Sprengjuóður Íri og bandíti verða ólíklegir félagar í mexíkönsku byltingunni. Leikstýrt af Sergio Leone og er annað hvort spagettívestri eða á mörkunum að vera það.
Hvað á að kalla myndina? Giù la testa? Duck, You Sucker? A Fistful of Dynamite? Upprunalega planið var víst Once Upon a Time During the Revolution sem tengir hana bæði við … in the West og … in America. Á Íslandi var hún kölluð Hnefafylli af Dínamíti.
Talið er tekið upp eftir á í myndinni og það var svolítið skrýtið með James Coburn. Þegar hann byrjaði að tala fór ég að efast um hvort þetta væri hann, röddin var svo skrýtin. Var einhver annar að tala fyrir hann?
Það var ekki fyrren að við sjáum að hann er með veifu merkta IRA (þó myndin gerist fyrir stofnun lýðveldishersins) í farangrinum að ég áttaði mig á að hann var með atrennu að írskum hreim sem hægt væri að lýsa sem hnefafylli af hrossaskít. Það er kannski kostur að stundum virtist hann gleyma hreimnum.
Fólk sem telur að hreimur Keanu Reeves í Bram Stoker’s Dracula sé sá versti í kvikmyndasögunni hefur ekki séð nógu margar myndir.
Rod Steiger dettur aldrei út úr sínum vonlausa mexíkanska hreim. Hann og fjölskylda hans er samansafn af steríótýpum. Þetta er undarlegra í ljósi þess að samúð myndarinnar er nær öll með Mexíkanskri alþýðu.
Ég velti svolítið fyrir mér hvort ég sé ósanngjarn þar sem mér fannst ítalski leikararinn Romolo Valli alveg sérlega góður í hlutverki læknisins. Var hreimurinn hans mikið betri eða tók ég bara ekki eftir því? Kannski hefði verið betra að horfa á myndina á ítölsku. Þá hefði ég lítið pælt í hvernig leikararnir hljómuðu.
Lengst af er myndin hálfgerð gamanmynd en á köflum gerist hún alvarlegri en þá er erfitt að taka hana alvarlega. Er hægt að hafa raunverulega samúð með leiknum persónum sem hljóma eins og þær eigi heima í Looney Tunes?
Þetta nær samt ekki að eyðileggja myndina. Kvikmyndatakan er glæsileg. Tónlist Ennio Morricone er frábær og undarleg. Það eru líka fyndin atriði.
Fyrir Leone eru tennurnar hans Coburn ígildi augna Clint Eastwood.
Þessi mynd er sú elsta sem ég veit um þar sem einhver notar löngutöngina til að sýna andúð sína.
Maltin gefur ★★★ og ég er ekkert ósáttur við það.