Á Ítalíu er mjög gott kaffi. Svo gott að kaffið á Íslandi má viðbjóður heita í samanburði. Uppáhaldið mitt úti var svonefnt café grappa, eða espressó í jöfnum hlutföllum við hinn bitra grappasnafs, flösku af hverju ég hafði með mér þaðan.
Nú, ég gerði mér lítið fyrir áðan og keypti mér espressokönnu og Lavazza. Eftir grandskoðun á könnunni taldi ég mig hafa burði til kaffigerðar og lagðist strax í hana. Að henni lokinni var svo lokaprófraunin: Að smakka kaffið! Gerði ég það og lifði af. Naut þess meira að segja. Nú sit ég með mitt eigið café grappa, sem heppnaðist mjög vel, þó það ítalska hafi selvfølgelig verið betra, og blogga um fyrsta skref mitt inn í stærri heim; heim espressódrykkjumanna.