Nýtt upphaf

Árum saman hef ég haldið því fram að ég ætlaði að skrifa meira hér en ég hef lengi gert, en svo strandar það alltaf á því að mér finnst ég ekki hafa neitt að segja — og Facebook í staðinn, sá tilgangslausi, sálarétandi staður, gleypir allar hugsanir mínar og orku.

Það sem ég hef helst verið að sýsla utan vinnu síðustu misseri er ljósmyndanám, jafnt í skóla, á vefnámskeiðum meistaraljósmyndara og í sjálfsnámi (enda lærir maður alltaf mest á því að prófa sig áfram, stunda rannsóknarvinnu, kynna sér verk annarra, læra handverkið, lesa teóríu). Hef farið út með ótal filmur að gera tilraunir, jafnt 35mm og 120, framkallað þær heima, skannað og stúderað til að sjá hvort ég nái fram þeim áhrifum sem ég sækist eftir, og mér fer stöðugt fram. Niðurstöðurnar eru orðnar fyrirsjáanlegar og ég veit orðið yfirleitt nákvæmlega hvað ég er að gera, jafnvel með filmu sem ég hef ekki áður prófað.

Stafræn ljósmyndun er eiginlega allt önnur dýrategund en ég stunda hana grimmt líka og hef náð, að mér finnst, ágætum tökum á báðum miðlum. Að verða góður ljósmyndari er svo auðvitað ævilangt verkefni. Kannski verð ég það aldrei. En ég veit í það minnsta hvað ég vil gera, hvernig ég á að gera það og er ánægður með afraksturinn. Það dugar mér til prívat listsköpunar.

Ég skrifa ábyggilega eitthvað meira hérna á næstunni um lesefni mitt að undanförnu. Svo margt ótrúlega áhugavert sem ég vissi ekkert um þar til nýlega. Þá kannski tekst mér að halda dampi við skrif á þennan forna miðil minn, sem senn hefur verið í loftinu í 21 ár.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *