109174741957287287

Einhverra hluta vegna hef ég aldrei viljað vera sá sem þrýstir á hnappinn í strætó. Aðallega kannski vegna þess að ég vil ekki vekja athygli á sjálfum mér (hvers vegna blogga ég þá? Góð spurning!), en yfirleitt hlýtur hnappsáþrýstandi óskerta athygli samferðamanna sinna nær samstundis og á hnappinn er þrýst.
Jæja, nóg um það. Keypti ég mér bók í dag, eins og minn er siður, og var það Die Edda des Snorri Sturluson sem varð fyrir valinu að þessu sinni – á þýsku, eins og titillinn svo augljóslega gefur til kynna. Mun skræða þessi vafalítið stytta mér stundirnar í þýskutímum næsta vetrar.
Merkilegt þykir mér raunar, að eiga Edduna góðu á máli kanslarans, en eigi á íslensku, en málinu mun þannig farið að fyrir rúmum tveimur árum átti ég lélega skólabókarútgáfu af Eddunni, sem eitthvert dusilmenni svo sullaði kóladrykk sínum yfir, og hefur mér ekki orðið úr verki að fjárfesta í nýrri – enda bíð ég spenntur eftir að koma höndum yfir allt ritsafn Snorra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *