Dóppartí

Ég var að koma úr partíi þar sem eiturlyf voru brúkuð eins og það kæmi ekki morgundagur. AF hverju, kynnuð þið að spyrja, myndi ég sækja slíkt partí? Ekki fyrir eitrið. Nei, ég var fenginn til að sjá um tónlistina og spilaði ég fyrir bjór. Það kalla ég ágætis tekjur fyrir að gera eitthvað sem ég geri hvort eð er fimm klukkutíma á dag. Það var að sjálfsögðu galli á gjöf Njarðar, en í partíi þessu var einhver spíttætu, lóðalyftandi manndrápari sem sat eitt sinn á hrauninu. Hann var reyndar hinn alúðlegasti, en hann hrósaði gítarspilinu mínu í milli þess sem hann talaði um hnífa og stungur.

Þetta teiti var eins og upp úr svona krimmamynd með Steven Seagal, en fólk traffikkaði dópið inn í húsið í pokavís. Hefði þetta verið Steven Seagal mynd hefði hann að sjálfsögðu brotist þar inn og lúskrað á þeim. Ég hefði að sjálfsögðu sloppið, enda eini maðurinn sem var löglegur þar inni.
En svo er komið að lokaspurningunni: Myndi ég gera þetta aftur? Nei.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *