Sagan um gullkálfinn í II. Mósebók

Ég hef svolítið verið að velta þessu fyrir mér. Fólkið hefur verið gangandi í einhverjar vikur, ef ekki mánuði, úti í eyðimörk þar sem hvergi sést glitta í siðmenningu.
Og það fyrsta sem því dettur í hug þegar Móses lítur undan er að gjöra sér gullkálf. Aha. Já …

Nei. Fólkið er soltið og þreytt, en það ákveður að skapa gullkálf. Af hverju? Tja, okkur datt þetta nú bara svona í hug. Svo virðist einnig sem gripurinn hafi verið fljótgerður samkvæmt lýsingum. Biblían er alltaf mjög nákvæm á tímann sem líður milli atburða en getur ekkert um hve langan tíma það tók að gera kvíguna.

Öðru tók ég líka eftir. Sú breyting á biblíunni hefur greinilega verið leyfð að þar er nú talað um Ísrael. Ekki Kanaanland.

Grófur misskilningur

Í skólanum í gær fann ég mig knúinn til að leiðrétta ákveðinn misskilning. Svo datt mér í hug, þar sem þessi misskilningur er mjög útbreiddur, að koma þessu á framfæri hér og svo mun ég einnig þrefa um þetta á kommentakerfinu fyrir þá sem láta sér ekki segjast.

Misskilningurinn felst í því að mjög margir virðast halda að maðurinn noti aðeins um 10% heilans. Þetta er rugl. Maðurinn notar allan heilann og það gera öll dýr (þ.e.a.s. þau sem hafa heila á annað borð) líka. Spyrjið bara líffræðinga, sálfræðinga, lækna og geðlækna og hananú!