Börn eiga að mínu viti rétt á almennilegri bókmenntakennslu í skólum. Þá ætti að kenna þeim bækur á borð við Söguna af bláa hnettinum, Óðflugu, Snúð og Snældu, Einar Áskel og Rasmus Klump – ekki að ég líti á Söguna af bláa hnettinum eða Einar Áskel sem einhverjar spes barnabókmenntir, enda hvort tveggja ádeilur.
Sjálfur las ég Dagbók Berts á sjöunda ári og þoldi ekki skólabækurnar uppfrá því. Þær bækur sem lesnar voru í skólanum voru aðallega sorprit Enid Blyton og hinar súrrealískari bækur Astrid Lindgren, sem þó voru öllu skárri. Enid Blyton þoldi ég aldrei vegna þeirrar fáránlegu hugmyndar hennar að fjórir/fimm krakkar (auk páfagauksins/hundsins/kattarins o.s.frv.) gætu ekki fyrir sitt litla líf forðast, og að lokum upprætt, stærstu glæpahringi Bretlandseyja – sama hvert þau fóru í frí.
Af sömu sökum hef ég aldrei getað horft á Scooby Doo.
Og fyrst ég er á annað borð farinn að tjá mig um teiknimyndir, er ekki kominn tími á að klassíska liðið – sem talsett hefur teiknimyndir frá því áður en ég fæddist – hætti? Eru ekki allir búnir að fá nóg af Ladda, Júníusi Brjánssyni (hvurslags fokkíng nafn er Júníus, eníveis?!), Eddu Heiðrúnu Backman og Felix Bergssyni? Ekki veit ég hverjum datt upphaflega í hug að þetta fólk gæti leikið, hvað þá talsett. Þetta er náttúrlega allt spurning um elítur og auðvitað verður leikarastéttin að hafa sína.