Koðrán Styrkársson Andersen, sakborningur í Núpalindarmálinu, játaði í dag sekt sína og leiddi lögreglu að felustað líks Ástvalds G. Eiríkssonar, hafnarverkamanns, í Hafnarfjarðarhrauninu á ellefta tímanum í morgun. Kom lögreglu það í opna skjöldu, að umrætt lík var eigi téður Ástvaldur G., heldur Geirfinnur Einarsson, hver lengi hefur oss týndur verið. Neitar Koðrán allri vitneskju um örlög Geirfinns. Vegna útsynnings, hundslappardrífu og lítillar þolinmæði lögreglu, var eigi leitað áfram, að líki hins eiginlega fórnarlambs.
Hefur ákæruvaldið brugðið á það ráð, að vegna dræmra leitarskilyrða, skorts á sönnunum og hræi Ástvalds G. Eiríkssonar, skuli hr. Koðrán Styrkársson Andersen ekki ákærður fyrir morðið á fyrrnefndum Ástvaldi G., ástkærum eiginmanni Gunnhildar af Brekkulæk. Skal hann þess í stað sæta fangelsisvist fyrir morðið á Geirfinni Einarssyni, hver hefir svo lengi oss týndur verið. Var Koðrán ekki til andmæla, enda fyllstu varúðarráðstafana gætt, í að hann fengi ekki að njóta réttar síns.
Aðspurður segist Geir Jón Þórisson, vor háborni lagavörður í Níkeulíki, ekkert vita um afdrif líks Ástvalds G. Einarssonar, en að það megi síðar brúka í öðru ákærumáli, sama af hvaða toga það svo yrði – morðmál eður ei. Segir Geir Jón, að í lagi sé að brúka lík með slíkum hætti, enda komi steinninn á sama stað niður. „Glæpamenn eru glæpamenn.“
–Steindór Pedersen.