Tilvitnun dagsins

… er að þessu sinni úr Íslandsklukku Halldórs Kiljan, en Jón Hreggviðsson hefur nýverið handtekinn af þjóðverjum við landamæri Hollands:

Láttu það vera, sagði Jón Hreggviðsson. Það er brauðið mitt.
Hvurn fjandann ertu að gera við brauð? sagði vaktmeistarinn. Þú sem verður heingdur í fyrramálið. Ég geri þetta brauð upptækt í nafni keisarans.
Hann setti sverðið fyrir brjóst Jóni Hreggviðssyni meðan hann fór inná hann eftir brauðinu. Síðan slíðraði hann sverðið en tók til að stýfa brauðið úr hnefa.
Mikið helvíti er þetta gott brauð, sagði hann. Hvar hefurðu feingið þetta brauð?
Jón Hreggviðsson sagði, á Hollandi.
Já þið hollendíngar eruð ragmenni, sagði vaktmeistarinn. Þið hugsið um brauð. Vér þýðverskir hugsum ekki um brauð. Fallstykki eru meira verð en brauð. Heyrðu, ekki vænti ég þú sért með ostbita á maganum?
Hann þuklaði Jón Hreggviðsson aftur, en fann aungvan ost á honum.
Einhverntíma, hélt hann áfram tyggjandi, einhverntíma skal koma sú tíð að vér þýðverskir munum sýna slíkum brauðætum sem ykkur hollendíngum hvað það kostar að hugsa um brauð. Vér munum kremja ykkur. Vér munum jafna ykkur við jörðu. Vér munum útmá ykkur. Eða áttu nokkra penínga?
Jón Hreggviðsson sagði sem var, að mennirnir í litklæðunum hefðu rænt sig þessum fáu skildíngum.
Já, það veit ég, sagði vaktmeistarinn. Þessi tollaragerpi eru kannski ekki að skilja mikið eftir handa fátækum barnamanni. Þá heyrðist kallað einhversstaðar að utan:
Fritz von Blitz, eigum við ekki að halda áfram í klínknum?

Halldór, ég elska þig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *