Ég er ekki mikið fyrir að hæla sjálfum mér, raunar finnst mér það meira að segja óþægilegt þegar aðrir hæla mér, en sögueinkunnin mín fyrir þetta skólaár liggur nú fyrir. Og ég er orðlaus. Það er gjörsamlega óverðskulduð tveggja stafa tala. Mér finnst eins og ég hafi svindlað á einhverjum.
Það er ekki kennt í dag, en við Brynjar lögðum lokahöndina á ritgerð okkar um Salvador Dalí uppi í skóla áðan. Nú stend ég hér heima og geng álkulega um gólf. Ég er ekki vanur svona frídögum lengur. Ég verð að gera eitthvað. Annars missi ég vitið. Þetta er undarleg tilfinning, að hafa rétt í þessu klárað ritgerð og finnast ég verða að vinna fleiri verkefni. Er þetta til marks um hröðun hins frjálst fallandi ofan í ógnardjúp geðveikinnar? Eða er ég bara farinn fram úr sjálfum mér?
Hungrið læðist aftan að mér. Ætli ég neyðist ekki til að þjappa einhverjum matvælum ofan í vélindað á mér.