Veður

Vá hvað það hefur verið æðislegt veður í dag, og útlit fyrir áframhaldandi blíðu. Svona getur þetta nú verið. Um leið og ég yfirgef frónið glittir í smettið á sólu, og það eftur heilan mánuð af þrotlausri rigningu. Ég er að sjálfsögðu ekki sáttur við að yfirgefa landið þegar best er veðrið og vona ég því að hann rigni í fyrramálið.

Að fara utan

Vá! Ég fer til Krítar á morgun. Ég get einfaldlega ekki komið því úr höfðinu á mér. Ég hef ekki yfirgefið klakann síðan 1989 en þá var förinni heitið til Ítalíu. Ég man ennþá eftir því hve fúll ég varð þegar ég leit út um gluggann á flugvélinni og sá strendur Ítalíu nálgast, en bróðir minn hafði tjáð mér að Ítalía væri eins og risastórt stígvél, en ég sá ekki móta fyrir neinu slíku. Gaman að því hve stærðarhlutföll eru brengluð í krökkum.
Munið svo góðir lesendur að það er rangt að fara erlendis. Maður fer utan.

Radiohead quote dagsins:
„The thing I remember most about America is that it’s silly.“ Thom Yorke, söngvari, gítar- og píanóleikari

Dagur að morgni

Hér sit ég við tölvuna klukkan að ganga tíu. Svo byrjar vinna í húsinu hans pabba, úff. Ég skil ekki hvað hann vill alltaf troða mér inn í þetta. En hvað sem því líður er hér Rorschach mynd. Endilega segið mér hvað þið sjáið út úr þessu. Athugið að óskað er eftir því fyrsta sem ykkur dettur í hug. Reynið að hugsa ykkur ekki of mikið um.

Dóppartí

Ég var að koma úr partíi þar sem eiturlyf voru brúkuð eins og það kæmi ekki morgundagur. AF hverju, kynnuð þið að spyrja, myndi ég sækja slíkt partí? Ekki fyrir eitrið. Nei, ég var fenginn til að sjá um tónlistina og spilaði ég fyrir bjór. Það kalla ég ágætis tekjur fyrir að gera eitthvað sem ég geri hvort eð er fimm klukkutíma á dag. Það var að sjálfsögðu galli á gjöf Njarðar, en í partíi þessu var einhver spíttætu, lóðalyftandi manndrápari sem sat eitt sinn á hrauninu. Hann var reyndar hinn alúðlegasti, en hann hrósaði gítarspilinu mínu í milli þess sem hann talaði um hnífa og stungur.

Þetta teiti var eins og upp úr svona krimmamynd með Steven Seagal, en fólk traffikkaði dópið inn í húsið í pokavís. Hefði þetta verið Steven Seagal mynd hefði hann að sjálfsögðu brotist þar inn og lúskrað á þeim. Ég hefði að sjálfsögðu sloppið, enda eini maðurinn sem var löglegur þar inni.
En svo er komið að lokaspurningunni: Myndi ég gera þetta aftur? Nei.