Bifreiðir

Móðir mín fjárfesti í glænýjum bíl meðan ég var erlendis. Sem afleiðing hef ég verið nokkuð spenntur að fá að prufukeyra hann. Þrisvar sinnum hefi ég nú spurt móður mína leyfis og öll skiptin í dag. Fyrst bað ég um hann til að ég gæti hitt Silju. Fékk ég neitun. Svo bað ég um hann til að fara út í búð. Aðspurður hvort ég gæti ekki bara rölt þetta bar ég við leti. Fékk ég neitun. Hið þriðja sinn hringdi bróðir minn í mig og bað mig að sækja sig í vinnuna, eins og hann svo oft gerir. Þykir honum ég vera betri félagsskapur en móðir. Bar ég þetta upp á góma við hana og spurði fallega hvort ég gæti fengið bílinn til verksins. Fékk ég neitun. Í skilningsleysi mínu spurði ég móður mína hvers vegna í ósköpunum hún vildi ekki lána mér bílinn. Fullyrti hún þá að „bíllinn væri of nýr“. Móðgaðist ég við þessi ummæli og hefi ég nú ákveðið að ég ætla aldrei að keyra bílinn. Þetta gæti mörgum lesanda reynst torskilið en útskýring fylgir. Það hendir mjög oft að móðir mín virkilega þarfnast þess að ég keyri bílinn. Ástæðurnar geta verið fjölmargar og eru flestar svo leiðinlegar að ekki skulu þær upp taldar. Svo ekki sé meira sagt lætur hún mig oftast gera einhver viðvik á bílnum þegar hún er of upptekin eða hreinlega nennir því ekki.

Ég get ekki beðið eftir því að sjá svipinn á henni þegar hún heyrir: „Nei. Ég ætla ekki að keyra þennan helvítis bíl. Er hann ekki líka of nýr?“ Látum oss sjá hvað hún gerir þegar enginn nennir að keyra krakkaskrípið hann litla bróður minn á fótboltaæfingu.

Lágmenning

Bloggari gekk úr 10-11 fyrir skömmu þar eð hópur af (væntanlega kvenkyns) gelgjum rúntaði framhjá á hlaupahjólum sínum. Yfirheyrðist bloggara smá bútur af samtali þeirra:
Gelgja1: „Þúst, ég var að koma úr afmæli. Skítt með kringluferðina! (í mjög kaldhæðnislegum rómi)
Gelgjur 2 & 3 flissa.
Gelgja2: „As if!“
Meira fliss fylgdi í kjölfarið. Þykir þessum kykvendum í alvörunni ekkert vera merkilegra en verslunarferð í klasanum? Hvers á heimurinn að gjalda?

Vinna & Menntun

Þessi vinnudagur var ekki lengi að líða. Á morgun mun vinna mín svo endanlega hafa runnið sitt skeið, en þá hætti ég. Daginn eftir það verður svo haldið inn í Mordor og mun ég þar setjast að námi við Menntaskóla Saurons. Munu örlög mín þar endanlega greypt verða á hring einn, sem færður verður sjálfum myrkrahöfðingjanum, til að ráða örlögum manna og álfa að eilífu.