Dai-bosatsu tôge / Sword of Doom (1966)👍

Er sverðið bölvað eða samúræinn sem notar það?

Það eru margir mjög hrifnir af Dómsverðinu og hún er mjög fín. Ég sé bara ekki snilldina. Kannski er það að ég kaupi ekki aðalleikarann, Tatsuya Nakadai. Hann var á mörkunum að fara í taugarnar á mér í Yojimbo og í þetta skiptið fór hann stundum yfir þau mörk. Bardagaatriðin voru líka stundum full ósannfærandi.

Hidalgo (2004)🫳

Bandarískur kúreki ferðast yfir hnöttinn tekur þátt í reiðkeppni til að sýna að hans blandaði sléttuhestur (mustang) sé jafn öflugur og þeir arabísku.

Myndin er byggð á sannri sögu sem er ekki sönn. „Kúrekinn“ var til og skáldaði ævintýri, eins og margir aðrir. Það ergir mig í sjálfu sér ekki en mér finnst tónninn ekki passa. Það hefði mátt sleppa upphafinu, alvarlega kaflanum þar sem er fjallað um frægt fjöldamorð. Hvernig á það heima í svona ýkjusögu?

Sagan sjálf er ótrúlega klisjukennd og endirinn eiginlega verstur. Líklega átti það atriði að kalla fram gæsahúð en ég fékk bara aulahroll. Hidalgo eru kjánalegir draumarórar vestræns manns. Smá sjálfsmeðvitund hefði verið góð fyrir myndina.

Maltin gefur ★★★½, úff nei.

Atomic Blonde (2017)🫴

Njósnarar bítast á í Berlín rétt fyrir fall Múrsins.

Heimskuleg en skemmtileg hasarmynd sem hættir að vera skemmtileg þegar á líður þannig að vandræðalegur söguþráður fær að vera í forgrunni. Endirinn er kjánalegur.

Sjarmi Charlize Theron, James McAvoy, John Goodman og Sofia Boutella nær ekki að bjarga myndinni. Skemmtileg tónlist samt og gaman að Berlín svona stuttu eftir að ég fór þangað í fyrsta skiptið. Lödur og Trabantar í eltingaleik er ekki eitthvað sem ég man ekki eftir að hafa séð í nýlegri mynd.

Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur rússneskan njósnara með íslenskan hreim og Elísabet Ronaldsdóttir klippti myndina.

Singles (1992)🫴

Ungt fólk í Seattle leitar ástarinnar.

Ég hélt ég hefði séð þessa mynd en áttaði mig svo á því að ég er með undarlega meinloku þar sem ég rugla henni alltaf saman við Swingers. Þannig að ég ákvað að komast til botns í málinu.

Eftir að hafa horft á myndina í þrjátíu mínútur fannst mér ekkert hafa verið kannast við neitt. Um klukkutímamarkið byrjaði að muna eftir einhverju.

Kannski sá ég bara seinnihluta myndarinnar eins og gerðist stundum hér áður fyrr. Önnur skýring væri að ég muni eftir seinnihluta myndarinnar af því hann er áhugaverðari.

Það er ekkert rosalega spennandi að fylgjast með aðalpersónunum. Kannski skortir mig bara samúð með fólki sem kann ekki að laga kassettur. Það var skemmtilegra að fylgjast með Matt Dillon (klæddur fötum bassaleikara Pearl Jam) og Bridget Fonda (sérstaklega í sitt hvoru lagi). Ég vissi ekki fyrirfram að Paul Giamati væri í myndinni þannig að ég var smá tíma að verða algjörlega viss um að þetta væri hann.

Myndin var tekin upp árið 1991 sem skiptir máli af því það er árið áður en Nirvana, og þar með Seattle, urðu risastór nöfn í tónlistarheiminum. Það gerðist ekki upp úr þurru en það segir sitt um Crowe að hann var nógu mikið inn í því sem var að gerast að Seattle og tónlistin eru saman bakgrunnur myndarinnar.

Maltin gefur ★★½.

Song of the Sea (2014)👍

Harmleikur skekur fjölskyldu og án uppgjörs mun enginn finna frið. Írsk teiknimynd aðallega ætluð börnum.

Sögusviðið virðist¹ vera Donegal sem er lengst í norðvestri en þó hluti af lýðveldinu en ekki Norður-Írlandi (vegna þess að þarna eru kaþólikkar í meirihluta).

Ætli titillinn sé ekki örugglega viljandi tvöfaldur. Þetta er vissulega söngur hafsins en það þarf ekki mikið til þess að láta þetta hljóma sem Song of the Sí. eða (sídhe) er sumsé safnheiti yfir allskonar verur. Þekktast utan Írlands er líklega banshee (bean sídhe).

Ég hafði gaman af írska vinklinum, öllum þjóð- og goðsögunum. Það vantaði samt aðeins upp á. Uppgjörið sem ég nefndi í upphafi var aðeins of fyrirsjáanlegt.


¹ Það sést fáni (íþróttaliðs?) sem á stendur Dhún na nGall. Ég þurfti að fletta stafsetningunni (ég var of mikill heigull til að taka írsku á Írlandi) og rakst á að merkingin er virki útlendinganna (mögulega Norrænna manna sem mig minnir að hafi verið kallaðir m.a. eitthvað „gall“).

Le Trou (1960)👍👍🖖

Fimm fangar brjóta sér leið úr frönsku fangelsi. Þetta er ekki höskuldur þar sem þetta er sagt á fyrstu mínútunni. Byggt á sannri sögu

Sumar myndir sýna okkur fangelsisflótta án samhengi. Í Le Trou fáum við að sjá vinnuna og skipulagið. Svita og áhættu. Tortryggni og traust.

Ég fann í fljótu bragði engar upplýsingar um hvað var líkt og ólíkt með raunverulega atburðinum. Einn fanginn skrifaði bók um málið en gleymdi að taka fram að hann var nasisti, eða vann með nasistum, í stríðinu. Annar fangi, mun meira næs, leikur eitt aðalhlutverkið undir dulnefni þó nafnið á persónu hans sé frekar líkt hans eigin.

Reyndar voru leikararnir allir víst reynslulausir eða allavega reynslulitlir. Ég hefði aldrei getað giskað á það.

Maltin gefur ★★★½.

The Swimmer (1968)👍👍🖖

Miðaldra maður lítur inn til nágranna og vina þar sem hann rifjar upp gömul kynni áður en hann syndir heim á leið. Súrealísk mynd sem hefur unnið á hjá kvikmyndaáhugafólki með tíð og tíma.

Burt Lancaster er í aðalhlutverki. Ef þið hafið áhuga á heilli mynd þar sem hann er í þröngri sundskýlu þá þurfið þið ekki að leita lengra en The Swimmer.

Ég vissi nokkurn veginn við hverju væri að búast en var samt hrifinn. Það myndi líklega taka annað áhorf til þess að hafa raunverulega skoðun á mögulegum túlkunum. Í bili vel ég að trúa bara því að hann hafi sagt stráknum satt og rétt frá því sem var á seyði.

Maltin gefur ★★★½.

Låt den rätte komma in (2008)👍👍

leTólf ára mobbaður sænskur strákur kynnist nýjum og óvenjulegum nágranna snemma á níunda áratugnum í úthverfi Stokkhólms. Hryllingsmynd augljóslega.

Þetta er snúningur á ákveðinni tegund af skrýmslamynd (sjá efnisorð ef þið viljið vita nánar) og bara vel heppnuð.

Sænska sögusviðið er auðvitað skemmtilegt fyrir mig þar sem ég kannast við álíka hverfi þar í landi. Myndin er þó ekki tekin upp í Stokkhólmi heldur í Luleå, líklega vegna þess að myndin gerist að vetri í kulda og þá er betra að vera svona mikið norðar. Síðan er þetta bara voðalega sænskt.

Það er líka margt kunnuglegt sem tengist tímabilinu. Ég man kannski ekki eftir árinu 1981 sjálfur en fötin hefðu getað komið úr fjölskyldualbúminu okkar. Húsgögn og tæki. Svo margt sem var enn til staðar þegar ég var lítill.

Låt den rätte komma in er byggð á samnefndri bók eftir John Ajvide Lindqvist. Myndin skildi eftir ýmsar spurningar þannig að ég ákvað að byrja að lesa bókina (á sænsku, eruð þið ekki stolt). En þarf alltaf svar? Er ég kannski bara að lesa í von um að fá staðfest að tilgátur mínar séu réttar?

Árið 2010 kom út bandarísk mynd að nafninu Let Me In. Sú er oft sögð endurgerð þessarar en mér finnst mjög ónákvæmt orðalag. Sú byggir nefnilega meira á bókinni sjálfri og inniheldur víst ýmislegt sem svarar fyrrnefndum spurningum. Þannig að mig langar svolítið að sjá hana líka. Sumir eru líka á að hún sé betri en sú fyrri.

Svo er víst búið að gera sjónvarpsþætti líka. Veit ekki hvort ég legg í þá.

All Quiet on the Western Front (1930)👍👍🖖

Ungir Þjóðverjar sjá fyrir sér skjótfengna dýrð með því að berjast fyrir föðurlandið í þessa örfáu mánuði sem mun taka að sigra fyrri heimsstyrjöldina (þeir vissu ekki að við myndum kalla stríðið þessu nafni). Byggt á þýsku sjálfsævisögulegu skáldsögunni Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum.

Eina stóra spurning kvikmyndasögunnar er hvort er hægt að gera mynd um stríð sem ekki vekur stríðslöngun hjá ákveðnum áhorfendum. Það virðast alltaf vera til (aðallega) gaurar sem sjá óhugnað og ógeð og segja „Já, takk.“

All Quiet on the Western Front er oft nefnd sem dæmi um velheppnaða andstríðsmynd. Mögulega mætti líka benda á Kubrick myndirnar Dr. Strangelove og Paths of Glory. Á sínum tíma gagnrýndi Jonathan Rosembaum Saving Private Ryan fyrir stríðsdýrkun og hélt því fram að Small Soldiers væri í samanburðinum raunveruleg gagnrýni á stríð.

Í þessu tilfelli hef ég ekki hugmynd um hvernig er hægt að horfa á myndina og óska sér að geta tekið þátt í stríði. Sem þýðir kannski bara að ég á lítið sameiginlegt með fólki með stríðsóra.

Samt held ég að einhverjir gætu séð myndina og hugsað með sjálfum sér „ja, þetta eru bara þýskararnir, okkar lið er miklu betra í stríðsbolta og myndi aldrei tapa“. Auðvitað sáu margir Þjóðverjar þessa á sínum tíma sem áróður gegn Þýskalandi. Myndin gerir auðvitað sitt besta til að sýna að þjóðerni skipti engu máli.

Myndin er frábær. Ef ég ætti að nefna galla þá eru margir leikararnir mjög „síns tíma“ en það skiptir merkilega miklu máli.

Það er auðvelt að sjá áhrifin sem All Quiet on the Western Front hefur haft á stríðsmyndir sem komu í kjölfarið. Útlitslega séð er alveg hægt að bera hana saman við t.d. Longest Day án þess að þrjátíu ára aldursmunurinn sé yfirgengilega augljós.

Framleiðandi kvikmyndarinnar var Carl Laemmle Jr. sem er hve frægastur fyrir aðkomu sína að skrýmslamyndum Universal. Dracula, Frankenstein o.s. frv. Ferill hans í kvikmyndabransanum var stuttur en hefur ennþá áhrif á kvikmyndagerð í dag.

Ég fletti upp höfundi skáldsögunnar Erich Maria Remarque. Líf hans var áhugavert. Hann lenti auðvitað upp á kant við Nasista sem bönnuðu og brenndu bækur hans. Lukkulega komst hann úr landi en yngsta systir hans Elfriede Scholz var tekin af lífi árið 1943. Líklega að einhverju leyti vegna andúðar Nasista á bróður hennar.

Síðustu árin var Remarque kvæntur kvikmyndastjörnunni Paulette Goddard sem hafði áður verið gift Charlie Chaplin og leikaranum Burgess Meredith.

Maltin gaf ★★★★ sem er sanngjarnt.

Góð stígvél skipta miklu, en kannski ekki öllu, máli.

Moon (2009)👍👍

Maður (Sam Rockwell) sinnir einn síns liðs viðhaldsvinnu á bækistöð á tunglinu. Hann er þjónustaður af gervigreindarvélmenni sem minnir töluvert á frægustu gervigreind kvikmyndasögunnar sem verður jafnvel skuggalegri en til var ætlast vegna þess hver er röddin hennar (Kevin Spacey). Leikstýrt af Duncan Jones, syni David Bowie.

Það er ekki alveg allt sem sýnist og mig grunar að áhorf númer tvö gæti verið áhugavert. Ákveðin mynd frá árinu 1996 kemur nokkrum sinnum upp í hugann.

Sam Rockwell er frábær einn á skjánum stóran hluta myndarinnar.

Mæli alveg sterklega með þessari. Hún er líka hæfilega löng.

Maltin gefur ★★★ sem er eiginlega í lægri kantinum.

The Thing (1982)👍👍🖖

Brjálaðir Norðmenn valda óvæntum usla í kringum bandaríska rannsóknarstöð á Suðurskautslandinu og íbúar hennar þurfa að takast á við óvæntar afleiðingar.

The Thing var í bíó og við feðgar skelltum okkur tveir. Venjulega eru áhorfendur á þessum eldri myndum á mínum aldri og uppúr en sonurinn oft sá yngsti. Í þetta skipti var mikið af ungu fólki og merkilega mikið af ungum konum (eða gömlum stúlkum). Gaman.

Ég hafði aldrei áður séð The Thing. Mér skilst að kápan (ég get ekki hugsað um annað en VHS) sé íkonísk, en hún heillaði mig ekki. Satt best að segja leit þetta út fyrir að vera léleg mynd. Nú gæti verið að ég hafi einfaldlega séð of margar raunverulega lélegar myndir sem reyndu að stæla kápu The Thing.

Ég kannaðist við nær alla leikara í myndinni, fastagestir í kvikmyndum og sjónvarpi æsku minnar. Það sést í myndinni að um 95% persónuleika Wilford Brimley var falinn í skegginu hans. Án þess er hann svo hversdagslegur að ég þekkti hann varla. Richard Dysart var yfirmaðurinn í L.A. Law og kom bæði í Being There og Back to the Future part III. Síðan er Keith David frægastur fyrir að hafa verið í sjöttu seríunni af Community (mér fannst röddin hans verða sífellt meira áberandi þegar á leið myndina). Auðvitað er Kurt Russell þar í aðalhlutverki, Disney-barnastjarnan sjálf.

Ennio Morricone er skráður fyrir tónlistinni en á einhverjum tímapunkti hugsaði ég með sjálfum mér að eitthvað af henni væri bara eftir Carpenter (sem semur venjulega sína kvikmyndatónlist sjálfur). Það var víst rétt ályktun hjá mér.

Flosi Þorgeirs nefndi um daginn að Leonard Maltin hefði bara gefið The Thing ★½ en það er rétt að hafa í huga að hún fékk slæma dóma frá flestum gagnrýnendum og áhorfendur voru ekki mikið glaðari með hana heldur.

Það er áhugavert að bæði The Thing og Blade Runner komu út sama dag en það var líklega ekki ástæðan fyrir slöku gengi þeirra. Áhorfendur og gagnrýnendur voru í meiri stuði fyrir fallega kvikmynd sem kom út tveimur vikum fyrr, E.T. The Extra-Terrestrial. Indælli geimvera.

Tæknibrellurnar sem eru svo frábærar og velheppnaðar eiga kannski líka sök á slökum viðtökum myndarinnar. Margir gagnrýnendur töldu þær tilgangslausar eða allavega ´oþarflega ógeðslegar. Á móti hjálpuðu brellurnar auðvitað til þess að gera The Thing að költmynd.

Þó það hafi verið gerð mynd sem heitir The Thing from Another World árið 1951 (sem Carpenter var víst mjög hrifinn af) þá skilst mér að þessi sé frekar afturhvarf til upprunalegu sögu John W. Campbell Who Goes There? sem gefin var út árið 1938.

Meginþema The Thing og Who Goes There? er auðvitað hræðslan við hið óþekkta. Það vakti líka hugrenningatengsl við H.P. Lovecraft sem skrifaði nokkrum árum fyrr einnig sögu um dularfulla uppgötun á Suðurskautslandinu (At the Mountains of Madness). Smá grúsk (Wikipedia) leiddi í ljós að Campbell var agalegur rasisti (og almennur rugludallur) líkt og Lovecraft. Reyndar var hinn síðarnefndi farinn að skipta um skoðun áður en hann lést á meðan sá yngri var í ruglinu allt sitt líf.

Who Goes There? er ekki löng saga (upprunalega útgáfan á Internet Archive) en tilfinning mín var samt að höfundur sögunnar (Campbell) væri að nýta sér að ritstjóri Astounding Science Fiction (líka Campbell) myndi borga honum fyrir hvert skrifað orð án þess að krefjast styttingar. Harðari yfirlesari hefði mögulega strikað yfir síendurteknar lýsingar á því hve hávaxnir allir þessir gaurar væru.

Það sem vakti þó helst áhuga minn (fyrir utan „bronsaða“ karlmenn) var lína sem einn óþokkinn lætur frá sér:

You are displaying the childish human weakness of hating the different.

Það kemur auðvitað í ljós að hræðslan við hið óþekkta var hið eina rétta í stöðunni og það féll kannski bara ágætlega að skoðunum Campbell. Hí á hann að fá síðan tvo svarta leikara í þessari mynd.

Það er komið að höskuldum.

HÖSKULDUR! í fleirtölu reyndar.

Upphafssena myndarinnar er ótrúlega öflug. Við sveimum um sléttur Suðurskautslandsins með fallegum og góðlegum sleðahundi. Skyndilega birtist þyrla og þar eru einhverjir brjálæðingar að reyna að skjóta grey hundinn. Þeir ganga svo langt að kasta einhvers konar sprengjum að honum.

Það kemur í ljós að þessir grimmu menn sem voru að skemmta sér við að reyna að murka lífið úr besta vini mannsins eru Norðmenn (týpískt). Tungumálamunurinn kemur í veg fyrir skýringar en mögulega skilja áhorfendur þegar gaurinn notar orð sem hljómar eins og „thing“ (ekki skildi ég fleira í norskunni hans og mig grunar að leikarinn hafi ekki gert það sjálfur). Þannig fær áhorfandinn innsýn í skrýmslið á undan persónunum. Frábært innlegg sem kom væntanlega frá handritshöfundinum Bill Lancaster (syni Burt).

Líklega hefði myndin verið stutt ef þeim norska hefði dottið í hug að segja bara „reibís“.

Myndin byggir upp spennu hægt og rólega. Hverjum skal treysta. Enginn, hvorki áhorfendur né persónur, getur verið viss hver sé „smitaður“. Það eru nægilega margir í hópnum til þess að við getum vitað stöðuna á öllum. Jafnvel hetjan okkar hegðar sér eins og hann hafi algjörlega gengið af göflunum.

Þetta er eiginlega bara Among Us (eða Werewolf). Kannski er það ástæðan fyrir því að allt unga fólkið mætti? … líklega ekki.

Endalokin eru tvíræð. Er annar hinna eftirlifenda „smitaður“? Ég komst að því að John Carpenter virðist hafa svarað þeirri spurningu hreint út fyrr á þessari öld sem mér finnst algjör óþarfi. Það sem á undan er gengið var nógu gott til þess að við þurfum ekki nánari útlistanir.

Sumsé, góð mynd.

Near Dark (1987)🫳

Ungur maður kynnist unglegri konu en þið getið aldrei giskað hvað gerist næst. Reyndar er einfalt að giska, þetta er vampírumynd.

Þessi mynd er í miklum metum hjá mörgum. Ég hins vegar og horfði og spurði sjálfan mig: Hvernig gætu svona vitlausar vampírur lifað í áratug eða meira en öld? Þær hefðu drepist innan mánaðar eins og þær hegða sér. Þær skilja eftir sig slóð af morðum og eyðileggingu sem auðvelt væri að fylgja.

Sambandið sem kveikjan að sögunni er ákaflega ótrúverðugt.

Maltin gefur ★★½ (óhóflegt) en bendir á að persónurnar séu meira eins og varúlfar en vampírur. Sem gæti eitt af því sem pirrar mig. Það hefði verið auðveldara að kaupa þessar persónur sem varúlfa eða mjög ungar vampírur. Ég er ekki á móti því að brjóta gegn formúlunni en þetta var hvorki nógu áhugavert né trúverðugt.

Bill Paxton nær að gleðja einstaka sinnum með yfirkeyrðum leik en er stundum bara pirrandi.

The Kid (1921)👍👍🖖

Flækingur finnur barn og tekur það að sér. Nokkrum árum seinna fara yfirvöld að skipta sér að.

Einfaldur söguþráður á mörkum þess að vera væminn en er of fyndin til þess að það pirri.

Jackie Coogan hlýtur að teljast einn besti barnaleikari allra tíma. Það er frægt hvernig móðir hans og stjúpfaðir sólunduðu launum hans sem leiddi til málaferla og lagasetningar kennd við hann. Coogan-lögin skylduðu kvikmyndaframleiðendur til þess að láta hluta launa barnaleikara í sjóð sem þau fengju aðgang að síðar og að passa upp á menntun og vinnutíma þeirra.

Ég geri fastlega ráð fyrir að hafa séð myndina áður en ég mundi aðallega eftir frægustu atriðunum (Coogan að gráta sérstaklega). Ég man alls ekki eftir að myndin byrjar á pólitískri yfirlýsingu um ógiftar mæður.

The woman
whose sin
was motherhood.

Ekki uppáhalds Chaplin-myndin mín en nógu mikilvæg til þess að fara á áhorfslista allra kvikmyndaunnenda.

Maltin gefur bara ★★★½ sem þýðir að hún er ekki heldur uppáhaldsmyndin hans

Paper Moon (1973)👍👍🖖

Ung stúlka á kreppuárunum missir móður sína en þekkir ekki pabba sinn. Mögulega er það biblíusölumaðurinn.

Paper Moon hefur verið lengi á listanum en ég frestaði henni kannski af því ég var hræddur um að hún yrði óhóflega væmin. Hún er það ekki. Bara mjög hóflega.

Auðvitað er Tatum O’Neal stjarna myndarinnar og eiginlega skrýtið að hún hafi ekki verið tilnefnd sem besta leikkona í aðalhluverki. En hún vann auðvitað sem besta leikkona í aukahlutverki, aðeins tíu ára gömul. Anna Paquin var ellefu ára þegar hún vann tuttugu árum seinna.

Já, Tatum er fyndin og sjarmerandi. Samband hennar við Biblíusölumanninn (Ryan O’Neal) virkar kannski svona vel af því að þau eru feðgin. Ætli komi einhvers staðar fram hvort Peter Bogdanovich hafi valið þau til þess að staðfesta að hann sé pabbinn? Eða er það bara til þess að það sé sannfærandi möguleiki?

Madeline Kahn er ekki alveg jafn skemmtileg og hún getur verið og það er næstum að ég hafi verið leiður að hún tæki athygli frá Tatum. John Hillerman (Magnum, p.i.) er áberandi á tímabil og Randy Quaid fær eftirminnilegt hlutverk.

Fróðleiksmolinn dagsins er að Jodie Foster lék hlutverk Tatum i skammlífum sjónvarpsþáttum.

Maltin gefur ★★★★ og ég held að það sé almenn sátt um það.

Il Gattopardo / Hlébarðinn / The Leopard (1963)🫴

Sikileyskur prins (hlébarðinn) reynir að tryggja stöðu sína og fjölskyldunnar í kjölfar sameiningar Ítalíu. Þetta er búningadrama sem er tegund af mynd sem ég er oft hrifinn af.

Fín tveggja tíma mynd er því miður þrír klukkutímar. Burt Lancaster er fimmtugur prins sem er persóna sköpuð af hertoga nokkrum sem var bitur við lýðveldið, konungsdæmið, sameiningu Ítalíu og margt fleira. Samúð mín með honum rýrnaði eftir því sem ég þurfti að horfa lengur á hann sýna tilfinningar sínar með svipbrigðum. Ekki Lancaster að kenna.

Þegar ég sá nafnið Claudia Cardinale birtast gerði ég fastlega ráð fyrir að einhver yrði ástfanginn af henni. Ást í kvikmyndum byggist auðvitað almennt á fegurð af því að annars þá þyrfti að eyða meiri tíma í persónusköpun. Ekkert á móti henni, þvert á móti, bara fyrirsjáanlegt.

Terence Hill fær að fljóta með í nokkrum atriðum. Gaman að sjá hann en hann fær ekki mikið að gera.

Annars tók ég eftir að Claudia lék í tveimur myndum árið 1963 sem hafa ákveðin tengsl. Il Gattopardo (Hlébarðinn / The Leopard) og The Pink Panther (Bleiki Pardusinn / La Pantera Rosa). Í báðum tilfellum er um að ræða mann sem er nefndur eftir ketti. En þetta er skemmtileg tungumálapæling. Gattopardo er auðvitað beinþýtt pardusköttur, Leopard er ljónapardus og íslenska orðið er nákvæmlega eins bara með viðbættu H og linmæltum framburði á pardus.

Maltin gefur ★★★★ en hann sá líklega styttri útgáfuna sem er einhvers konar afsökun.

Piranha (1978)👍👍

Það er eitthvað gruggugt við þessa píranafiska. Kannski ætla þeir að éta stærri bráð. Fyrsta myndin sem Joe Dante leikstýrði einn. Þetta lítur ekki út fyrir að vera mynd sem ég fíla þannig að ég horfði ekki á hana. Fyrren núna.

Piranha er framleidd af New World fyrirtæki Roger Corman. Dante var greinilega búinn að vinna sig upp eftir að hafa leikstýrt hinni hræódýru Hollywood Boulevard (1976) með Allan Arkush. Þessi kostaði hátt í 700 þúsund bandaríkjadala.

Handritið er skrifað af John Sayles sem er einn allra besti leikstjóri seinni hluta tuttugustu aldarinnar (sbr. Matewan 1987). Launin hans sem handritshöfundur lögðu grunninn að kvikmyndaferli hans.

Það er áhugavert að nýjar Piranha myndir voru gerðar á þessari öld sem falla í flokk viljandi slæmra mynd. Mér líkar ekki við slíkt og það er sérstaklega óviðeigandi hérna.

Ég er hrifinn af myndum sem vita hvað þær eru. Það á við um Piranha. Þetta er B-mynd, ódýr mynd, skrýmslamynd, mynd með samningsbundnum brjóstum. Hún vinnur rosalega vel úr efniviðnum og takmörkuðu fjármagni. Þetta er góð mynd.

Piranha á augljóslega að höfða til sama hóps og hópaðist á Jaws nokkrum árum fyrr. Stundum er hún kölluð ádeila en ég held að það sé bara af því hún er ákaflega fyndin. Hún vísar oft í Jaws sem er ekki sami hluturinn.

Piranha kom út sama ár og Jaws 2 sem varð til þess að Universal íhugaði málaferli en Spielberg sá þess og stoppaði slíkt tal. Þetta var grunnurinn að samstarfi þeirra Dante seinna meir og á tímabili leit fyrir að Joe myndi leikstýra best titluðu mynd allra tíma sem var aldrei framleidd, Jaws 3, People 0.

Þarna var leikaragengi Dante farið að myndast, s.s. Dick Miller, Paul Bartel og Kevin McCarthy (Invasion of the Body Snatchers). Við sjáum bæði John Sayles og Joe Dante í litlum hlutverkum (líklegra samt að við missum af þeim).

Leikkonan Heather Menzies er mögulega helst þekkt fyrir að vera von Trapp barn í Tónflóði (aldrei séð) og Barbara Steele sem leikur vísindamann hér var bæði í 8½ (1963) og The Pit and the Pendulum (1961). Það er Dantískt að velja leikara með slíkan bakgrunn. Hann hafði á þessum tímapunkti unnið með Fellini sem starfsmaður hjá New World.

Maltin fílaði þessa og gaf ★★★. Hann gaf vini sínum Joe aldrei hærri einkunn.

Rock ’n’ Roll High School (1979)👍👍

Skólastjóri er hræddur um að rokk og ról tónlist sé að grafa undan valdi hennar og sker upp herör gegn tónlist og uppreisnargjörnum nemendum.

Þetta er mynd sem ætti að vera klisja en gerir ástúðlegt grín að klisjum. Það að velja Ramones sem hljómsveitina sem uppreisnargjörnu unglingarnir elska er auðvitað sérstaklega gott val af því þetta var raunverulega jaðarhljómsveit en ekki meginstraums tónlist í dulargervi uppreisnar.

Í dag virðist Blitzkrieg Bop vera klassískt rokk en á þessum tíma þekkti fólk almennt ekki Ramones. Atriðin með hljómsveitinni eru vel skotin enda leikstjórinn mikill áhugamaður um tónlist og tónlistarmyndum.

Myndin kemur frá New World fyrirtæki Roger Corman. Allan Arkush er skráður leikstjóri og er ásamt Joe Dante höfundur „sögunnar“. Það er samt flóknara því Dante þurfti um tíma að taka yfir leikstjórn vegna ofþreytu/veikinda félaga síns.

Ég hló oft upphátt. Flestir brandararnir eldast vel.

Frægustu leikarar myndarinnar, utan Ramones, eru líklega Dick Miller og Clint Howard (bróðir Ron, þið hafið séð hann oft). Síðan er Paul Bartel tónlistarkennari skólans (og var víst sá sem stakk upp á Ramones).

Annars mæli ég með heimsóknum Allan Arkush í hlaðvarp Joe Dante (og Josh Olson) The Movies That Made me. Ég held að þetta sé þátturinn þar sem sá fyrstnefndi spjallar um hvernig það var að hafa Martin Scorsese sem kennara í kvikmyndaskóla.

Maltin gefur ★★★ sem er að einhverju leyti týpískt af því gagnrýnendur voru almennt hrifnari af myndinni en almenningur.

The Hole (2012)👍👍

Móðir, sonur og hinn sonurinn flytja í smábæ. Þau kynnast sætri nágrannastelpu sem á sundlaug. Hvað gæti skyggt á líf þeirra? Hvað er óttast? Kannski dularfulla holan í kjallaranum.

The Hole er mynd með óljóst ártal. Hún fór á kvikmyndahátíðir 2009 en fór ekki í bíó fyrren árið 2012 og þá mjög takmarkaða dreifingu. Hún fór alveg framhjá mér.

Ég hef lítið þol fyrir þrívíddarmyndum. Yfirleitt er slíkt algjör óþarfi og oftast pirrandi. Margar voru ekki einu sinni gerðar í „raunverulegri“ þrívídd Þetta er eina myndin sem ég syrgi að hafa ekki séð í þrívídd.

Ég fann fyrir því að horfa á myndina að hún var hönnuð fyrir þrívídd. Það gerir hana kraftminni í tvívídd.

Joe Dante leikstýrði myndinni og eftir að hafa horft á Burying The Ex var ég næstum búinn að fresta þessari. Þær litu út fyrir að vera svipaðar. Það væri jafnvel hægt að ímynda sér að sú fyrrverandi hefði verið grafin í þessari holu. Lukkulega eru þær gjörólíkar.

The Hole er líka ólíkt flestum myndum Dante að því leyti að hún er meiri hryllings- en gamanmynd. Hún gengur samt ekki út á ógeð heldur meira ógn sem vofir yfir eins og vofa. En hún er ekki ófyndin. Hún er næstum eins og afturhvarf til gullaldar Amblin (ekki jafn góð og þær bestu en við munum aðallega eftir þeim).

Það sem háði myndinni eiginlega mest var tvennt.

Það hefði líklega verið hægt að vinna tæknibrellurnar betur. Þær eru ekki vandræðalegar en virka stundum ódýrar. Aftur á móti er sviðsmyndin í lokauppgjörinu frábær þó ég sjái á umsögnum að það hafi ekki allir verið á sama máli og ég.

Það er ekkert frumlegt við myndina en ég er ekki viss um að það hafi verið markmið Dante að brjóta múra með söguþræðinum.

Bruce Dern og Dick Miller líta við þó sá síðarefndi hafi ekki fengið nógu mikið að gera. Haley Bennett er sæta stelpan og strákarnir eru einhverjir gaurar.

Fín Dante mynd. Ekki ein af þeim bestu en kannski á svipuðu róli og hin mjög svo vanmetna Looney Tunes’s Back In Action.

Maltin gefur ★★★ sem er sanngjarnt.

Blade Runner (1982) Final Cut👍👍🖖

Gervimenni dreyma um rafkindur. Mögulega. Þeim leyndardómi er ekki svarað í myndinni.

Nú er ég ekki alveg viss hvaða útgáfu af Blade Runner ég sá á sínum. Það er vandamál með þessar myndir þar sem þarf að stúdera hvaða útgáfu á að velja. Þá sem var til í Videover í Kaupangi. Það áhorf skildi ekki mikið eftir.

Þá er spurning hvort hefur breyst meira, ég eða áin? Er „Final Cut“ af þessari á besta útgáfan? Veit ekki. Mögulega er betra að horfa á hana í fullri breidd á stórum skjá? Allavega náði hún mér í þetta skipti.

Kannski er það af því ég þekkti Rutger Hauer fyrst og fremst sem hasarmyndagaur að ég hafði aldrei kunnað að meta hann sem „alvöru“ leikara. Það breytist þegar ég horfði á Paul Verhoeven myndina Soldaat van Oranje þar sem Hauer er í aðalhlutverki. Mæli með þeirri.

Darryl Hannah er dásamlega skrýtin í sínu hlutverki.

Vangelis nær ekki að eigna sér þessa mynd eins og hann gerði með Chariots of Fire en þetta er ákaflega flott.

Maltin gefur ★½ en er að miða við upprunalegu útgáfuna og ég er ekki viss hvað honum fannst um þessa.

Burying the Ex (2014)👎

Gaur er í sambandi með konu sem deyr. Hann kynnist annarri konu en hans fyrrverandi snýr aftur sem uppvakningur.

Burying the Ex er mynd sem ég hef forðast af því hún öskrar á mig sem hún sé léleg. Og hún er léleg. Handritið virðist hálfklárað. Persónurnar eru allar svo ömurlegar að mér er sama hvernig fer fyrir þeim.

Leikstjóri er Joe Dante og þetta er án efa versta mynd hans (sem ég hef séð). Það besta við myndina er án efa Dick Miller en ég tók ekki eftir neinum öðrum fastaleikurum Dante

Crossing Delancey (1988)👍

Kona kynnist karli og síðan öðrum karli og amma hennar er mjög innvínkluð í þetta allt saman.

Kannski gefur Criterion-lógó óhóflegar vonir, þó ég viti að það hafi líka komið algert drasl þaðan. Þetta er samt fín mynd og oft fyndin en ekki mikið meira en það.

Maltin gefur ★★★ sem er passlegt.

Valley Girl (1982)👎

Stelpa úr San Fernando dalnum hittir nýrómantískan pönkari frá Hollywood sem passar ekki í vinahópinn hennar. Mun ástin sigra? Hverjum er ekki sama?

Það að Frank Zappa tekið upp lag sem hæddist að talsmáta dóttur sinnar Moon og vina hennar þykir mér frekar aumt. Þessi mynd er síðan afsprengi lagsins Valley Girl. Stelpurnar hérna nota slangrið úr laginu og það hljómar svo falskt og asnalega. Totalí glatað.

Það að sjá Nicolas Cage í sínu fyrsta stóra hlutverki nær ekki einu sinni að gera áhorfið þess virði. Besta atriðið í myndinni er líklega þegar við sjáum hvernig Sunset Strip leit út á þessum tíma.

Það er erfitt að bera þessa mynd ekki saman við Fast Times At Ridgemont High (1982, þar sem hægt er að sjá Cage enn yngri) eða Clueless og hún kemur ekki vel út úr þeim samanburði. Mér stendur á sama um allar persónurnar.

Í einhverju örlætiskasti gefur Maltin ★★½.

Runaway Daughters (1994)👍

Spútnik svífur í kringum Jörðina og þrjár unglingsstúlkur neyðast til að strjúka að heiman og lenda í ævintýrum. Sjónvarpsmyndarendurgerð samnefndrar B-myndar um táninga á villigötum frá árinu 1956. Leikstýrt af Joe Dante.

Það sem er áhugaverðast við Runaway Daughters er tengingin við kvikmyndina Matinee (1994). Báðar gerast í kringum stórviðburði í Kalda stríðinu og eru skrifaðar af Charlie Haas og leikstýrt af Dante. Gæðalega séð eru þær ekki í sama flokki enda önnur fyndin sjónvarpsmynd en hin klassísk.

Við höfum helstu leikarana sem við finnum almennt í myndum Dante. Fyrst ber að nefna Dick Miller, síðan Robert Picardo og Wendy Schaal ásamt mörgum fleirum. Dee Wallace og eiginmaður hennar Christopher Stone léku Howling (1981) sem ég held að hafi sett hana á radar Spielberg og orðið til þess að hún lék í geimverumyndinni hans.

Roger og Julie Corman sjást líka sem er viðeigandi af því upprunalega myndin var framleidd af AIP þar sem hann (og kannski hún) vann lengi.

Ef þú leitar að upplýsingum um myndina í dag þá kemur upp DVD-kápumynd sem sýnir Paul Rudd og Julie Bowen. Þau voru ekki fræg þegar myndin var gerð en strax árið eftir lék hann í Clueless og nokkrum árum seinna var hún í aðalhlutverki í sjónvarpsþáttunum Ed (Modern Family kom seinna). Þannig að þegar DVD-diskurinn kom út voru þau frægust og myndin markaðssett til að leggja áherslu á þau.

Paisà (1946)👍

Sex ótengdar sögur sem gerast þegar Bandamenn eru að berjast um að ná Ítalíu úr höndum Þjóðverja. Samskipti Bandaríkjamanna við innfædda, bæði þeirra sem tilheyra andspyrnuhreyfingunni og venjulegs fólks, er í forgrunni í öllum sögunum.

Ég held að Sveitungi sé kannski besta þýðinginn á titlinum.

Þematískt framhald Roberto Rossellini af Róm, opin borg (Fellini aftur handritshöfundur) og þó hún sé góð þjáist svolítið í samanburðinum. Líkt og í þeirri fyrri eru fáir þjálfaðir eða reyndir leikarar.

Leikkonan Maria Michi snýr aftur og ég velti fyrir mér hvort klæðnaður hennar vísaði beint í fyrri myndina. Annars gefur óljós athugasemd hjá Criterion gefur til kynna að hún hafi sjálf verið virk í andspyrnuhreyfingunni en ég veit ekki meir.

Sögurnar eru misjafnar og misgóðar. Fyrsta var áhrifamest að mínu mati en margar hinar hefði mátt stytta örlítið.

Það er áhugavert að í einni sögunni er svartur hermaður í aðalhlutverki. Ég man ekki eftir að hafa séð slíkt í eldri bandarískum kvikmyndum um Seinna stríð.

Maltin gaf ★★★½ sem er í hærri kantinum.

Thunderbolts* (2025)🫳
{132-100-55-36}

Ólíklegar hetjur. Lyf til að búa til ofurhetjur. Frumlegt sko.

Mér líkar við Florence Pugh og David Harbour þannig að ég ákvað að taka áhættuna á að sjá Marvel-mynd. Byrjar ágætlega. Einhverjir fyndnir brandarar.

Síðan fer þetta í allt að „lemja, sparka, skjóta, springa, hrynja“ gírinn sem ég skil ekki að fólki þyki spennandi af því það er eiginlega alltaf eins í Marvel-myndum. Svo kemur atriði sem minnir sterklega á Christopher Nolan mynd. Að lokum kemur rassavasasálfræði til að bjarga málunum. Full löng.

Mig langar ekki að vera þessi gaur en ég vona að Florence Pugh og David Harbour geri eitthvað meira spennandi í framtíðinni en að tala með asnalegum rússneskum hreim.

Þar með hef ég náð að horfa á hundrað myndir á þessu ári sem ég hafði ekki séð áður, þar af fimmtíu „nýjar“. Áramótheim uppfyllt. Held ég horfi samt á fleiri.