendur á þessum eldri myndum á mínum aldri og uppúr en sonurinn oft sá yngsti. Í þetta skipti var mikið af ungu fólki og merkilega mikið af ungum konum (eða gömlum stúlkum). Gaman.
Ég hafði aldrei áður séð The Thing. Mér skilst að kápan (ég get ekki hugsað um annað en VHS) sé íkonísk, en hún heillaði mig ekki. Satt best að segja leit þetta út fyrir að vera léleg mynd. Nú gæti verið að ég hafi einfaldlega séð of margar raunverulega lélegar myndir sem reyndu að stæla kápu The Thing.
Ég kannaðist við nær alla leikara í myndinni, fastagestir í kvikmyndum og sjónvarpi æsku minnar. Það sést í myndinni að um 95% persónuleika Wilford Brimley var falinn í skegginu hans. Án þess er hann svo hversdagslegur að ég þekkti hann varla. Richard Dysart var yfirmaðurinn í L.A. Law og kom bæði í Being There og Back to the Future part III. Síðan er Keith David frægastur fyrir að hafa verið í sjöttu seríunni af Community (mér fannst röddin hans verða sífellt meira áberandi þegar á leið myndina). Auðvitað er Kurt Russell þar í aðalhlutverki, Disney-barnastjarnan sjálf.
Ennio Morricone er skráður fyrir tónlistinni en á einhverjum tímapunkti hugsaði ég með sjálfum mér að eitthvað af henni væri bara eftir Carpenter (sem semur venjulega sína kvikmyndatónlist sjálfur). Það var víst rétt ályktun hjá mér.
Flosi Þorgeirs nefndi um daginn að Leonard Maltin hefði bara gefið The Thing ★½ en það er rétt að hafa í huga að hún fékk slæma dóma frá flestum gagnrýnendum og áhorfendur voru ekki mikið glaðari með hana heldur.
Það er áhugavert að bæði The Thing og Blade Runner komu út sama dag en það var líklega ekki ástæðan fyrir slöku gengi þeirra. Áhorfendur og gagnrýnendur voru í meiri stuði fyrir fallega kvikmynd sem kom út tveimur vikum fyrr, E.T. The Extra-Terrestrial. Indælli geimvera.
Tæknibrellurnar sem eru svo frábærar og velheppnaðar eiga kannski líka sök á slökum viðtökum myndarinnar. Margir gagnrýnendur töldu þær tilgangslausar eða allavega ´oþarflega ógeðslegar. Á móti hjálpuðu brellurnar auðvitað til þess að gera The Thing að költmynd.
Þó það hafi verið gerð mynd sem heitir The Thing from Another World árið 1951 (sem Carpenter var víst mjög hrifinn af) þá skilst mér að þessi sé frekar afturhvarf til upprunalegu sögu John W. Campbell Who Goes There? sem gefin var út árið 1938.
Meginþema The Thing og Who Goes There? er auðvitað hræðslan við hið óþekkta. Það vakti líka hugrenningatengsl við H.P. Lovecraft sem skrifaði nokkrum árum fyrr einnig sögu um dularfulla uppgötun á Suðurskautslandinu (At the Mountains of Madness). Smá grúsk (Wikipedia) leiddi í ljós að Campbell var agalegur rasisti (og almennur rugludallur) líkt og Lovecraft. Reyndar var hinn síðarnefndi farinn að skipta um skoðun áður en hann lést á meðan sá yngri var í ruglinu allt sitt líf.
Who Goes There? er ekki löng saga (upprunalega útgáfan á Internet Archive) en tilfinning mín var samt að höfundur sögunnar (Campbell) væri að nýta sér að ritstjóri Astounding Science Fiction (líka Campbell) myndi borga honum fyrir hvert skrifað orð án þess að krefjast styttingar. Harðari yfirlesari hefði mögulega strikað yfir síendurteknar lýsingar á því hve hávaxnir allir þessir gaurar væru.
Það sem vakti þó helst áhuga minn (fyrir utan „bronsaða“ karlmenn) var lína sem einn óþokkinn lætur frá sér:
You are displaying the childish human weakness of hating the different.
Það kemur auðvitað í ljós að hræðslan við hið óþekkta var hið eina rétta í stöðunni og það féll kannski bara ágætlega að skoðunum Campbell. Hí á hann að fá síðan tvo svarta leikara í þessari mynd.
Það er komið að höskuldum.
HÖSKULDUR! í fleirtölu reyndar.
Upphafssena myndarinnar er ótrúlega öflug. Við sveimum um sléttur Suðurskautslandsins með fallegum og góðlegum sleðahundi. Skyndilega birtist þyrla og þar eru einhverjir brjálæðingar að reyna að skjóta grey hundinn. Þeir ganga svo langt að kasta einhvers konar sprengjum að honum.
Það kemur í ljós að þessir grimmu menn sem voru að skemmta sér við að reyna að murka lífið úr besta vini mannsins eru Norðmenn (týpískt). Tungumálamunurinn kemur í veg fyrir skýringar en mögulega skilja áhorfendur þegar gaurinn notar orð sem hljómar eins og „thing“ (ekki skildi ég fleira í norskunni hans og mig grunar að leikarinn hafi ekki gert það sjálfur). Þannig fær áhorfandinn innsýn í skrýmslið á undan persónunum. Frábært innlegg sem kom væntanlega frá handritshöfundinum Bill Lancaster (syni Burt).
Líklega hefði myndin verið stutt ef þeim norska hefði dottið í hug að segja bara „reibís“.
Myndin byggir upp spennu hægt og rólega. Hverjum skal treysta. Enginn, hvorki áhorfendur né persónur, getur verið viss hver sé „smitaður“. Það eru nægilega margir í hópnum til þess að við getum vitað stöðuna á öllum. Jafnvel hetjan okkar hegðar sér eins og hann hafi algjörlega gengið af göflunum.
Þetta er eiginlega bara Among Us (eða Werewolf). Kannski er það ástæðan fyrir því að allt unga fólkið mætti? … líklega ekki.
Endalokin eru tvíræð. Er annar hinna eftirlifenda „smitaður“? Ég komst að því að John Carpenter virðist hafa svarað þeirri spurningu hreint út fyrr á þessari öld sem mér finnst algjör óþarfi. Það sem á undan er gengið var nógu gott til þess að við þurfum ekki nánari útlistanir.
Sumsé, góð mynd.