Tilvitnun dagsins

… er að þessu sinni úr Íslandsklukku Halldórs Kiljan, en Jón Hreggviðsson hefur nýverið handtekinn af þjóðverjum við landamæri Hollands:

Láttu það vera, sagði Jón Hreggviðsson. Það er brauðið mitt.
Hvurn fjandann ertu að gera við brauð? sagði vaktmeistarinn. Þú sem verður heingdur í fyrramálið. Ég geri þetta brauð upptækt í nafni keisarans.
Hann setti sverðið fyrir brjóst Jóni Hreggviðssyni meðan hann fór inná hann eftir brauðinu. Síðan slíðraði hann sverðið en tók til að stýfa brauðið úr hnefa.
Mikið helvíti er þetta gott brauð, sagði hann. Hvar hefurðu feingið þetta brauð?
Jón Hreggviðsson sagði, á Hollandi.
Já þið hollendíngar eruð ragmenni, sagði vaktmeistarinn. Þið hugsið um brauð. Vér þýðverskir hugsum ekki um brauð. Fallstykki eru meira verð en brauð. Heyrðu, ekki vænti ég þú sért með ostbita á maganum?
Hann þuklaði Jón Hreggviðsson aftur, en fann aungvan ost á honum.
Einhverntíma, hélt hann áfram tyggjandi, einhverntíma skal koma sú tíð að vér þýðverskir munum sýna slíkum brauðætum sem ykkur hollendíngum hvað það kostar að hugsa um brauð. Vér munum kremja ykkur. Vér munum jafna ykkur við jörðu. Vér munum útmá ykkur. Eða áttu nokkra penínga?
Jón Hreggviðsson sagði sem var, að mennirnir í litklæðunum hefðu rænt sig þessum fáu skildíngum.
Já, það veit ég, sagði vaktmeistarinn. Þessi tollaragerpi eru kannski ekki að skilja mikið eftir handa fátækum barnamanni. Þá heyrðist kallað einhversstaðar að utan:
Fritz von Blitz, eigum við ekki að halda áfram í klínknum?

Halldór, ég elska þig.

Dramb er falli næst

Hmm, einkunnaúthlutan er farin að minna á MR-kríteríuna. Annars finnst mér það bara hið besta mál að fólk hafi drullað á sig í prófunum. Það er kominn tími til að vissir ónefndir einstaklingar innan bekkjarins taki náminu af ögn meiri alvöru og hætti að áfellast kennarann fyrir slakan árangur, sérstaklega ef þeir hafa látið eins og fífl í tímum, ekki síður eyðileggjandi fyrir sjálfum sér en hinum sem vildu læra. Og ekki fengu þeir minni kennslu en við sem stóðust prófin með sóma. Nei, þeir sem féllu geta við engan sakast nema sjálfa sig og enda kominn tími til.

Ég get hins vegar vel tekið undir að þetta er skuggalega há falltíðni í félagsfræði fyrir þriðja bekk félagsfræðibrautar. Eða er goðsögnin um að ekki sé hægt að falla á félagsfræðibraut hrunin í praksís?

110365784010343084

Ég er orðinn þreyttur á að vera eins og ljóti andarunginn. Mig langar mun fremur að vera eins og Palli sem var einn í heiminum.

Annars skil ég ekki hvernig fólk getur borðað kjúkling. Hann er bragðlaus, ógeðslegur og þar að auki ávísun á kamfýlóbakter og salmonellu. Aukinheldur virðist ég ekki einu sinni geta skorið í kjúkling án þess að honum fossblæði.

110364266016215920

Sumt fólk ætti ekki að ganga laust. Munurinn á fólki sem þarf læknismeðferð og þeim sem eru „andsetnir af djöflinum“ er enginn. Þeir síðarnefndu þurfa einnig meðferð, þá líklega lyfjameðferð hjá geðlækni.

Mér finnst líka merkilegt að öryggisvörður hafi hugsanlega kveikt í lyftara, tilkynnt eldinn og slökkt hann sjálfur. Mælist ég til þess að Ásgeir taki sig til og kveiki í einhverjum bílnum fyrir utan Dressmann og starti tískubylgju meðal öryggisvarða.

Annars vilja allir hluta af þröngum tíma mínum þessa dagana, þ.m.t. Blóðbankinn. Þetta útheimtir mikla skipulagningu.