Jæja. Þá er mér boðið í mat hjá föður mínum í kvöld. Mér hefur reyndar alltaf leiðst í matarboðum. Þó mæti ég til að borða, sem er skemmtun í sjálfu sér. Vandamálið í mínum huga felst þó frekar í samræðunum og þeim sérstaka húmor sem myndast þegar mikið af fólki með mismunandi húmor hittist. Þegar brandari skellur á boðsgestum úr munni gestgjafa er siður að hlæja. Ekkert endilega vegna þess að ummælin hafi verið fyndin, þetta er bara einn af þessum siðum. Það er alveg einstaklega þvingandi andrúmsloft í svona boðum því þegar kurteisishlátur er viðhafður sé ég rautt. Annars er alveg fullt af öðrum hlutum slæmum við matarboð. Þar mætti til dæmis nefna það þegar gestgjafar eru hjón og vinum hvors um sig líkar illa við vini hins aðilans. Svo getur tvennt gerst í sumum tilvikum. Þegar maki gestgjafa þolir ekki vini gestgjafa eða þegar maka gestgjafa virðist líka einum of vel við vini gestgjafa. Þetta eru alltaf vandræðaleg augnablik. Verst er þó það þegar kvöldverðinum lýkur og gestir taka að gerast ölvaðir. Það þarf varla að nefna það að ýmis „leyndarmál“ fara að fjúka og makar verða pirraðir út í hvorn anna á meðan hinir einhleypu forða sér út í reykpásur, jafnvel þó að þeir reyki ekki. En ég lít þó björtum augum fram á veginn og vona að allt fari vel fram. Þá sérstaklega maturinn.