Valley Girl (1982)👎

Stelpa úr San Fernando dalnum hittir nýrómantískan pönkari frá Hollywood sem passar ekki í vinahópinn hennar. Mun ástin sigra? Hverjum er ekki sama?

Það að Frank Zappa tekið upp lag sem hæddist að talsmáta dóttur sinnar Moon og vina hennar þykir mér frekar aumt. Þessi mynd er síðan afsprengi lagsins Valley Girl. Stelpurnar hérna nota slangrið úr laginu og það hljómar svo falskt og asnalega. Totalí glatað.

Það að sjá Nicolas Cage í sínu fyrsta stóra hlutverki nær ekki einu sinni að gera áhorfið þess virði. Besta atriðið í myndinni er líklega þegar við sjáum hvernig Sunset Strip leit út á þessum tíma.

Það er erfitt að bera þessa mynd ekki saman við Fast Times At Ridgemont High (1982, þar sem hægt er að sjá Cage enn yngri) eða Clueless og hún kemur ekki vel út úr þeim samanburði. Mér stendur á sama um allar persónurnar.

Í einhverju örlætiskasti gefur Maltin ★★½.

Runaway Daughters (1994)👍

Spútnik svífur í kringum Jörðina og þrjár unglingsstúlkur neyðast til að strjúka að heiman og lenda í ævintýrum. Sjónvarpsmyndarendurgerð samnefndrar B-myndar um táninga á villigötum frá árinu 1956. Leikstýrt af Joe Dante.

Það sem er áhugaverðast við Runaway Daughters er tengingin við kvikmyndina Matinee (1994). Báðar gerast í kringum stórviðburði í Kalda stríðinu og eru skrifaðar af Charlie Haas og leikstýrt af Dante. Gæðalega séð eru þær ekki í sama flokki enda önnur fyndin sjónvarpsmynd en hin klassísk.

Við höfum helstu leikarana sem við finnum almennt í myndum Dante. Fyrst ber að nefna Dick Miller, síðan Robert Picardo og Wendy Schaal ásamt mörgum fleirum. Dee Wallace og eiginmaður hennar Christopher Stone léku Howling (1981) sem ég held að hafi sett hana á radar Spielberg og orðið til þess að hún lék í geimverumyndinni hans.

Roger og Julie Corman sjást líka sem er viðeigandi af því upprunalega myndin var framleidd af AIP þar sem hann (og kannski hún) vann lengi.

Ef þú leitar að upplýsingum um myndina í dag þá kemur upp DVD-kápumynd sem sýnir Paul Rudd og Julie Bowen. Þau voru ekki fræg þegar myndin var gerð en strax árið eftir lék hann í Clueless og nokkrum árum seinna var hún í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttunum Ed (Modern Family kom seinna). Þannig að þegar DVD-diskurinn kom út voru þau frægust og myndin markaðssett til að leggja áherslu á þau.

Paisà (1946)👍

Sex ótengdar sögur sem gerast þegar Bandamenn eru að berjast um að ná Ítalíu úr höndum Þjóðverja. Samskipti Bandaríkjamanna við innfædda, bæði þeirra sem tilheyra andspyrnuhreyfingunni og venjulegs fólks, er í forgrunni í öllum sögunum.

Ég held að Sveitungi sé kannski besta þýðinginn á titlinum.

Þematískt framhald Roberto Rossellini af Róm, opin borg (Fellini aftur handritshöfundur) og þó hún sé góð þjáist svolítið í samanburðinum. Líkt og í þeirri fyrri eru fáir þjálfaðir eða reyndir leikarar.

Leikkonan Maria Michi snýr aftur og ég velti fyrir mér hvort klæðnaður hennar vísaði beint í fyrri myndina. Annars gefur óljós athugasemd hjá Criterion gefur til kynna að hún hafi sjálf verið virk í andspyrnuhreyfingunni en ég veit ekki meir.

Sögurnar eru misjafnar og misgóðar. Fyrsta var áhrifamest að mínu mati en margar hinar hefði mátt stytta örlítið.

Það er áhugavert að í einni sögunni er svartur hermaður í aðalhlutverki. Ég man ekki eftir að hafa séð slíkt í eldri bandarískum kvikmyndum um Seinna stríð.

Maltin gaf ★★★½ sem er í hærri kantinum.

Thunderbolts* (2025)🫳
{132-100-55-36}

Ólíklegar hetjur. Lyf til að búa til ofurhetjur. Frumlegt sko.

Mér líkar við Florence Pugh og David Harbour þannig að ég ákvað að taka áhættuna á að sjá Marvel-mynd. Byrjar ágætlega. Einhverjir fyndnir brandarar.

Síðan fer þetta í allt að „lemja, sparka, skjóta, springa, hrynja“ gírinn sem ég skil ekki að fólki þyki spennandi af því það er eiginlega alltaf eins í Marvel-myndum. Svo kemur atriði sem minnir sterklega á Christopher Nolan mynd. Að lokum kemur rassavasasálfræði til að bjarga málunum. Full löng.

Mig langar ekki að vera þessi gaur en ég vona að Florence Pugh og David Harbour geri eitthvað meira spennandi í framtíðinni en að tala með asnalegum rússneskum hreim.

Þar með hef ég náð að horfa á hundrað myndir á þessu ári sem ég hafði ekki séð áður, þar af fimmtíu „nýjar“. Áramótheim uppfyllt. Held ég horfi samt á fleiri.

Sleeping Beauty (1959)🫳
{131-99-ø-ø}

Þyrnirós. Þið vitið.

Satt best að segja hélt ég að ég væri löngu búinn að sjá þessa mynd en svo var ekki. Malicifent er eina áhugaverða persónan í myndinni og það gæti bara verið í samhengi við allar hinar.

Myndin er bólstruð. Hún er stutt en þó of löng.

Maltin gefur ★★★ sem er óhóflegt.

The Rock (1996)👍
{130-ø-ø-35}

Hersforingi hertekur Alcatraz og gerir frekar sanngjarnar kröfur ella muni hann tortíma San Francisco. Efnavopnasérfræðingurinn Nick Cage og gamall fangi af Grjótinu taka þátt í einhvers konar björgunarleiðrangri.

Þolanlega heimskuleg.

Sko, strax í upphafi The Rock sjáum við Cage ógeðslega töff reyna að aftengja efnavopn sem var af einhverri óskiljanlegri ástæðu flutt yfir hálfan heiminn, frá Bosníu til Bandaríkjanna, þar sem það er rannsakað í fullmannaðri skrifstofubyggingu.

Við höfum leiðinlegustu klisjuna úr hasarmyndum þegar meintir góðir gæjar gera sitt besta til að slátra að óþörfu almennum borgurum af gáleysi í bílaeltingarleik.

Svart fólk fær að vera með í myndinni en hlutverk þeirra er aðallega að vera með stæla.

Tónlistin er góð en endurtekningarsöm. Það hefði þurft fleiri tilbrigði við stef.

Þetta er erki-hasarmynd tíunda áratugarins. Síðasta mynd Don Simpson (hverjum þessi mynd er tileinkuð með vafasamri fullyrðingu um að hann hafi verið minnst með ást) með Jerry Bruckheimer (sem enn lifir). Leikstýrt af Michael Bay sem ber hve mesta ábyrgð á því hve mikið rusl hefur komið frá Hollywood á þessari öld, augljóslega hans besta mynd.

En Cage og Connery eru góðir og gera þetta ánægjulegra en flestum hefði tekist.

Hikandi þumall upp. Maltin gefur ★★.

Smá höskuldur í lokin, um endalok myndarinnar.

Cage tilkynnir að allir gíslarnir hafi lifað af án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um það. Hann veit ekki einu sinni hvort hryðjuverkamennirnir séu ennþá á svæðinu. Hvernig í ósköpunum ætti hann að vita nokkuð um það?

The Lodger: A Story of the London Fog (1927)👍👍🖖
{129-98-ø-ø}

Raðmorðingi ungra ljóshærðra kvenna leikur lausum hala í Lundúnum og eldri hjón taka inn sérvitran leigjanda. Er ljóshærða dóttir þeirra örugg?

Fyrsta spennumynd Hitchcock (heimild: Maltin). Það er heillandi að sjá að hann var strax farinn að vinna með formið. Svo fannst mér stundum einsog hann væri að vísa í Nosferatu með því hvernig skuggar birtast. Síðan er frumlegt (held ég) hvernig litir og millititlar notaðir.

Það er áhugavert að ég hef aldrei séð þöglar myndir þar sem textinn er svartur á hvítum bakgrunni. Það er allt í dökku stillingunni.

Þetta er ekki fullkomin mynd. Hún er full hæg og sumir leikarar eru ekki jafn færir og aðrir. Þeir færu eru frekar færir, s.s. húsmóðirinn sem kann að nota andlitið án þess að bókstaflega geifla sig.

Titilhlutverkið er í höndum Ivor Novello sem hefði vel tekið að sér hlutverk vampíru. Þessi lýsingu á persónu Novello birtist á skjánum og hlægði mig. Vona að hann hafi haft húmor fyrir þessu á sínum tíma og það hafi ekki verið illa meint.

"Even if he's a bit queer, he's a gentleman."Þó myndin sé ýkt eins og margar þöglar myndir þá gengur hún alveg upp. Þegar allt kemur til alls þá eru hlutir á sínum stað.

Criterion útgáfunni fylgir ný tónlist sem virkar mjög vel nema þegar hún byrjar að enduróma sérstaklega Bernard Herrmann í Vertigo. Eiginlega óþarfi.

Þetta er víst í fyrsta skipti sem Hitchcock birtist í eigin mynd. Ég spottaði það.

Maltin gefur ★★★.

Last Night in Soho (2021)👍👍
{128-97-ø-ø}

Stúlka sem er hugfanginn af Lundúnum sjöunda áratugarins, Karnabæ og slíku, flytur til Lundúna samtímans til að þess að læra tískuhönnun en raunverulega lexían er sú að nostalgían er betri en raunveruleikinn.

Mér finnst betra að vita sem minnst um myndir fyrirfram. Ég vissi bara að þetta væri mynd eftir Edgar Wright sem hefði hlotið frekar slæma dóma miðað við margar myndir hans. Þar sem ég er mjög hrifinn af Baby Driver og Scott Pilgrim lét ég vaða.

Þetta er hryllingsmynd sem hefði mögulega verið betra að vita áður en ég bauð konu og (eldri) syni að horfa á hana með mér.

Þar sem ég missti af nafninu hennar í rununni í upphafi myndarinnar var ég að ergja mig rosalega að muna ekki hvað aðalleikkonan heitir. Thomasin McKenzie lék í Leave No Trace og Jojo Rabbit. Og hún er frábær.

Spegilsjálfiið er Anya Taylor-Joy sem gerir þetta að þriðju myndinni sem ég hef séð hana á, ekki frá, þessu ári (The Witch / The Menu). Þessi mynd varð víst til þess að George Miller ákvað að fá hana til að leika í Furiosa (Mad Max) sem kom út í fyrra. Síðan minnir mig að hún hafi leikið líka í ofmetinni eyðimerkurmynd.

Matt Smith og Terence Stamp eru leiðindatýpur. Svo er það Diana Rigg í sínu hinsta hlutverki sem eldri kona sem man tímana tvenna.

Myndin var mikið betri en ég bjóst við og auðvitað kallar það á spurninguna hvort lágar væntingar hafi hjálpað? Ég get ekki verið viss en ég held ekki. Það hefði mátt stytta myndina um nokkrar mínútur til að halda dampinum en það ergði mig ekki sérstaklega.

Real Genius (1985)👍👍
{127-ø-ø-ø}

Sextán ára snillingur fer í háskóla og kynnist þar aðeins eldri snillingi sem er á mörkunum að lesa yfir sig. Þeir vinna saman að verkefni sem hefur annan tilgang en þá grunar.

Það er leisargeisli sem notaður er sem vopn. Það er ekki höskuldur, það er bókstaflega opnunaratriðið. Kannski hefði það virkað betur sem leyndardómur, hver veit?

Auðvitað er ég að heimsækja Real Genius út af Val Kilmer (einnig sem kvikmyndauppeldi). Ef ég á að vera heiðarlegur þá er þetta uppáhaldsmyndin mín með honum. Ekki besta. Langt því frá. Hún er gölluð og oft virðist vanta herslumuninn. En Val Kilmer er nægilega sjarmerandi til þess að láta þetta virka. Nokkrar klassískar línur hjálpa.

Það skiptir vissulega máli að Real Genius er pólitískt séð á góðu róli. Fínn boðskapur.

Helsti galli myndarinnar leiðindagaurinn Kent og allur kjánalegi níunda áratugshúmorinn sem hann persónugerir.

Það er svo margar myndir frá þessum tíma sem eru með frábær popplög. Í Real Genius er ótal lög sem fólk hefur gleymt ef það þekkti þau einhvern tímann. Síðan endar það á Everybody Wants To Rule The World með Tears For Fears sem er auðvitað topplag og mjög svo viðeigandi.

Tékov fær sér snarl og Maltin gefur ★★½ en umsögnin hljómar eins og hún ætti bara að fá ★½. Málamiðlun milli röklegrar greiningar og ánægju?

Giù la testa / Hnefafylli af dínamíti (1971)👍
{126-96-ø-ø}

Sprengjuóður Íri og bandíti verða ólíklegir félagar í mexíkönsku byltingunni. Leikstýrt af Sergio Leone og er annað hvort spagettívestri eða á mörkunum að vera það.

Hvað á að kalla myndina? Giù la testa? Duck, You Sucker? A Fistful of Dynamite? Upprunalega planið var víst Once Upon a Time During the Revolution sem tengir hana bæði við … in the West og … in America. Á Íslandi var hún kölluð Hnefafylli af Dínamíti.

Talið er tekið upp eftir á í myndinni og það var svolítið skrýtið með James Coburn. Þegar hann byrjaði að tala fór ég að efast um hvort þetta væri hann, röddin var svo skrýtin. Var einhver annar að tala fyrir hann?

Það var ekki fyrren að við sjáum að hann er með veifu merkta IRA (þó myndin gerist fyrir stofnun lýðveldishersins) í farangrinum að ég áttaði mig á að hann var með atrennu að írskum hreim sem hægt væri að lýsa sem hnefafylli af hrossaskít. Það er kannski kostur að stundum virtist hann gleyma hreimnum.

Fólk sem telur að hreimur Keanu Reeves í Bram Stoker’s Dracula sé sá versti í kvikmyndasögunni hefur ekki séð nógu margar myndir.

Rod Steiger dettur aldrei út úr sínum vonlausa mexíkanska hreim. Hann og fjölskylda hans er samansafn af steríótýpum. Þetta er undarlegra í ljósi þess að samúð myndarinnar er nær öll með Mexíkanskri alþýðu.

Ég velti svolítið fyrir mér hvort ég sé ósanngjarn þar sem mér fannst ítalski leikararinn Romolo Valli alveg sérlega góður í hlutverki læknisins. Var hreimurinn hans mikið betri eða tók ég bara ekki eftir því? Kannski hefði verið betra að horfa á myndina á ítölsku. Þá hefði ég lítið pælt í hvernig leikararnir hljómuðu.

Lengst af er myndin hálfgerð gamanmynd en á köflum gerist hún alvarlegri en þá er erfitt að taka hana alvarlega. Er hægt að hafa raunverulega samúð með leiknum persónum sem hljóma eins og þær eigi heima í Looney Tunes?

Þetta nær samt ekki að eyðileggja myndina. Kvikmyndatakan er glæsileg. Tónlist Ennio Morricone er frábær og undarleg. Það eru líka fyndin atriði.

Fyrir Leone eru tennurnar hans Coburn ígildi augna Clint Eastwood.

Þessi mynd er sú elsta sem ég veit um þar sem einhver notar löngutöngina til að sýna andúð sína.

Maltin gefur ★★★ og ég er ekkert ósáttur við það.

Under the Silver Lake (2018)👍
{125-95-ø-ø}

Auðnuleysingi í hipsterahverfinu Silver Lake í Los Angeles flækir sig í dularfull mál, morð og samsæri.

Framan af var ég ákaflega ánægður með Under the Silver Lake. Hún er, svipað og Brick, uppfull af beinum og óbeinum vísunum í Noir myndir en líka Hitchcock og Lynch. Samband aðalpersónunnar við nágranna sína er sérstaklega skemmtilegt sem spegilmynd af The Long Goodbye.

Hægt og rólega tapaði myndin mér. Atriðin virtust ekki hafa tilgang annan en að vera skrýtin. Síðan voru þau langdregin skrýtin. Of mikið Lynch, of lítið Hitchcock. Fyrir minn smekk.

Kvenpersónur í myndinni er margar en ekkert sérstaklega áhugaverðar. Þær eru aðlaðandi og aðalpersónan okkar er að eltast við þær af ýmsum ástæðum. Þetta er líklega viljandi og á væntanlega ekki að segja neitt jákvætt um „hetjuna“ en það hefði hjálpað að fá áhugaverðar persónur.

Ef minnst hefði verið á nafn hinnar nágrannakonunnar hefði myndin náð Bechdel-prófinu með lágmarkseinkunn. Bara rétt svo skriðið yfir mörkin.

Það er samt rétt að segja að það er fullt af nafnlausum persónum í myndinni. Við fáum t.d. Topher Grace sem Bar Buddy.

Ég veit að mörgum finnst þetta vera mynd sem öskrar á að það þurfi að horfa á hana aftur en ég heyrði ekki kallið. Ég hef ekkert beint á móti myndinni en mig langaði ekki að kafa dýpra í leyndardómana.

Roma, città aperta / Róm, opin borg (1945)👍👍🖖
{124-94-ø-ø}

Við fylgjumst með venjulegu fólki og meðlimum andspyrnunnar í Róm undir lok þess tíma sem borgin var undir stjórn Þjóðverja. Leikstýrt af Roberto Rossellini sem skrifaði handritið ásamt, meðal annars, Federico Fellini.

Framleiðsla Roma, città aperta hófst nærri því um leið og Bandaríkjamenn frelsuðu Róm. Myndin er tekin upp á götum þar sem nasistar höfðu marserað um nokkrum mánuðum fyrr.

Þessi mynd náði mér. Við fyrsta áhorf myndi ég segja að hún fari ofar á mínum listum heldur en Reiðhjólaþjófarnir eða það sem ég hef séð af kvikmyndum Fellini.

Myndin sýnir að andspyrnan var samansett af mjög ólíku fólki. Nasistinn sem spyr kommúnistann hæðnislega hvort konungsinnarnar verði ennþá vinir hans eftir stríð hefur í raun rétt fyrir sér. Svarið er augljóst, það skiptir ekki máli því það þarf alltaf að byrja á því að sigra nasistana.

Presturinn Don Pietro er eftirminnilegasta persóna myndarinnar. Hann er dæmi um þessa óvenjulegu „bólfélaga“ innan andspyrnunnar því hann þarf að vinna með guðlausum kommúnistum og þeir með honum.

Maltin gefur ★★★★ (hæstu einkunn) og ég get ekki verið annað en sammála.

Blackmail (1929) 👍👍🖖
{123-93-ø-ø}

Morð og fjárkúgun, fer líka inn á óþægilegri slóðir. Fyrsta enska talmyndin (en ekki fyrsta talmyndin á ensku) og myndin þar sem Hitchcock skipti yfir í hljóðmyndir, í miðjum klíðum.

Maltin segir að þögla útgáfan af Blackmail sé betri en ég er bara svolítið hrifinn af því hvernig hljóðið er unnið í myndinni, þó það sé tekið upp eftir á.

Blackmail er mjög góð en ekki snilld. Hún er full hægfara til þess en það skiptir ekki öllu máli því hún er frekar stutt. Söguþráðurinn er ekki aðalatriðið. Það sem kom mér helst á óvart er hve langt Hitchcock var kominn í að þróa stíl sinn. Líklega þarf ég að kíkja líka á þöglu myndirnar hans við tækifæri.

Ég ætla ekki að höskulda hvar og hvernig Hitchcock kemur fram í myndinni en það er óvenju skemmtilegt atriði. Myndin er frekar fyndin.

Maltin gefur ★★★ sem mér finnst í lægri kantinum miðað við hann.

Juliet, Naked (2018)👍👍
{122-92-ø-ø}

Kona (Rose Byrne) erkiaðdáanda (Chris O’Dowd) rokkstjörnu tíunda áratugarins hættir með honum og kynnist rokkstjörnunni (Ethan Hawke). Ekki vera svekkt þó það sé engin nekt.

Ég hef lengi verið óljóst meðvitaður um Juliet, Naked og verið með jafn óljóst markmið um að horfa á hana. Þannig að ég skellti henni í tækið (ýtti á play) og horfði á í gegn án þess að muna að hún byggir á bók Nick Hornby.

Nick Hornby er rithöfundur sem Ásgeir kynnti mig fyrir. Mig grunar að ég hafi fengið Fever Pitch, High Fidelity og About a Boy bækurnar að láni hjá honum. Ég sá líka allar myndirnar og það verður að segjast að About a Boy er áberandi slökust af þeim enda hinar frekar góðar. Ég veit ekki hvar Juliet, Naked myndi lenda á þeim lista en allavega ekki í því neðsta.

Lýsingarorðin sem mig langar að nota hljóma næstum eins og ég sé að tala myndina niður. Hún er indæl, hlý og notaleg. Það er bara fínt að horfa stundum á slíkar myndir. Síðan er hún líka fyndin.

Brief Encounter (1945)👍
{120-91-ø-ø}

Gift kona verður ástfanginn af giftum lækni og þau upplifa ýmsar tilfinningar.

Þá hef ég séð myndir frá hverju einasta ári frá 1930 til 2025. Sumsé, ég valdi Brief Encounter ekki af einstökum áhuga þó hún sé talin klassísk. Kannski er hún það.

Yfirborðsagan er góð en það að heyra hugsanir konunnar er ekki að hjálpa mér. Ég held að myndin myndi alveg ganga upp án þeirra nákvæmu útlistana. Mögulega betri.

Það sem mér þykir áhugaverðara er sú túlkun á sögunni að í henni sé dulin saga af samkynhneigðum karlmönnum sem verða ástfangnir en geta ekki gert neitt í því vegna stöðunnar á þessum tíma. Þar sem myndin byggir á leikriti, og er meðal annars skrifuð af, Noël Coward gæti þetta verið rétt.

Ég fór að ímynda mér hvernig hægt væri að byggja á þessari hugmynd. Sögusviðið væri leikhús þar sem verið væri að setja upp upprunalega leikritið en þar vinna tveir samkynhneigðir karlmenn sem eiga báðir eiginkonur en verða ástfangnir líkt og aðalpersónurnar í myndinni.

Maltin gefur ★★★★ sem mér finnst óhóflegt.

Il mio nome è Nessuno / My Name is Nobody (1973)👍👍
{119-ø-ø-ø}

Besta skyttan í Vestrinu ætlar að setjast í helgan stein, sem er voðalegt orðatiltæki, en yngri maður reynir að sannfæra hann um að hætta með hvelli.

Á fyrstu árunum eftir að það kom myndbandstæki á heimilið voru myndir Bud Spencer (Carlo Pedersoli) og Terence Hill (Mario Girotti) ákaflega vinsælar. Ég held ég hafi séð flestar sem voru til á akureyskum myndbandaleigum. Ég man bara ekki nákvæmlega hverjar ég sá þannig að þær eru ekki á stóra listanum yfir myndir sem ég hef séð.

Það voru kunnugleg atriði í Il mio nome è Nessuno þannig að ég held ég hafi horft á hana. Atriðin sem ég man hvað helst eftir eru byssubrellur og kinnhestar. Reyndar er enginn Bud í þessari, bara Terence. Líka einhver leikari sem ég þekkti ekkert á sínum tíma að nafni Henry Fonda. Kannski ég hafi kannast við Steve Kanaly sem Dallas aðdáendur vita að lék Ray Krebbs launson Jock Ewing.

Sergio Leone framleiddi þessa mynd og átti hlut í handritinu. Leikstjórinn er lærlingur hans að nafni Tonino Valerii.

Ég læt vaða á myndina af því ég var að horfa á The ‘Burbs. Ég nefndi að í grófklipptu vinnueintaki Joe Dante af þeirri mynd eru ýmis spagettívestralög á bráðarbirgðarhljóðrás. Jerry Goldsmith samdi nýtt efni fyrir allt nema eitt atriði sem vísar mjög sterkt í myndir Leone. Þar fékk lag Ennio Morricone úr Il mio nome è Nessuno að vera áfram. Ekkert gat toppað það. Enda mjög flott stef.

Myndin er skopmynd af spagettívestra enda er Terence Hill aðallega gamanleikari. Henry Fonda er aftur á móti frekar alvarlegur mestalla myndina. Það virkar yfirleitt vel.

Döbbið fer ekki alltaf vel í mig. Þetta alþjóðlega gengi leikara var líklega bara að segja línurnar sínar á eigin tungumáli og síðan fær einhver annar að flytja línurnar á ensku (sama vandamál ef ég hefði horft á hana ítölsku).

Hvað á að kalla myndina? My Name is Nobody? Il mio nome è Nessuno? Íslenska bíóþýðingin var á sínum tíma Ég heiti Nobody sem er alvarlega andlaust á alla vegu. Á Sýn var myndin kölluð Leigumorðinginn sem er kannski meira skapandi af því það er enginn raunverulegur leigumorðingi í myndinni.

Ég læt vera að lýsa yfir að þessi mynd sé klassísk. Þetta er bara eldri mynd sem mér finnst skemmtileg.

Maltin gefur ★★★ sem er nokkuð sanngjarnt. Hann telur hana þó þjást af oflengd.

Josie and the Pussycats (2001)👍👍
{118-90-ø-ø}

Illur útgáfurisi þarf að finna nýja vinsæla hljómsveit til að markaðsetja til krakka og finna Josie and the Pussycats.

Josie and the Pussycats koma upphaflega úr Archie teiknimyndablöðunum en mig grunar að fleiri hérlendis viti það nú en þá út af Riverdale.

Mín helst tenging við Josie and the Pussycats er að kunna utanað ljóðið sem Mike Myers flutti í So I Married An Axe Murderer.

Ég hef stefnt á að horfa á myndina síðan árið 2001. Við sátum inn á kaffistofu starfsfólks á Kringlukránni og einhver var að útskýra að þetta væri fín mynd sem hefði floppað af því hún var markaðsett fyrir 12 ára stelpur en passaði betur fyrir töluvert öðruvísi áhorfendur.

Myndin byrjar skemmtilega með endurfundum Breckin Meyer og Donald Faison úr Clueless sem leika meðlimi strákahljómsveitar með viðeigandi nafn ásamt Seth Green og gaur sem ég þekkti ekki.

Aðalhlutverkin eru í höndum Rachael Leigh Cook, Tara Reid og Rosario Dawson. Sú síðastnefnda er enn að en hinar minna sjáanlegar í seinni tíð.

Skemmtileg staðreynd, Donald Faison og Tara Reid voru vinir í skóla (Professional Children’s School á Manhattan) og kom seinna fram í nokkrum þáttum af Scrubs. Þau ræddu þetta ítarlega í þætti af hlaðvarpinu Fake Doctors, Real Friends.

Mér sýnist að ég hafi mögulega aldrei séð neina aðra mynd með Rachael Leigh Cook en er allavega ákaflega góð sem titilpersónan.

Síðan höfum við Alan Cumming og Parker Posey sem illmennin. Posey er sérstaklega góð. Örlög þeirra er samt það versta við myndina. Ógurlega hallærislegt.

Ég hló oft yfir myndinni. Boðskapurinn er mjög skýrt gegn neysluhyggju sérstaklega og það hefði verið fínt af tólf ára stelpur myndu almennt horfa á þessa mynd.

Mig grunar að Maltin hefði gefið myndinni meira en ★★ ef dóttir hans Jessie, þá fimmtán ára, hefði fengið að ráða.

The Menu (2022)👍👍
{117-89-ø-ø}

Par eitt fer á einstakan veitingastað en það kemur á óvart hvað er á matseðlinum. Svört gamanmynd. Ég sá hana án þess að vita nokkuð meir.

The Menu er fyrst og fremst fyndin. Það vottar við fyrir þjóðfélagslegri gagnrýni en það er ekkert aðalatriði. Það er líka gert, að mestu góðlátlegt, grín að matarsnobbi.

Anya Taylor-Joy og Ralph Fiennes eru frábær í aðalhlutverkum. John Leguizamo er frekar skemmtilegur. Nicholas Hoult (strákurinn úr About A Boy) er eiginlega uppáhaldið mitt sem innihaldslausasta manneskjan á svæðinu.

Safe Men (1998)🫴
{116-88-ø-ø}

Vegna misskilnings eru tveir vonlausir söngvarar taldir vera frábærir þjófar. Þeir eru neyddir til þess að ræna fyrir mafíósa.

Þessi mynd hefði getað verið algjörlega vonlaus. En leikararnir hífa hana upp. Það eru, meðal annars, Sam Rockwell, Steve Zahn, Mark Ruffalo, Paul Giamatti og Peter Dinklage.

Maltin gefur ★★½ sem er á mörkum óhóflegs örlætis.

The ‘Burbs (1989)👍👍
{115-ø-ø-ø}

Úthverfafólk verður tortryggið í garð nýrra nágranna vegna undarlegrar hegðunar. Mynd frá leikstjóranum Joe Dante með Tom Hanks í aðalhlutverki.

Þó The ‘Burbs sé ekki í jafn miklu uppáhaldi hjá mér og Gremlins myndirnar eða Matinee (eða jafnvel Small Soldiers?) hef ég séð hana ótal sinnum. Hún er fyndin en er líka ádeila á sataníska panikk síns tíma.

Myndin er frá því tímabili sem Tom Hanks var aðallega frægur fyrir að vera gamanleikari og skoðið þegar hann kemur niður af pallinum í lok myndarinnar. Snilld.

Við höfum líka Carrie Fisher (sem vann stundum með Dante í „handritalækningum“), Bruce Dern (var víst m.a. með spurningakeppnir við upptökur), Rick Ducommun, Henry Gibson og Wendy Schaal (fastaleikari Dante). Dick Miller og Robert Picardo eru með Dante eins og venjulega. Rance Howard kemur líka fyrir í lokin.

Myndin er tekin upp hjá Universal. Húsin í götunni gætu verið kunnugleg. Þarna var t.d. Desperate Housewives tekið upp.

Ólíkt nær öllum kvikmyndum var The ‘Burbs tekin upp í tímaröð. Það varð til þess að leikarar gátu spunnið meira en venjulega (af því það þarf ekki að vanda sig svo það passi við eitthvað sem var þá þegar búið að taka upp).

Myndin byggist, líkt og margar myndir Dante, á ákveðinni teiknimyndalógík. Mér finnst það ákaflega vel heppnað og fyndið en skil vel að það höfði ekki til allra.

Endirinn er kannski veikasti punkturinn. Það má spyrja hvort hann grafi undan því sem á undan kom. Það voru víst þónokkrar útgáfur skotnar og einn fylgdi með í vinnuprentinu¹. Hann er miklu afdráttarlausari, sem er hiklaust verra. Mun betra að hafa þetta órætt.

Maltin gefur ★★ sem ætti ekki að koma á óvart. Joe vinur hans fékk aldrei neina miskunn.

¹ Í fyrra keypti ég The ‘Burbs á Bluray. Ástæðan var fyrst og fremst að mig langaði að sjá „vinnuútgáfu“ (ekki leikstjóraútgáfu) Joe Dante sem fylgdi með. Þarna er myndin grófklippt og undir hljómar tónlist tekin úr ýmsum kvikmyndum, mest áberandi eru spaghettivestrastef. Tónskáldið Jerry Goldsmith hefur væntanlega fengið nokkurn veginn þessa útgáfu til að undirbúa sitt framlag. Líklega er verið að brjóta einhvern höfundarétt með þessari útgáfu en þetta er ekki spennandi fyrir neinn nema aðdáendur myndarinnar.

The World’s End (2013)👍
{114-ø-ø-ø}

Maður sem hefur ekki náð að blómstra eftir að skóla lauk ákveður að endurlifa besta kvöld lífs síns með (þáverandi) bestu vinum sínum. Það fer ýmislegt á annan veg en hann bjóst við.

Einhvern tímann mun mér takast að fullkomna hallærislegu ágripin af söguþræði kvikmynda.

The World’s End (2013) er þriðja kornettómynd. Mér þótti hún síst þegar ég horfði á hana fyrst en ég er ekki jafn viss núna. Sú skoðun mín að Baby Driver og Scott Pilgrim séu báðar betri en nokkur af þríleiknum stendur óhögguð.

Fljótlega eftir að kráarröltið hófst fór ég að velta fyrir mér hvort Edgar Wright hefði ekki örugglega lesið bækur Robert Rankin. Ég finn ekkert um það en ég er samt ekki sá sem veltir upp þessari tengingu. Það væri allavega áhugavert að sjá Edgar tækla Fandom of the Operator.

Ég hef ekki ennþá séð síðustu mynd hans, Last Night in Soho, en geri ráð fyrir að horfa á næstunni. Síðan er hægt að hlakka til þess að fá útgáfu Edgar Wright á Running Man. Og auðvitað Sparks-bræðra heimildarmyndin.

Maltin gefur ★★★ sem er heilli stjörnu meira en Hot Fuzz fékk.

Hefði ekki þurft að hafa Total Eclipse of the Heart með í myndinni?

Con Air (1997)👍👍
{113-ø-ø-34}

Faðir reynir að komast heim til konu og barns en lendir í ótrúlegustu ævintýrum með ýmsum skrautlegum karakterum sem eiga sér margvísleg og ansi óvenjuleg áhugamál.

Söguþráðurinn er fáránlegur og persónurnar eru hálfgerðar teiknimyndafígurur. Myndin er á köflum hálfpólitísk en rokkar á milli og er því hvorki né.

Af hverju líkar mér við þessu stórheimskulegu mynd? Kannski af því að það er ekki hægt að taka Con Air alvarlega. Líklega skiptir þó mestu máli að frábærir leikarar eru greinilega að njóta sín.

Nicolas Cage tók greinilega margar ákvarðanir varðandi persónu sína og þær voru ekki allar góðar en virka á sinn hátt. John Cusack (sem fylgdi mér þegar ég var enn á Twitter) er voðalega mikið bara hann sjálfur. John Malkovich í yfirkeyrslu. Steve Buscemi heldur aftur af sér og það virkar. Ving Rhames virðist voðalega glaður og það smitar eiginlega út frá sér.

Ég sá þessa ekki bíó á sínum tíma enda búinn að fá nóg af Bruckheimer/Simpson (sá síðarnefndi lést reyndar áður en þessi mynd var gerð). Con Air mynd fellur alveg í flokk mynda þeirra félaga en er hálfgert meistaraverk þeirrar kvikmyndgerðar.

Endir myndarinnar er sérstakt afrek í yfirgengileika.

Maltin gefur ★★ og það er í sjálfu sér alveg sanngjarnt.

Sinners 2025👍👍
{112-87-54-33}

Tvíburarar snúa aftur í heimahaga til þess að stofna skemmtistað en fljótlega gerast dularfullir atburðir. Ég ætla sumsé ekki að segja nákvæmlega.

Satt best að segja er það tónlistin sem lyftir kvikmyndinni upp. Aðallega blús en ekki eingöngu. Skondið að sjá nafn Ludwig Göransson þarna. Hann hafði ekki búið lengi í Bandaríkjunum þegar hann byrjaði að semja tónlistina fyrir Community sem leiddi til þess að hann fór að vinna með Donald Glover og hingað er hann kominn.

Ég hef áður nefnt að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af því að sami maður leiki tvíbura. Michael B. Jordan er fínn en ég átti erfitt með að sjá mun á persónunum hans. Óþarfi eiginlega.

Með betri en ekki bestu myndum ársins hingað til.

The Long Goodbye (1973)👍
{111-86-ø-ø}

Vinur Philip Marlowe er í vandræðum og einkaspæjarinn flækist í málin. Þar sem við erum vön Bogart í þessu hlutverki er svolítið erfitt að venjast Elliott Gould hérna hérna. Hann er meira linsoðinn og myndin er hálfgerð skopstæling á köflum.

Ég er smá klofinn í afstöðu minni til The Long Goodbye (1973). Mér fannst hún góð en ekki frábær, samt langar mig svolítið að horfa á hana aftur. Það er til dæmis ekki það sem mig langar að gera með síðustu Altman-mynd sem ég sá.

Kötturinn er auðvitað helsta ráðgáta myndarinnar og erfitt að átta sig á því hvers vegna Marlowe heldur að sjón sé þeirra virkasta skilningarvit.

Það eru mörg kunnugleg andlit í myndinni og þá er sérstaklega fyndið að sjá gaur sem þarf að fara úr öllu nema nærbrókinni. Held að þetta sé langelsta mynd sem ég hef séð hann í. Henry Gibson kemur fyrir í nokkrum atriðum.

Tónlist John Williams er áberandi.

Maltin var hálf-pirraður á myndinni, skrifaði að Altman virtist haldinn fyrirlitningu á þessari tegund kvikmynda en gaf henni alveg ★★½.

Palm Springs (2020)👍👍
{110-85-ø-ø}

Ég var búinn að ákveða að horfa á Palm Springs án þess að vita um hvað hún væri. En síðan var það í fyrradag sem ég heyrði einhvern nefna „þetta er eins og [fræg kvikmynd] nema að …“. Ég náði samt að setjast niður og horfa án þess að muna þetta. Fyrren auðvitað að „X“ gerðist. Mér hefur samt ekki enn tekist að gleyma tvistinu í Nafni rósarinnar sem einhver höskuldaði fyrir mér fyrir þrjátíu árum.

Þetta er ekki beint tvist en ef þið eruð svona skrýtin eins og ég þá verð ég að vara ykkur við höskuldum en myndin er allavega góð og nær einhvern veginn að lifa af samanburðinn við frægu myndina. Bara níutíu mínútur og fyndin.

Höskuldur!

Höskuldur!

Höskuldur!

Þetta eru sömu aðstæður og í Groundhog Day. Nokkurn veginn. Við byrjum í miðjum klíðum. Við kynnumst persónunum ekkert utan lúppunnar.

Andy Samberg (Brooklyn 99) festist fyrstur í brúðkaupi vinafólks kærustunnar en fleiri fylgja með seinna (sama dag samt, hah ha). Cristin Milioti (mamman úr How I Met Your Mother) er systir brúðarinnar (Camila Mendes úr Música) og er ekki með allt á hreinu í sínu lífi. Myndin snýst mikið til um þeirra samband.

Við höfum líka JK Simmons að leika mann sem á erfitt með að stjórna tilfinningum sínum. Mögulega hefur hann gert slíkt áður. June Squibb (Thelma) er á svæðinu en aðallega bara í einu atriði.

Myndin fer í aðrar áttir en Groundhog Day. Aðallega vegna þess að einmanaleikinn er bæði betri og verri með einhverjum öðrum. Himnaríki, Hreinsunareldur, eða Helvíti? Hver veit.

Það er ómögulegt að enda svona mynd en ég var allavega ekkert ósáttur.